Svandís út'í mýri, sett'upp á sig stýri...
3.2.2010 | 19:36
Það er ljótt fúafenið sem umhverfisráðherra hefur anað út í.
Bæði með yfirlýsingum sínum um að hún hafi skipulagsvaldið, ekki sveitarfélögin, en ekki síður með illa ígrundaðri og rangri ákvörðun sinni um að neita að staðfesta skipulag Skeiða- og Gnúpverjahrepps.
Eftir heila 14 mánuði, sem er gróft brot á stjórnsýslulögum, kveður hún loks upp úrskurð um að sveitarfélagi sé óheimilt að endurkrefja framkvæmdaaðila um kostnað vegna breytinga á aðalskipulag og hafni því aðalskipulagi sveitarfélagsins staðfestingar.
Lepur hún upp rangfærslur brottrekins sveitarstjóra Skeiða- og Gnúpverjahrepps sem sagði ósatt um að Landsvirkjun hefði greitt sveitarstjórnarmönnum persónulega fyrir vinnuframlag þeirra við aðalskipulagsbreytinguna.
Það hefur margoft verið leiðrétt, en ráðherrann lætur það lönd og leið og ef hún hefur rækt rannsóknarskyldu sína er hún vísvitandi að fara með rangt mál. Að öðrum kosti hefur hún ekki rækt hana, en samkvæmt skipulagslögum er henni skylt að leita umsagnar sveitarstjórnar áður en hún tekur ákvörðun sína, þannig að farvegurinn er skýr, sem gerir brot umhverfisráðherra enn alvarlegra.
Með þessari ákvörðun setur umhverfisráðherra einnig aðalskipulag allra þeirra sveitarfélaga sem endurkrafið hafa framkvæmdaaðila fyrir skipulagsbreytingar í uppnám og í rauninni alla gjaldtöku vegna skipulagsvinnu sveitarfélaga, enda eru framkvæmdaaðilar krafðir um gjöld um allt land, skv gjaldskrá eða skv útlögðum kostnaði og þeir sem um þau mál fjalla þiggja fyrir það laun, sem samkvæmt úrskurði umhverfisráðherra er óheimilt.
Þannig að ákvörðunin er röng, í andstöðu við fyrirliggjandi frumvarp hennar sjálfrar að nýjum skipulagslögum og með ófyrirséðar afleiðingar fyrir allt skipulagsstarf í landinu.
Landsvirkjun frestar viðræðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:37 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Gestur
Það er margt undarlegt við framgang umhverfisráðherra í þessu máli.
Á borði hennar bíða allnokkur mál sem ráðuneytið þarf að taka afstöðu til á næstu vikum. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig þeim málum reiðir af.
Getur umhverfisráðherra virkilega talist hæf til að taka afstöðu í málum er varða virkjanir, orkuflutningslínur, verksmiðjur og fjárfestingar útlendinga í ljósi fyrri yfirlýsinga?
Bjarni Pálsson, 7.2.2010 kl. 10:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.