Erfitt að hjálpa þeim sem ekki vill hjálp

Íslendingar eru í vanda. Miklum vanda. Í þeirri stöðu á ekki að láta neins ófreistað til að bæta stöðu landsins á hvern þann hátt sem hægt er.

Einstengisháttur Jóhönnu Sigurðardóttur er með þeim hætti að maður trúir því vart og er hún líklegast að valda þjóðinni miklum búsifjum með því að láta þessa skapgerðarbresti sína hlaupa með sig í gönur.

Jóhanna Sigurðardóttir virðist haldin þeirri ranghugmynd að það geti ekkert gott komið frá Framsóknarflokknum. Ekkert. Ekki gat hún tekið efnahagstillögum Framsóknar í vetur með opnum hug, heldur með útúrsnúningi og skætingi, jafnvel þótt forsendan fyrir stuðningi Framsóknar við minnihlutastjórn hennar hefði einmitt verið að fara hefði átt í raunverulegar efnahagsaðgerðir. Aðgerðir sem enn bólar lítið sem ekkert á.

Nú hafa Framsóknarmenn frumkvæði að því að kanna lánamöguleika hjá frændum okkar Norðmönnum í samvinnu við norska systurflokkinn sinn, með góðum árangri.

Ef Íslendingar óska eftir hjálp Norðmanna liggur nú fyrir að þeirri bón yrði vel tekið.

En það getur Jóhanna ekki sætt sig við og sendir flokksbróður sínum tölvupóst sem ekki er hægt að skilja á annan veg en að hún vilji ekki láta trufla sig og óskar eftir því að þetta sé slegið út af borðinu.

Það svar fékk hún reyndar ekki en reynir samt að láta sem svo að Stoltenberg hafi slegið alla möguleika á stóru láni út af borðinu, sem er ekki rétt.

Það er ekki bara Höskuldur Þórhallsson sem skilur bréf Jóhönnu á þann hátt að hún sé í rauninni að biðja Norðmenn að vera ekki að trufla hana með góðri hjálp, heldur einnig Norðmenn, samanber frétt ABCnyheter, sem skilur málið á sama hátt.

Hvernig stjórnvöld eru það sem vilja ekki aðstoð þegar þau eru í nauð?


mbl.is Kallaði á neikvæð viðbrögð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að afloknu skemmtilegu en sorglegu Umhverfisþingi

Á laugardaginn lauk VI. Umhverfisþingi.

Umræðurnar voru skemmtilegar, erindin áhugaverð og snérust um sjálfbærni og sjálfbæra þróun.

Að mínu mati var niðurstaðan samt meira tal en minna um aðgerðir og lausnir, en auðvitað eru orð til alls fyrst og þær lausnir sem í boði eru núna, sú þekking sem til staðar er og sú hugarfarsbreyting sem orðið hefur á undanförnum árum gefur manni von um að fleiri og fleiri geti og vilji fara slóð sjálfbærrar þróunar.

En það sem stendur sorglega upp úr í mínum huga að loknu þessu þingi er sá trúnaðarbrestur sem virðist hafa orðið milli atvinnulífs og umhverfisumræðunnar.

Á tveimur síðustu Umhverfisþingum sem ég hef sótt, hefur þátttaka atvinnulífsins og fulltrúa þeirra verið mikið meiri, en ég upplifði þetta þing meira sem þing embættismannanna og umhverfisverndarsamtaka.

Auðvitað eiga þeir aðilar að koma og taka þátt í Umhverfisþingi, en þegar einn stærsti þátttakandinn í umhverfismálum þjóðarinnar tekir lítið sem ekkert þátt, er ekki von á árangri og aðgerðum í sátt og samvinnu í anda sjáfbærrar þróunar..

Þvi miður.


mbl.is Segja ráðherra skaða OR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. október 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband