Ónotatilfinning á lokahátíð Olympíuleikanna
25.8.2008 | 01:00
Er ég einn um að fá ónotatilfinningu þegar hermenn eru látnir handleika olympíufánann með öllum sínum hermannakúnstum, eins og þeir gerðu í lokaathöfn leikanna í kvöld?
Í þessu samhengi er rétt að minnast markmiðs Olympíuhreyfingarinnar:
"the goal of the Olympic Movement is to contribute to building a peaceful and better world by educating youth through sport practised without discrimination of any kind and in the Olympic spirit, which requires mutual understanding with a spirit of friendship, solidarity and fair play."
En mikið rosalega voru þetta samt flottir leikar og vonandi verða þeir til þess að bæta ástand mannréttindamála í þessu fjölmennasta ríki heims sem hlýtur nú að hafa kynnst umheiminum örlítið betur.
Trúnaðarbrot Davíðs Oddssonar
25.8.2008 | 00:18
Í því fári sem hefur orðið um birtingu færslna úr dagbók Matthíasar Johanessens, finnst mér undarlegt að meginfréttin í henni skuli ekki hafa farið hátt.
Það er hvernig Davíð Oddson, þá æðsti embættismaður þjóðarinnar, brýtur trúnað í starfi, þegar hann fer að tala um einkahagi forseta lýðveldisins við mann úti í bæ.
Hann lekur þar með upplýsingum sem hann hefur einungis vitneskju um í krafti þess að hann er æðsti embættismaður þjóðarinnar.
- Og það ekki hvaða mann úti í bæ, heldur ritstjóra dagblaðs.
Það er óþarfi að minna á að hann er enn embættismaður íslensku þjóðarinnar og því eðlilegt að spyrja hvort honum sé sætt í sínum stóli, ef vitnisburður Matthíasar er sannleikanum samkvæmur.