Uppsögn á samningi ríkisins og ÍSÍ?

Ríkisstjórnin ástundar ómerkilega vinsældapólitík með þeim gjörningi að afhenda handboltalandsliðinu 10 milljónir króna vegna glæsilegs árangurs á EM framhjá kerfinu og brýtur stórlega á öðrum afreksíþróttum í landinu. Þetta er þriðjungur þess sem veitt er í allar afreksíþróttir í landinu, en handboltalandsliðið fékk einnig úthlutað 10 milljónum úr þeim potti.

Ég sem gjaldkeri Frjálsíþróttasambands Íslands lít á þetta sem móðgun við það afreksstarf sem unnið er innan frjálsíþróttahreyfingarinar og algert vantraust á ÍSÍ. Mætti líta á þennan gerning sem uppsögn á þeim samningi, því í honum er kveðið á um að afrekssjóðurinn eigi að vera heildarframlag ríkisins og eigi afreksstarfið ekki að leita annað í ríkiskassann.

Í samningi ríkisins og ÍSÍ sem gerður var árið 2004 var tekið á því vandamáli að fjárlaganefnd væri að ákvarða hvað hver íþróttagrein fengi úthlutað í afreksstyrki oft eftir duttlungum einstakra nefndarmanna. ÍSÍ, Heildarsamtökum íþróttanna á Íslandi var falið að sinna þeirri skiptingu eftir skýrum reglum, byggðu á faglegu mati og undir ströngu eftirliti.

Ríkisstjórninni færi betur að efna gerða samninga við íþróttahreyfinguna í stað þess að grafa undan henni með þessum hætti.


mbl.is Þið stappið í okkur stálinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Þarna held ég að framsóknarmaðurinn sé að tala frekar en gjaldkerinn. Auðvitað hafa þeir lagt mikið á sig og farið í mikil útgjöld tengd þessari keppni. Finnst þetta bara sjálfsagt mál. Þessir meistarar voru með alla sjóði tóma enda búnir að satanda í kostnaðarsömum undirbúningi og keppni. Mbk, G

Gunnlaugur B Ólafsson, 1.2.2010 kl. 23:53

2 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Nú - hvað þá með önnur landslið?

Gestur Guðjónsson, 1.2.2010 kl. 23:58

3 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Er ekki bara tilvalið að hafa þetta árangurstengt ef að lið hafa náð að sigra þá bestu að þá fái þau aukaumbun?

Gunnlaugur B Ólafsson, 2.2.2010 kl. 00:04

4 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Það er ekki í samningi ríkisins og ÍSÍ - sá samningur er tvíhliða

Gestur Guðjónsson, 2.2.2010 kl. 00:14

5 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Ég er sama sinnis og Gunnlaugur, það þurfa ekkert allir að fá eins, þeir stóðu sig betur em margur við að fá jákvæða umræðu um okkur þarna úti og stóðu sig bara almennt frábærlega vel, til hamingju með þá.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 2.2.2010 kl. 09:07

6 Smámynd: Ráðsi

Ég hef verið að hugsa þetta og ég er sammála Gesti. Ég vil taka það fram að handboltaliðið stóð sig frábærlega. En nú er blóðugur niðurskurður í flestum velferðarmálum og 10 miljónir kæmu sér hjá mörgum íþróttafélögum og ungmennahreyfingum. Það eru áræðanlega margir þarna úti sem hafa bara engan áhuga á handbolta og eru kannski ekki sáttir. Til dæmis er ég ekkert hrifinn af sinfóníuhljómsveit íslands en hún má vera fyrir mér en þegar niðurskurður fer að bitna á velferðarmálum finnst mér varla réttlætanlegt að moka miklu fjármagni umfram samninga í hluti eins og handboltalið fullorðinna þetta er nú áhugamál en ekki atvinna.

Kanski er þetta þröngsýni eða....

Ráðsi, 2.2.2010 kl. 09:42

7 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Gunnlaugur og Högni eru sem sagt á því að við eigum að fara í sama farið, að hvert sérsamband fari til yfirvalda og máli hosur sínar grænar fyrir stjórnmálamönnum, beiti röksemdum eins og að ef þeir komi með dúsu, séu iðkendurnir svona margir sem horfi til þess þegar þeir kjósa, nema í stað þess að fara í gegnum fjárlaganefnd, sem hefur jú hið formlega og rétta fjárveitingavald, eigi að fara framhjá kerfinu og tala við ráðherra og ríkisstjórn?

Af hverju var landsliði hestamanna ekki veitt nein umbun fyrir alla þá heimsmeistaratitla sem það hefur komið með heim?

Af hverju var briddsliðið ekki styrkt?

Af hverju var frjálsíþróttasambandið ekki styrkt þegar Vala vann bronsið?

Það verða að gilda gagnsæjar og skýrar reglur um þetta, allt uppi á borðum. Annað býður spillingunni heim. Gunnlaugi finnst það kannski í lagi, svo lengi sem það eru hans flokksmenn sem eigi í hlut.

Gestur Guðjónsson, 2.2.2010 kl. 11:49

8 identicon

Ég er einnig sammála honum Gesti.  Vitaskuld skil ég vel þá hugsun og velvild sem Jóhanna Sigurðar sýnir handboltalandsliðinu.  En hafa ber í huga að þetta eru þrátt fyrir allt almannafé.  Ég, svo að dæmi sé tekið, er að horfa á samstarfsfólk mitt að missa starf sitt vegna þess að almannafé skorti.  Það er búið að gera samning við þær íþróttagreinar sem eru fremstar meðal jafningja.  Sá samningur ætti undir þessum kringumstæðum að nægja. 

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 2.2.2010 kl. 18:25

9 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Nei alls ekki ég er á þeirri skoðun að eitthvert "íþrótta x" eigi að fá peninga og skipta þeim síðan innan sinna félaga en ekki að hvert og eitt eigi að mæta fyrir fjárlaganefnd, kannski var ég bara svona hughrifinn af landsliðinu um daginn, en svo megum við ekki gleyma okkur í þunglyndinu að ekki megi gera eitthvað skemmtilegt líka, en ég ætla ekki að pexa við ykkur um þetta því að það er erfitt að réttlæta þetta nú á tímum.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 7.2.2010 kl. 21:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband