Uppsögn á samningi ríkisins og ÍSÍ?
1.2.2010 | 22:41
Ríkisstjórnin ástundar ómerkilega vinsældapólitík með þeim gjörningi að afhenda handboltalandsliðinu 10 milljónir króna vegna glæsilegs árangurs á EM framhjá kerfinu og brýtur stórlega á öðrum afreksíþróttum í landinu. Þetta er þriðjungur þess sem veitt er í allar afreksíþróttir í landinu, en handboltalandsliðið fékk einnig úthlutað 10 milljónum úr þeim potti.
Ég sem gjaldkeri Frjálsíþróttasambands Íslands lít á þetta sem móðgun við það afreksstarf sem unnið er innan frjálsíþróttahreyfingarinar og algert vantraust á ÍSÍ. Mætti líta á þennan gerning sem uppsögn á þeim samningi, því í honum er kveðið á um að afrekssjóðurinn eigi að vera heildarframlag ríkisins og eigi afreksstarfið ekki að leita annað í ríkiskassann.
Í samningi ríkisins og ÍSÍ sem gerður var árið 2004 var tekið á því vandamáli að fjárlaganefnd væri að ákvarða hvað hver íþróttagrein fengi úthlutað í afreksstyrki oft eftir duttlungum einstakra nefndarmanna. ÍSÍ, Heildarsamtökum íþróttanna á Íslandi var falið að sinna þeirri skiptingu eftir skýrum reglum, byggðu á faglegu mati og undir ströngu eftirliti.
Ríkisstjórninni færi betur að efna gerða samninga við íþróttahreyfinguna í stað þess að grafa undan henni með þessum hætti.
![]() |
Þið stappið í okkur stálinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |