Ríkisstjórnin rústar samningsaðstöðu Íslendinga í orkumálum
2.8.2008 | 11:42
Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin virðast engan veginn kunna með gullegg að fara.
Það er eins og úrskurður umhverfisráðherra um sameiginlegt umhverfismat hafi verið tekinn í algeru tómarúmi og er eins óheppilegur og hugsast getur.
Ráðherra bar engin skylda til að fella úrskurðinn á þennan veg, hún er að nýta sér valkvætt heimildarákvæði, þannig að þetta er hrein og klár pólitísk ákvörðun.
Það er í sjálfu sér góðra gjalda vert að meta saman framkvæmdir sem eiga eðlilega saman og eru forsendur hvers annars, enda stóð það til í þessu tilfelli.
- Til stóð að meta saman álverið sjálft og þá hafnargerð sem því tengdist, annars vegar,
- hins vegar stóð til að meta áhrif virkjanaframkvæmda og línulagna þeim tengdum hins vegar
Allt í góðri sátt Skipulagsstofnunnar og framkvæmdaaðila.
En með því að úrskurða að meta eigi allar framkvæmdirnar saman er búið að rústa allri samningsaðstöðu orkuseljenda.
Hvað gerist ef samningaviðræður um orkusölu eða annað rennur út í sandinn, eins og gerðist á Reyðarfirði?
Þá þarf að fara með allar virkjanaframkvæmdirnar aftur í umhverfismat!
Í hvaða stöðu setur sú vitneskja orkukaupendur í gagnvart orkuseljendum?
Það hlýtur að þýða lægra verð.
Hvað gerist ef meiri orka finnst en álverið vill kaupa á ásættanlegu verði?
Þá má annaðhvort ekki nýta þá orku eða taka þarf allt inn í nýtt heildstætt umhverfismat, álver og orkuvinnslu auk nýs orkukaupanda!
Sem þýðir að öll aukaorka myndi líklegast verða seld álverinu á tombóluverði, með afslætti sem næmi í það minnsta kostnaði við að fara í nýtt umhverfismat.
Þetta þýðir í raun að Alcoa er komið í þá aðstöðu að þeir eru komnir með algeran einkarétt á orkunýtingu á Norðausturlandi til næstu ára og áratuga og Þórunn Sveinbjarnardóttir er í raun búin að úrskurða að sú orka sem finnst á Norðausturlandi skuli eingöngu nýtt til álframleiðslu.
Er það í samræmi við Fagra Ísland?
![]() |
Óhaggaður stuðningur við álver á Bakka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |