Leiðtogar eiga að tala í lausnum

Ef Silfur Egils er dæmigert fyrir þá umræðu sem í vændum er næsta mánuðinn er enn og aftur að opinberast það algera gjaldþrot sem Samfylkingin stendur frammi fyrir.

Framsókn er eini flokkurinn sem hefur lagt fram tillögur til lausna á þeim bráðavanda sem þjóðfélagið stendur frammi fyrir og hann er mikill. Ef betri tillögur kæmu fram á borðið, hefur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður flokksins sagt að hann myndi fagna þeim, en á þessum vanda eru engar algóðar lausnir, bara miserfiðar.

Samfylkingunni virðist algerlega fyrirmunað að tala í lausnum. Fylkingin bíður eftir því að aðrir komi með tillögur og leysi málin fyrir þau. Hingað til hefur lausnin verið að tala um ESB. ESB aðild muni leysa allt. Það má meira en vel vera að ESB aðild sé þjóðinni til hagsbóta til lengri tíma litið. En meðan heimilin og fyrirtækin eru á hraðleið í þrot og talið er í dögum og vikum er ekki hægt að syngja ESB sönginn. Umsóknaryfirlýsing gæti alveg hjálpað, en aðild breytir engu.

Fjármálakerfið verður að komast í gang til að fyrirtækin fari ekki í þrot. Þau fyrirtæki sem eru yfirskuldsett en eru annars í góðum rekstri verður að endurfjármagna eða koma í hendur nýrra eigenda, heimilin verða að sjá lausnir á þeim vanda sem þau standa frammi fyrir.

Þessu virðist Samfylkingin algerlega hafa gleymt, í það minnsta Árni Páll Árnason forystumaður flokksins í Kraganum. Ef marka má málflutning hans virðist hún bara vinna að málum sem hugsanlega geta hlýjað henni með stundarvinsældum. Sú hlýja sem kemur af því hlandi þverr fljótt í kuldanum sem í efnahagslífinu er. Þá þarf að míga aftur og aftur og aftur, þar til stækjan stendur af þeim langar leiðir. Stækja gjaldþrots án lausna.

Guðfríður Lilja stóð sig ágætlega og virðist búin að átta sig á því að það þarf að takast á við þau verkefni sem framundan eru. VG hefur að vísu ekki tamið sér að tala í lausnum, sem sést berlega á þeirri algeru persónuleikabreytingu sem Steingrímur J hefur orðið fyrir við að setjast í ráðherrastól, en batnandi mönnum er best að lifa.

Sjálfstæðisflokkurinn stendur frammi fyrir algerri endurnýjun og þarf frið til að endurskilgreina sig. Á meðan hann er óskilgreindur getur hann ekki komið að stjórn landsins, enda vissu væntanlegir samstarfsflokkar ekki við hvernig flokk verið væri að fá til samstarfs. Mannval helgarinnar virðist benda til þess að Sjálfstæðisflokkurinn stefni frá frjálslyndi til íhaldsstefnu og einangrunarstefnu, sem í þeirra munni heitir sjálfstæðisstefna.

 


mbl.is Nýir leiðtogar stíga fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. mars 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband