Nornaveiðar Helga Seljan
26.4.2007 | 22:29
Einræða Helga Seljan í Kastljósi kvöldsins er með ólíkindum og ber ekki vott um góða blaðamennsku. Mætti halda að hann sé kominn á kaf í pólitík og sé að nota aðstöðu sína sem starfsmanns Kastljóssins til að koma höggi á pólitíska andstæðinga sína.
Helgi heldur sem sagt einræðu um löngu liðið mál og gerir enga tilraun til að upplýsa það til hlítar frá öllum hliðum. Hann hefur greinilega ekki getað fengið neina málsmetandi aðila til að gefa álit og þögn hans um að stúlkan hafi ekki viljað skýra mál sitt ber þess merki að hann hafi ekki reynt að hafa samband við hana til að fá hennar hlið, eins og góðum blaðamanni sæmir. Ég man ekki eftir að einræða hafi verið haldin í Kastljósi áður, án nokkurra innslaga til að styðja málflutninginn.
Guðrún Ögmundsdóttir, sem situr í allsherjarnefnd og hefur verið ólöt við að gagnrýna hvað eina sem henni þykir miður fara, telur málið storm í vatnsglasi og segist ekki hafa vitað af þeim tengslum sem Helga þykja svo áhugaverð.
Hver er fréttin í einræðunni? Sú að stúlkan vill búa á Íslandi eða sú að sonur umhverfisráðherra eigi erlenda unnustu? Mér finnst eðlilegt að Páll Magnússon, sjónvarpsstjóri skýri hvort svona vinnubrögð sé það sem koma skal í RÚV ohf, því Kastljósið heyrir jú beint undir hann, ekki fréttastofuna.
Nefndarmenn hafi tekið fram að þeim hafi verið ókunnugt um tengsl Jónínu og umsækjandans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það vilja nú fleiri búa á Íslandi...
Er mál ekki frétt ef ekki fréttist af því fyrr en síðar?
Ár & síð, 26.4.2007 kl. 23:16
Ekki misbjóða skítsæmilega skynsömu fólki með því að reyna að telja því trú um að Jónína Bjartmarz hafi ekki haft neitt með málið að gera.
Ef til verður niðurstaðan sú að það verði ekki hægt að festa nákvæmlega fingur á því hvern/hvenær/við hvern/ símtalið/tölvupósturinn/kaffispjallið átti sér stað sem hagræddi þessu svona fyrir frú Jónínu... en hugsandi fólk mun samt aldrei trúa því að hún sé saklaus af því.
Heiða B. Heiðars, 26.4.2007 kl. 23:17
Ár & Síð. Það má vera, bendi á tímasetninguna því til stuðnings að þetta mál er ekki tekið upp fyrr en nú. Er sannfærður um að Helgi hafi vitað af þessu máli löngu áður.
Heiða: Þú ert að ætla allri allsherjarnefnd og sérstaklega þeim þremur sem virðast fara yfir málið að vera ómerkinga orða sinna, ósannindamenn. Vilt þú standa við það? Eins og stjórnarandstaðan hefur látið undanfarin þing, ætti hún nú ekki að hafa látið þetta tækifæri fram hjá sér fara á þingi, hefðu henni verið kunnugt um tengslin. Þú ert sem sagt ánægð með fréttamennskuna?
Gestur Guðjónsson, 26.4.2007 kl. 23:22
Já ég geng út frá því að allsherjarnefnd eða hluti hennar hafi séu að hylma yfir með sjálfum sér og Jónínu. Varla færu nefndarmenn að viðurkenna að hafa gert Jónínu greiða og þurft að ljóstra upp í leiðinni um hvaða bakklór þeir fengu í staðinn.
Ég sá ekki Kastljós. En mér finnst Helgi Seljan þurfa að skora helv... hátt í lélegri fréttamennsku til þess að fara að gera hann að aðalleikara í þessum ógeðfellda leikþætti
Heiða B. Heiðars, 26.4.2007 kl. 23:28
Heiða: Ekki hefur þú mikið álit á þessu fólki. Held að hann sé að skora drjúgt í þeirri leiðu keppni. Látum málið allt koma í ljós og dæmum svo. Það er heilladrýgst.
Gestur Guðjónsson, 26.4.2007 kl. 23:35
Nei mikið rétt! Hef t.d alltaf haft mikið álit á Guðrúnu Ögmundsdóttur en það fer ekki mikið fyrir því núna.
Sjáðu til Gestur.. mér er slétt sama hvar í flokki nefndarmenn eru. Ég er vaxin upp úr því að reyna að gera lítið úr e-u máli sem mér finnst stórt bara vegna þess að það gæti/mun kasta skugga á e-n einstakling úr þeim flokki sem mér hugnast.
Flokkar eru samansafn fólks sem þar starfar. Illa gerðir einstaklingar finnast innan þeirra allra. Þegar þeir koma upp á yfirborðið á að bregðast við því. Það heldur fólki réttu megin við siðferðið og styrkir flokksstarfið innanfrá og út á við. Það er nefnilega ekki lítið mál að geta treyst sínum/öllum flokki/um til að bregðast rétt við
Heiða B. Heiðars, 26.4.2007 kl. 23:47
ps. Mikið væri nú gott að fá til dæmis það sem ég myndi kalla eðlileg viðbrögð frá þér hérna. Eðlileg viðbrögð væru, að mínu mati, til dæmis;
"þrátt fyrir að ég treysti JB vel þá er ekki hægt að neita því að þetta lítur ekki vel út. Að sjálfsögðu munum við í F.flokknum kanna þetta mál til hlýtar."
"Verður að teljast ótrúlega óheppileg tilviljun að konan sem um ræðir sé tengdadóttir JB. En við trúum því að svo sé þangað til annað kemur í ljós og munum að sjálfsögðu athuga málið"
"Ef svo ólíklega vill til að JB og nefndarmenn hafi misnotað stöðu sína verður að sjálfsögðu brugðist harkalega við því"
??
Heiða B. Heiðars, 26.4.2007 kl. 23:53
Heiða: Ég er bara svo sannfærður um að það sé ekkert gruggugt í þessu máli að mér finnst ekki taka því að nefna það. Heldur þú að Jónína sé svo grunn að hún reyni yfir höfuð að hafa áhrif á framvindu svona mála? Hún veit eins og er að það myndi bara springa í andlitið á henni.
Ég vil heldur ekki að það að einhver í fjölskyldu minni sinni einhverju starfi svipti mig réttinum til að njóta sömu réttinda og aðrir í samfélaginu, eins og svona umræða er í rauninni að fara fram á. Hvaða vitsmunavera myndi þá vilja styðja einhvern í fjölskyldu sinni til að fara á þing eða bjóða sig sjálf fram til þings?
Gestur Guðjónsson, 26.4.2007 kl. 23:59
Gestur; Getur þú þó gengið svo langt að viðurkenna að þetta sé alveg ótrúleg tilviljun?? Hugsaðu þér, tengdadóttir Jónínu Bjartmarz fær ríkisborgararétt þrátt fyrir að hafa aðeins dvalið hér á landi í 15 mánuði!
Nú hef ég ekki kynnt mér það alla leið, en eftir því sem ég best veit hafa einungis þrýstihópar íþróttafélaga, vinir Bobby Fishers og flóttamenn fengið svona hraða afgreiðslu.
Auðvitað á staða einhvers að svipta viðkomandi réttinum til sömu réttinda og aðrir í samfélaginu. Umræðan er ekki að fara fram á það. Umræðan er að fara fram á að staðan veiti viðkomandi ekki meiri réttinda en annara í samfélaginu
Það að þú skulir gera þátt Helga Seljan að fyrirsögn í þessari umræðu er týpískt fyrir stjórnmálamann (úr öllum flokkum).... en trúðu mér þegar ég segi þér að þið (stjórnmálamenn) eruð löngu búnir að missa sjónar á því að það er vænlegra til árangurs og atkvæða að nálgast eigin óþægilegu mál frá réttri hlið. Þó það sé eflaust óþægileg mál, eins og þetta, og gæti komið sér illa tímabundið.. þá fengjuð þið (stjórnmálamenn almennt;)) traust, virðingu og atkvæði frá nýjum kjósendum
Heiða B. Heiðars, 27.4.2007 kl. 00:08
vantar eitt stykki "ekki" þarna á undan "svipta"
Heiða B. Heiðars, 27.4.2007 kl. 00:10
Ég er viss um að Jónína hafi vitað af því að hún hafi verið að sækja um og eins er ég viss um að hún hafi vandað sig við að vera ekki að blanda sér í það eins og öllum skynsömum og heiðvirðum stjórnmálamanni ber að gera. Sérstaklega vegna þess að það er svo auðvelt að búa til samsæriskenningar og gera málið tortryggilegt. Mér finnst, eins og þér, að það hafi verið rétt hjá Jónínu að beita sér ekki fyrir því að hún reyndi ekki þessa leið, eins og aðrir sem fá synjun hjá Dómsmálaráðuneytinu.
Það að ég nefni Helga Seljan er að ég fæ ekki séð annað en að hann sé kominn á kaf í stjórnmálabaráttuna eins og áður og það á ógeðfelldan hátt. Málið er að Helgi hefur enga nafngreinda heimildamenn og hann hefur greinilega ekki reynt að hafa samband við stúlkuna til að kynna sér röksemdir hennar eða aðstæður. Vonandi verður því fylgt eftir af þeim blaðamönnum sem vilja leiða hið rétta í ljós og mér finnst þetta mál vera þannig vaxið að annað tveggja getur gerst, að Jónína víki eða Helgi Seljan verði rekinn.
ps Gott að þú bættir þessu ekki við. Var ekki að átta mig á röksemdafærslunni.
Gestur Guðjónsson, 27.4.2007 kl. 00:21
Veiddi Helgi seljan norn? Eru þessháttar veiðdýr utan kvóta?
Jóhannes Ragnarsson, 27.4.2007 kl. 00:22
Ok.. núna nefnir þú aftur þetta með að Helgi hefði átt að tala við stelpuna sem um ræðir.... Sú langloka frá mér er á mínu bloggi og mér þætt fínt að fá viðbrögð þín við svari mínu þar til þín og ég kastaði líka til þín spurningu þar.
Sýnist þetta vera lengstu samfelldu skoðanaskiftin sem ég á við e-n hérna á mbl.is og þau ferðast um víðan völl
Heiða B. Heiðars, 27.4.2007 kl. 00:29
Áfram Heiða, þú ert rökföst og skýr. Ekki láta Gest komast upp með hina vel þekktu kappræðutækni að snúa málinu "ad hominem", þ.e. að færa það yfir á persónur og verðleika þeirra í stað þess að svara með málefnalegum rökum. Auðvitað er það frétt þegar svona aðstæður myndast, og auðvitað er erfitt að trúa því að um tilviljun sé að ræða, en Gestur getur kannski fært málefnaleg rök fyrir því að þetta sé einmitt helber tilviljun?
Vilhjálmur Þorsteinsson, 27.4.2007 kl. 00:32
Gestur, Kannski er þetta málið í hnotskurn: JB er framsóknarkona í valdastöðu sem er í hróplegu ósamræmi við umboð hennar. Hún er þ.a.l. gerspillt.
Guðjón Ólafur er framsóknarmaður sem sem þekkir sín takmörk gagnvart valdinu. Hann slapp billega inn á þing og að kjötkötlunum og í samanburði við umboð sitt, er gerspilltur.
G.Ögmunds er fallisti á þingi, önnum kafinn að undir búa útskriftarferð til Kaliforníu. Henni gæti ekki verið meira sama.
B. Ben. er pólitíkus á uppleið. Hann þekkir spilltann framsóknarmann(konu) þegar hann sér hann(hana). Hann veit vel að það verður ekki hann sem endar á grillinu þegar rekunum verður kastað. Hann hefur skjól af nefndarmönnum og JB. Hann hlýtur að hafa skynjað sprengifimi málsins, hvernig sem það kom fyrir. Að vinna málinu fylgi innan nefndarinnar er bara spurning um sölumennsku .
Niðurstaðan er þessi. Skíturinn lenti í viftunni og hefur nú aðallega dreifst yfir andlit JB. Auðvitað lentu stórar klessur á framsóknarflokknum og eitthvað ýrðist yfir B.Ben og G.Ö. Örlög JB verða þau að klára kosningarbaráttuna með skítaklessurnar á andlitinu og henni mun ekki takast að afmá þær án þess að draga sig út úr pólitík, strax.
Eftir allt sem á undan er gengið í pólitísku spillingarvafstri framsóknarflokksins á kjörtímabilinu (sbr. nýjast í Landsvirkjun), þá mun flokknum ekki lánast að afmá síðustu skítaklessurnar fyrir kjördag. Það er vel. Allt ber að sama brunni, græðgisstjórn Sjalla og framsóknar mun falla og framsóknarflokkurinn mun brátt heyra sögunni til.
Jóhann H., 27.4.2007 kl. 00:38
Takk fyrir það Vilhjálmur. En ég verð nú að segja að mér finnst Gestur ekkert vera að "reyna að komast upp með neitt" þrátt fyrir að hann sé Framsóknarmaður Hann er bara að verja sína manneskju og gerir það tiltölulega án þess að dreifa umræðunni.. fyrir utan fyrirsögnina.
Held það styttist í að hann ræði þetta sem hlutlaus aðili
Heiða B. Heiðars, 27.4.2007 kl. 00:39
Jóhannes: Þú ert ágætur.
Vilhjálmur: Þú veist manna best úr líkindafræðinni að það er ekki hægt að færa rök fyrir tilviljunum. Líklegast er mesta tilviljunin sú að þessi stúlka hafi hitt son Jónínu og fellt hugi til hans og viljað búa á Íslandi áfram. Verandi á námsmannadvalarleyfi held ég að hún verði að fara úr landi aftur til að geta svo sótt um venjulegt dvalarleyfi. Þessi leið er fær og þeim sem synjað er af Dómsmálaráðuneytinu er bent á hana. Stúlkan sótti um og fékk ríkisborgararéttindi. Heldur þú, frændi sæll, í alvörunni að þetta væri ekki löngu komið í ljós ef eitthvað hefði verið óhreint í þessu máli? Mér hafa nú ekki fundist þingmenn vera það góðir í að halda í sér safaríkum fréttum.
Jóhann Hafsteinn: Á Íslandi er lýðræði sem byggist á þingræði. Á þing er kosið eftir lögum og hafa allir á þingi hafa jafnan rétt til að sitja þar, hvort sem við erum þeim sammála eður ei. Þannig að það heldur engu vatni að tala um að einhver þingmaður hafi ekki umboð til setu á þingi. Þaðan af síður að þingmaður sé spilltur bara af því að hann er eini þingmaður viðkomandi flokks í sínu kjördæmi.
Guðrún Ögmundsdóttir á ekki skilið þetta frá þér frekar en aðrir sem þú nefnir.
Heiða skal kíkja yfir...
Gestur Guðjónsson, 27.4.2007 kl. 01:00
SkúliS; Ertu til í að vera aðeins skýrari um það hvaða vitleysu ég er að halda á lofti. Ef þú ert að tala um mismunandi sýn okkar á umræðuefninu þá ætla ég bara að halda mér við að kalla það "skoðanaskipti" og skal alveg sleppa því að kalla þína röksemdarfærslu ósanna vitleysu-
Það má endalaust velta þessu svona... Kannski taldi hún óhætt að skipta sér af störfum nefndarinnar einmitt í þeirri trú að engin myndi ímynda sér að hún tæki þann séns. Persónulega sýnist mér hún alveg laus við að burðast með siðferðiskennd og er á því að henni finnist hún ósnertanleg... kannski ekki skrítið miðað við sögu hennar.
Það að tengdadóttir Jónínu Bjartmarz skyldi fá Íslenskan ríkisborgararétt eftir aðeins 15 mánaða dvöl í landinu stendur algjörlega eitt og sér sem stórfrétt
En Helgi Seljan og þessi fréttatími dugar í ryksláttinn eitt og sér. Frekar pínlegt þegar svona mál er annars vegar að beita Helga Seljan fyrir sig .. shoot the messenger
Heiða B. Heiðars, 27.4.2007 kl. 01:10
Heiða: Kannski ekki skrítið miðað við sögu hennar. Hvað áttu við? Af hverju ertu að gefa þér að hún hafi skipt sér af störfum nefndarinnar, þegar allir þeir sem koma að málinu halda hinu gagnstæða fram? Telur þú þingheim allan óheiðarlegt fólk? Telur þú eðlilegt að svipta fólk sem er tengt stjórnmálamönnum rétti þeirra? Treystir þú Helga Seljan betur en þeim að koma þessu á framfæri á sanngjarnan hátt án þess að hann nefni einn heimildamann eða fái einn mann í viðtal? Hann og Þórhallur vita mæta vel að þetta eru stóralvarlegar árásir á æru Ráðherra í ríkisstjórn Íslands og það verður að gera þá kröfu til þeirra að þeir geti rökstutt mál sitt með einhverju öðru en fullyrðungum sem ekki eru útlistaðar nánar? Þú athugar að hann er fv kosningastjóri Samfylkingarinnar og því tæpast hlutlaus.
Þú athugar að hvorki vísir.is né mbl.is hafa tekið undir málflutning rúv í kvöld, sem er óvenjulegt. Það verður einnig fróðlegt að fylgjast með því hvernig þeir taka á málinu á morgun, sem og Fréttablaðið.
Gestur Guðjónsson, 27.4.2007 kl. 01:24
Erum við að upplifa nýjan Marshall fyrir framan stjórnarráðið með útskriftina af netinu?
Gestur Guðjónsson, 27.4.2007 kl. 01:30
Hvað áttu við Gestur?
Tómas Þóroddsson, 27.4.2007 kl. 01:44
Gestur; (vá!mörg spurningamerki)...
*Með sögu hennar á ég t.d við nána tengingu hennar við einn olíusamráðs- baróninn.
*Segjum sem svo að hún hafi beitt sér fyrir því að niðurstaða nefndarinnar færi á þennan veg og nefndin látið til leiðast. Þá verður að teljast ólíklegt að þeir nefndarmenn viðurkenni að hafa látið undan JB og ekki gætt hlutleysis eins og henni ber.
*Nei ég tel meirihluta þingheims heiðarlegt fólk. En ég held að hugmyndir margra stjórnmálamanna um heiðarleika, prinsipp og einlægni breytist með tímanum. Þegar verið er að "bítta" á málum og málefnum árum saman og hugsjónir og forgangsverkefni sitja á hakanum og allt snýst um kaup/kaups þá skekkist myndin. Ég held líka að þeir sem eru ekki heiðarlegir að upplagi hafi brenglaða mynd af því hvað "þeir eiga skilið" sbr Árni J sem ýkt dæmi en ég held að þeir séu margir Árnarnir, bara lang því frá svona stórtækir.
*Auðvitað tel ég ekki eðlilegt að svipta fólk sem er tengt stj.mönnum rétti þeirra. Var reyndar búin að svara þessu... Allir sama rétt en hér er um að ræða "meiri réttur"- ekki satt?
Helgi Seljan er bara fréttamaður! Þarf ekki að treysta honum lengra en svo að hann setji málin í gang. Það er ekki hans að dæma.
SkúliS; Nauðbeygt fulltrúa... Nei, ég hef aldrei haldið því fram. Ég veit ekkert hvað gerðist ef eitthvað... Guðrún Ögmunds gæti þess vegna hafa átt upptökin... segi bara svona vegna þess að ég vil að þú skiljir að spilling er spillin, misnotkun á aðstöðu sinni er misnotkun.. mér er alveg sama hvaða flokki viðkomandi tilheyrir. Einn spilltur stjórnmálamaður er alveg jafn fyrilitlegur hvort sem hann er Framsóknarmaður,Samfylkingarmaður eða Sjálfstæðismaður....og hvað hinir addna flokkarnir heita nú
Þó svo að þú gefir trúverðugleikanum einkunn eftir því frá hvaða bókstaf hann kemur ekki ætla mér það sama
Heiða B. Heiðars, 27.4.2007 kl. 02:03
Úttekt, greining og lausn á framsóknarvandanum
Flokkur þessi fullur er af kjánum
sem finna ekki skóginn út af trjánum
og til að verði fyrir honum friður
framsóknina skulum leggja niður.
Már Högnason (IP-tala skráð) 27.4.2007 kl. 06:28
Tommi: Þú manst kannski ekki eftir því þegar Róbert Marshall, 3. maður þinn, stóð fyrir utan stjórnarráðið og sagði forsætisráðherra lygara.
Valgeir: Rétt
Heiða:
Gestur Guðjónsson, 27.4.2007 kl. 08:30
Nornaveiðar eru réttlætanlegar svo framarlega sem verið sé að veiða nornir.
Eysteinn Ingólfsson, 27.4.2007 kl. 08:31
Eysteinn. Rétt, en það er ekki verið að
Jóhann, þú ert aldeilis málefnalegur
Gestur Guðjónsson, 27.4.2007 kl. 08:51
Ég sé bara akkurat ekkert athugavert við þessa umfjöllun.
Hilmar Ingi Ómarsson (IP-tala skráð) 27.4.2007 kl. 10:47
Hilmar: Það getur þú sagt án þess að allar hliðar málsins hafi verið skýrðar?
Gestur Guðjónsson, 27.4.2007 kl. 10:51
Hvað sem öllu líður varðandi óheilindi fréttamanna eða þingmanna þá hef ég ekki heyrt ennþá nein rök fyrir því afhverju þessi umrædda stelpa fékk ríkisborgararétt með flýtimeðferð. Er það það ekki aðalmálið áður en farið er að hrauna yfir persónur?
Býr einhver lesandi hér yfir vitneskju um þau rök sem um ræðir?
Gunnar Aron Ólason, 27.4.2007 kl. 10:52
Mikið hlýtur fólki að líða vel að fá svona fútt í umræðuna Gestur. Það er ágætt...Eða hvað?
Sveinn Hjörtur , 27.4.2007 kl. 10:54
Gunnar Aron: Er það ekki skylda fréttamannsins að færa rökin um leið og hann sendir fréttina. Hann heldur því blákalt fram án þess að útskýra það neitt frekar að þetta hafi verið með óeðlilegum hætti. Punktur.
Meðan hann gerir það ekki, er hann í mínum augum að vinna sem kosningastjóri Samfylkingarinnar eins og hann gerði fyrir 4 árum í NA kjördæmi.
Sveinn Hjörtur. Svona mál þarf að ræða fyrst menn ráðast svona makalaust á fólk.
Gestur Guðjónsson, 27.4.2007 kl. 11:00
Það þætti nú varla mikil frétt ef hann hefði, í rannsóknarvinnu, fundið rökin MEÐ veitingu ríkisborgararéttarins? Sjálfsagt hefur honum fundist fréttnæmt að rökin MEÐ veitingunni virðast engin sérstök. Allavega ekki hingað til en ég er ekki búinn að dæma þetta mál þannig að rökin séu engin, ég bara hef ekki heyrt þau.
Ég skil þess vegna ekki afhverju nefndarmenn(a.t.h. ekki Jónína) taka ekki allan vafa af þessu máli og skýra út hvers vegna þessi stúlka fékk ríkisborgararéttinn með flýtimeðferð. Ef þau rök kæmu upp á yfirborðið og þau myndu vera málefnaleg þá myndi þetta mál að sjálfsögðu ekki vera jafnáberandi í umræðunni.
Gunnar Aron Ólason, 27.4.2007 kl. 11:23
Nefndarmenn hafa tekið fyrir allan vafa um að hún hafi ekki haft nein áhrif á meðferð málsins og þeim hafi ekki verið kunnugt um tengsl hennar við Jónínu.
Gestur Guðjónsson, 27.4.2007 kl. 11:33
En hvað með rökin fyrir leyfisveitingunni?
Ætli þetta hafi verið það sem var sagt á fundi Allsherjarnefndar þegar hún fékk ríkisborgararéttinn:
"Útlendína Erlends fær flýtimeðferð í veitingu íslensk ríkisborgararéttar vegna þess að hún tengist engum alþingismanni."
Ég held ekki.
Ég er ekki að segja að Jónína hafi gert eitt eða neitt rangt heldur langar mig að vita rökin á bakvið veitingu ríkisborgararéttarins. Vona að þetta sé skýrt hjá mér.
Hefur þetta til dæmis fordæmisgildi þegar aðrir vilja íslenskan ríkisborgararétt eftir 15 mánaða búsetu hér á námsmannadvalarleyfi? Það er annað sem maður myndi vilja vita.
Gunnar Aron Ólason, 27.4.2007 kl. 11:43
Um leið ertu að fara fram á að hið sama gildi um alla aðra sem fá ríkisborgararétt með þessum hætti, ekki satt, því ekki má mismuna fólki eftir því hvort einhver tengdur þér sé í pólitík eða ekki?
Það hefur ekki tíðkast, en mun kannski breytast vegna þessarar umfjöllunar. Veit ekki hvort það sé til bóta fyrir vellíðan þess fólks sem þarf að fara þessa leið í kerfinu.
Gestur Guðjónsson, 27.4.2007 kl. 11:55
Þetta er kostulegt.
Það sjá það allir sem vilja sjá, að þetta mál lyktar sterklega af hagsmunapoti sem hefur lengi loðað við þennan fornfræga flokk. Hvar sem maður stendur í pólitík er ekki hægt að neita þeim langlífa orðrómi, hvort sem manni líkar það eða ekki.
Núna kemur þetta vandræðalega mál upp og hinn röggsami síðuhaldari, sem er yfirlýstur framsóknarmaður, Gestur Guðjónsson kemur sinni konu til varnar. Þetta er ekki flóknara en það. ( Fyrirsögnin er reyndar óhefluð og ósmekkleg að mínu mati )
Það er enginn að fara láta Gest skipta um skoðun jafnvel þótt upptökur af meintri spillingu yrðu lagðar fram.
Húsbóndahollusta er mikils metin í stjórnarflokkunum og spái ég því Gesti frama innan framsóknar í framtíðinni.
Að lokum vona ég sannarlega að Jónína, sem ég tel með betri framsóknarkonum, hafi ekkert haft með þetta að gera þó svo að ég telji líkurnar á því hverfandi.
Sveinn Waage, 27.4.2007 kl. 12:40
Æi Gestur.. þetta var nú frekar þunnt hjá þér.
Það eru nokkrir aðilar sem hafa fengið svona flýtimeðferð, þar á meðal Bobby Fisher og nokkrir (8 eftir því sem ég kemst næst) aðrir íþróttamenn. Rökin á bak við þær flýtimeðferðir voru að þeir væru líklegir til að auka hróður landsins með frammistöðu sinni sem íþróttamenn.
Mörg þessara mála hafa verið í umræðunni áður en þeim var úthlutað ríkisborgararéttinum.. sumar hverjar heitar þar sem fólk var ekki á einu máli um hvort þeir ættu að skilið að fá þessa flýtimeðferð.
Hér erum við að tala um tæplega tvítugan nemanda sem hefur dvalið hérna með "Takmörkuðu námsleyfi". Eina sjáanlega sérstaða þessa nýja Íslendings er að hún er tengdadóttir Jónínu Bjartmarz.
Hvernig getið þið samvisku ykkar vegna haldið því til streitu að þetta líti ekki út fyrir að vera vafasamt.
Nú er ég búin að horfa á fréttina hans Helga Seljan tvisvar. Það er akkúrat ekkert athugavert við fréttaflutningin. Þetta er frétt... stórfrétt jafnvel.
Heiða B. Heiðars, 27.4.2007 kl. 12:45
Verða menn ekki líka að hafa í huga að um fréttaritstjórn er að ræða? Helgi segir fréttina en fréttastjóri er ábyrgur og þarna var örugglega ekkert sagt sem ekki var full innistæða fyrir og búið að kanna og leita staðfestingar á eins og mögulegt var.
Ár & síð, 27.4.2007 kl. 12:58
Gestur, það er einfaldlega ekki búið að taka fyrir allan vafa. Ekki í mínum augum, og ekki í augum fjölmargra annarra. Það hefur ekkert með einstakar persónur og trúverðugleika þeirra að gera - staðreyndin er sú að manneskju sem hefur verið hér stutt, og er ekki einu sinni gift Íslendingi, þó hún sé kærasta eins slíks, var veittur ríkisborgararéttur. Það væri ekkert óeðlilegt við þetta, ef að þetta væri algengt. Þvert á móti er hins vegar ljóst að þetta er afskaplega sjaldgæft. Venjan er sú að fólk þurfi að vera hér í fjölmörg ár til að eiga svo mikið sem færi á því að fá íslenskan ríkisborgararétt. Maður hefur meira að segja heyrt af því að fólk sem er gift íslendingum hefur lent í vandræðum með að fá þennan rétt. Þetta er einfaldlega strangt og óvægið kerfi. Auðvitað er það lítið annað en huglægt mat á meðan ekki liggja fyrir skýrar reglur - en það er auðvitað hluti af vandanum. Á meðan slíkar reglur eru ekki til er þetta kerfi lítið annað en geðþóttakerfi sem er galopið fyrir misnotkun. Þetta mál er afskaplega óheppilegt, og fólk hlýtur að kalla á útskýringar og loforð um að allt heila klabbið verði tekið til rækilegrar endurskoðunar.
Mér gremst ósegjanlega mikið þetta eilífa kjaftæði í íslenskri pólitík - um leið og eitthvað svona kemur upp, þá er bara röflað eitthvað út í loftið. Og við erum ekkert að tala um léttvægt mál. Veiting íslensks ríkisborgararéttar er nokkuð sem getur haft stórvægileg áhrif á líf fólks, til eða frá. Þetta er ekki eitthvað sem á bara að afgreiða sisvona. Hvers konar skilaboð eru þetta eiginlega til hinna fjölmörgu sem hafa barist í bökkum við kerfið við að fá ríkisborgararétt, árangurslaust - að einhver ung stelpa fær undanþágu frá reglunum, og svo vill bara einhvern veginn til að hún er tengd ráðherra?
Undirstaða kerfisins er hrunin, sérstaklega þegar enginn efnislegur rökstuðningur fylgir þessari ákvörðun. Þetta er bara einfaldlega "af því bara". Á hvaða grundvelli mun þá fólki verða synjað ríkisborgararétti í framtíðinni? "Af því bara"? Þetta er bara einfaldlega blaut tuska í andlit allra þeirra sem hafa fengið synjun ríkisborgararéttar.
Það er andskotans skömm að þessu máli, og skömm að því að fólk sé tilbúið að rísa upp og verja það. Þetta eru ekki vinnubrögð sem við viljum sjá í lýðræðisríki. Almenningur á heimtingu á útskýringum, og ekkert rugl.
Þarfagreinir, 27.4.2007 kl. 13:08
Vel mælt Þarfagreinir.
Þið Framsóknarmenn hafið ekki síður verið sviknir af þessari konu en restin af þjóðinni. Ef þið bregðist ekki við þessu máli eruði að leggja blessun ykkar yfir það... og það er slæmt mál
Heiða B. Heiðars, 27.4.2007 kl. 13:11
Já þetta hefur svo sannarlega verið gert áður og ég er ekki hrifinn af því en eins og Heiða bendir á þá hefur það alltaf verið undir því yfirskyni að um íþróttamenn eða slík sé að ræða eða einstaklinga sem auka hróður landsins á einhvern hátt svo um nemi. Mér hefur alltaf fundist það hræsnisfullt og bjánalegt svo ekki sé meira sagt.
Það virðist mega sveigja lögin svo lengi sem meðlimir innan löggjafarvaldsins geri það, við borgararnir megum það ekki en þeir sem við kjósum mega það. Skrýtið.
En þegar fólk er farið að fá ríkisborgararéttindi án nokkurra sérstakra raka þá er fokið í flest skjól, ef ekki öll. Ég endurtek: ÁN NOKKURRA SÉRSTAKRA RAKA!!!
Eins og áður sagði þá er ég ekki að segja að þessi rök séu ekki til heldur það að þau hafa ekki komið upp á yfirborðið af einhverjum ástæðum...
Dæmisaga: Ég yrði móðgaður og fólillur ef ég kæmi að bílnum mínum þar sem búið væri að brjóta í honum rúðu og keyra hann frá þeim stað sem ég lagði honum.
Svo kæmi sú útskýring að þetta hafi verið gert svo að slökkvilið gæti komist að brennandi húsi og unnið sín störf. Það eru rök sem hægt er að sætta sig við og ég myndi skilja þann sem braut rúðuna fullkomlega. Ég yrði ekki lengur reiður.
Stundum líta hlutir út við fyrstu sýn afar undarlegir og óréttlátir en þegar allir aðilar hafa útskýrt sitt mál þá má sætta sig við ýmislegt ef að réttmætar ástæður eru fyrir gjörningi hvers og eins. En þegar einhver brýtur lög í skjóli valds síns og gefur ekki upp réttmæta ástæðu þess þá er sá hinn sami orðinn grunsamlegur og það er málið sem hér um ræðir.
Gunnar Aron Ólason, 27.4.2007 kl. 13:20
Ég er alfarið ósammála þér - það er mjög þarft að upplýsa almenning um svona mál. Þetta er ekkert nema spilling og óskiljanlegt að Alsherjarnefnd veiti Ríkisborgararétt þvert gegn umsögnum Útlendingastofnunar og Lögreglunnar. Þ.a.l. lyktar málið af spillingu þar sem um tengdadóttur Umhverfisráðherra er um að ræða. Í nágrannalöndum okkar segja menn af sér við svona uppákomur. Skammist ykkar :(
Björn Zoéga Björnsson, 27.4.2007 kl. 13:36
Hvað er svo sem ein tengdadóttir milli vina?
Auðun Gíslason, 27.4.2007 kl. 13:42
Sveinn Waage: Já ég er yfirlýstur Framsóknarmaður og stoltur af mínum flokk og stefnu hans. Það hefur margoft komið fram að hún hefur ekkert beitt sér í þessu máli. Nefndarmenn hafa staðfest það og lengra er ekki hægt að komast með það mál öðruvísi en að kalla þau ósannindafólk.
Heiða: það er ca 40 manns á ári veittur ríkisborgararéttur með lögum. Hver hefur sínar ástæður, sem auðvitað eru ekki gefnar upp, af persónuverndarástæðum. Þannig að þú veist eitthvað meira en þú mátt vita í raun. Er ekki rétt að bíða eftir því að heyra hvaða ástæður eru fyrir þessu áður en þú dæmir svona. Gott að þú ert búin að horfa á þetta núna eftir ég veit ekki hvað mörg komment um málið.
Ár & Síð. Kastljósið er ekki undir fréttaritstjórn fréttastofunnar. Þeir Þórhallur og Helgi heyra beint undir Pál Magnússon útvarpsstjóra.
Þarfagreinir:
"að einhver ung stelpa fær undanþágu frá reglunum, og svo vill bara einhvern veginn til að hún er tengd ráðherra" ca 40 manns fá ríkisborgararétt eftir þessari leið árlega. Ekki er um neina undanþágu að ræða, heldur ríkisborgararéttarveitingu með lögum. Þeir sem fóru yfir málið á Alþingi vissu ekkert um tengingu ráðherrans og þessa einstaklings. Það hefur margoft komið fram.
"Undirstaða kerfisins er hrunin, sérstaklega þegar enginn efnislegur rökstuðningur fylgir þessari ákvörðun". Hvernig veist þú það? Helgi hefur ekki haft fyrir því að kanna með þann rökstuðning amk ekki að deila honum með okkur. Hann getur ekki haft nein gögn í málinu. Annað hvort er þetta hreinn uppspuni og kjaftasögur sem hann byggir ályktun sína á eða hann er með ólögleg gögn í höndunum um alla þessa 36 eða 38aðila sem sóttu um.
"Þetta eru ekki vinnubrögð sem við viljum sjá í lýðræðisríki." Þetta er einmitt það sem er gott við lýðræðisríki, að löggjafarsamkoman getur veitt réttindi vegna sérstakra aðstæðna sem passa ekki inn í almenna rammann.
Gunnar Aron: Á hverju byggur þú þá fullyrðingu að það séu engin sérstök rök? Veist þú hver rökin eru. Þú áttar þig á því að Helgi Seljan, fv kosningastjóri Samfylkingarinnar metur það svo, án þess að gera neina grein fyrir því. "En þegar einhver brýtur lög í skjóli valds síns og gefur ekki upp réttmæta ástæðu þess þá er sá hinn sami orðinn grunsamlegur og það er málið sem hér um ræðir. " Hvaða lög hafa verið brotin? Viltu segja mér á hverju þú byggir það í ljósi þess sem fram hefur komið í málinu?
Björn: Ég veit ekki betur en að þetta fyrirkomulag sé viðhaft í öllum löndunum í kringum okkur. Hvar hefur komið fram að lögreglan hafi lagst gegn málinu? Útlendingastofnun veitir katagorískt ekki jákvæða umsögn um allar umsóknir sem ekki uppfylla skilyrði hinna laganna. Þannig að það er að færa málið úr samhengi að segja að útlendingastofnun hafi lagst sérstaklega gegn þessu eins og Helgi fullyrðir.
Gestur Guðjónsson, 27.4.2007 kl. 13:59
hversu illa sem manni geðjast að umfjöllun Helga Seljan og hversu mikið sem manni finns þetta vera plott og samsæri til að koma höggi á Jónínu Bjartmanz á versta tíma rétt fyirr kosningar þá verður að horfast í augu við stöðuna. Staðan er sú að dregin hefur verið í kastjós fjölmiðla afgreiðsla á ríkisborgararétti til ákveðins einstaklings í fjölskyldu Jónínu. Það að úthúða Helga Seljan dregur ekki athyglina frá því. Það eina rétta í stöðunni er bara að skýra hreinskilnislega og heiðarlega frá hvernig aðstæður voru og hvernig farið var með þetta mál og hvernig farið er með sambærileg mál. Mér virðist ekki hafa verið neinn ágreiningur um þessar ríkisborgaraveitingar í Alþingi. Enginn greiddi atkvæði á móti og það varð að ég held engin umræða. Er ég kannski með vitlausa afgreiðslu í huga, ég fann þessa http://www.althingi.is/altext/133/s/0468.html
Ég sá að það eru 21 sem hafa skotið máli um ríkisborgararétt til alserjarnefndar og 13 úr þeirra hópi hafa hlotið þá náð fyrir augum nefndarinnar að með þeim hefur verið mælt. Sennilega hefur umsókn tengdadóttur Jónínu h verið vel undirbúin. Ef til vill eru allar umsóknir sem eru vel rökstuddar samþykktar.
Það væri alla vega fróðlegt að fá upplýsingar um það. Það er alsherjarnefnd sem á að svara í þessu máli.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 27.4.2007 kl. 14:05
Gestur. Hvaða aðrar hliðar eiga eftir að koma í ljós?? Þú veist að þetta svar hjá þér er tilbúið smjörklípusvar.
"Tommi: Þú manst kannski ekki eftir því þegar Róbert Marshall, 3. maður þinn, stóð fyrir utan stjórnarráðið og sagði forsætisráðherra lygara"
Kannski ekki lygara, spurði hvort hann væri að segja ósatt (var þetta ekki eitthvað um Íraksstríðið? ). En þar gerði Róbert ein mistök og sagði af sér fréttamennsku í kjölfarið.
p.s. Takk fyrir að koma þessu að, gerir samanburðin á flokkunum svo augljósan.
Tómas Þóroddsson, 27.4.2007 kl. 14:11
Gunnar Aron: Á hverju byggur þú þá fullyrðingu að það séu engin sérstök rök? Veist þú hver rökin eru. Þú áttar þig á því að Helgi Seljan, fv kosningastjóri Samfylkingarinnar metur það svo, án þess að gera neina grein fyrir því. "En þegar einhver brýtur lög í skjóli valds síns og gefur ekki upp réttmæta ástæðu þess þá er sá hinn sami orðinn grunsamlegur og það er málið sem hér um ræðir. " Hvaða lög hafa verið brotin? Viltu segja mér á hverju þú byggir það í ljósi þess sem fram hefur komið í málinu?
Til að svara þessu:
"Á hverju byggur þú þá fullyrðingu að það séu engin sérstök rök? Veist þú hver rökin eru."
Það er einmitt heila málið Gestur, það eru engin rök komin fram!!!!!!!! Og þess vegna er þetta svona grunsamlegt og umtalað! Og þess vegna veit ég ekki hver rökin eru. Guðrún Ögmunds "man ekki hver rökin voru". Aðrir nefndarmenn hafa ekki tjáð sig um málið svo ég viti. Þess má geta að ég sendi öllum nefndarmönnum í Allsherjarnefnd tölvupóst í morgun og bað um stutta útskýringu eða rök, tilvísun í lög. Það er skemmst frá því að segja að enginn þeirra hefur svarað.
"Hvaða lög hafa verið brotin? Viltu segja mér á hverju þú byggir það í ljósi þess sem fram hefur komið í málinu?"
Það eru lög nr. 100 frá 1953 eða Lög um íslenskan ríkisborgararétt. Þar stendur skýrum stöfum í 5.gr a, A-hluti, 1. töluliður um búsetuskilyrði: "Umsækjandi hafi átt hér lögheimili í sjö ár; ríkisborgari í einhverju hinna Norðurlandanna þó einungis í fjögur ár." Þessi hluti laganna hefur verið brotinn, ég byggi þá ályktun mína á fréttaflutningi um það að stúlkan hefur einungis verið hér á landi í 15 mánuði. Ég þarf varla að útskýra þetta betur en ætla þó að gera það svo að enginn misskilningur verði:
15 mánuðir = 1 ár og þrír mánuðir.
Skilyrði laga = 7 ár.
7 ár eru ekki 15 mánuðir. 15 mánuðir eru heldur ekki 7 ár. Alveg sama hvað maður reynir að berja hausnum við steininn þá getur þetta ekki gengið upp.
Það kann að vera að lögfróðir menn finni það út að þetta ákvæði laganna víki í einhverjum tilfellum fyrir öðru og mikilvægara ákvæði í íslenskum lögum. Ég hef ekki heyrt um það ennþá.
Gunnar Aron Ólason, 27.4.2007 kl. 14:23
Gestur, ég finn mig knúinn til að svara þér aftur:
"ca 40 manns fá ríkisborgararétt eftir þessari leið árlega. Ekki er um neina undanþágu að ræða, heldur ríkisborgararéttarveitingu með lögum."
Ég veit það. Ég veit að þetta var fullkomlega lögleg afgreiðsla. Reglurnar sem ég er að tala um eru, eins og ég segi, því miður óformlegar. Ég veit einungis það sem ég hef heyrt útundan mér, og það sem almenningur virðist vera sammála um í sameiginlegri visku sinni - að venjan er að fólk þarf að uppfylla miklu strengri skilyrði. Svona frávik frá þeirri venju þarf að rökstyðja, og það rækilega.
"Hvernig veist þú það? [Að enginn efnislegur rökstuðningur liggi fyrir ákvörðuninni]"
Hefur þú heyrt einhvern rökstuðning frá einhverjum hingað til? Ef svo er, þá þætti mér gaman ef þú gætir bent mér á hvar hann er að finna.
"Þetta er einmitt það sem er gott við lýðræðisríki, að löggjafarsamkoman getur veitt réttindi vegna sérstakra aðstæðna sem passa ekki inn í almenna rammann."
Enn og aftur, gott og blessað ef við fáum að vita hverjar þessar aðstæður eru. Þetta er sérstaklega mikilvægt gagnvart öllum hinum sem fá synjun. Ef þú færð synjun á starfsumsókn, þætti þér ekki eðlilegt að fá að vita ástæðurnar, sem og ástæður þess að sá sem ráðinn var þótti eiga stöðuna frekar skilið?
Ég myndi sætta mig við einhver af eftirfarandi svörum frá einhverjum sem kom að málinu:
- Ástæða þess að þessi stúlka fékk ríkisborgararétt er blablabla
- Það er alrangt að þetta sé einhver undantekning. Hér eru dæmi um fleira fólk sem hefur fengið ríkisborgararétt sem var í svipaðri aðstöðu: blablabla
- Þetta mál sýnir fram á brotalamir í kerfinu; það þarf að endurskoða það svo það sé pottþétt og gruni um misnotkun sé eytt.
En nei, við fáum ekki að heyra neitt af þessu. Bara algjöra fjárans þögn. Og kerfi sem er háð órökstuddum geðþótta. SVÖR TAKK!
Þarfagreinir, 27.4.2007 kl. 14:26
Salvör: Jónína mun svara á þeim vettvangi sem málið er lagt fram, ef Kastljósmönnum þóknast að fá hana í viðtal. Það er eðlilegast að fá að útskýra málið í heild sinni.
Tommi: Eftir mínum heimildum fór Róbert aldrei af launaskrá, þótt hann hafi hætt í fréttamennsku. Hann fór í sérverkefnið að stofna NFS. Sér er nú hver afsögnin og ég vona að þú sért ekki stoltur af því að formaður blaðamannafélagsins hagi sér með þessum hætti. Hef reyndar aldrei heyrt um menn segja af sér í launastörfum. Menn segja upp.
Gunnar Aron: Bjarni Benediktsson hefur einnig tjáð sig og ég býst við að Guðjón Ólafur hafi gert það líka, þótt ég hafi ekki séð það. Amk stæði ekki á svari frá honum frekar en fyrri daginn. Þú áttar þig að það hafa hvorki komið fram rök fyrir hennar afgreiðslu, frekar en afgreiðslu hinna. Helgi Seljan hefði auðvitað átt að koma fram með þau rök ef hann vill láta taka sig alvarlega. Hann slengir bara fullyrðingu fram í anda "let them deny it" aðferðarinnar, enda vanur kosningastjóri á ferð. "Það kann að vera að lögfróðir menn finni það út að þetta ákvæði laganna víki í einhverjum tilfellum fyrir öðru og mikilvægara ákvæði í íslenskum lögum. Ég hef ekki heyrt um það ennþá." Það hefur margoft komið fram í umræðunni að umræddur ríkisborgararéttur var ekki veittur skv þessari grein, heldur með sérstökum lögum, sem veita uþb 40 manns ríkisborgararétt á hverju ári. Það eru fleiri hundruð manns sem hljóta ríkisborgararétt eftir þeirri grein sem þú ræðir um, en það er ekki það sem verið er að ræða um hér.
Þarfagreinir: Ég veit ekki betur en að Jónína sé reiðubúin að fara í Kastljósið í kvöld til að skýra málið á þeim vettvangi sem málið er komið frá.
Ég er ekki viss um að það sé rétt að í hvert einasta skipti sem einstaklingi er veittur ríkisborgararéttur skv þessari aðferð, að þá sé básúnað. Um er að ræða málsatvik sem eru oft á tíðum afar viðkvæm og persónuleg. En ég býst við að Jónína komi í fjölmiðla í kvöld og skýri sitt mál. Vonandi gerir fólk sjálfu sér þann greiða að hlusta á það af sanngirni.
Gestur Guðjónsson, 27.4.2007 kl. 15:05
Jæja - ég skal hætta að orga í bili og hlusta á það sem Jónína hefur fram að færa. Nóg komið að svo stöddu. Reyndar tjáði Guðrún Ögmundsdóttir sig um málið í dag, og ég er engan veginn sáttur við hennar svör. Hún man hvorki hvaða rök voru gefin fyrir þessari veitingu, og segir það blákalt að það sé ekki venjan að nefndarmenn þurfi að gefa upp slíkan rökstuðning yfir höfuð! Á hverju byggist þetta kerfi þá eiginlega, er mér spurn. Svo segir hún jafnframt að það "sé ekki einstakt að einstaklingar fái ríkisborgararétt þrátt fyrir að hafa aðeins búið hér í stuttan tíma" - en það eina sem hún bendir á því til stuðnings er mál Bobby Fischers, sem var einmitt mjög svo einstakt og alls ekki óumdeilt.
Því miður - ég er ekki sáttur við svona svör. Ég vil fá að heyra miklu yfirgripsmeiri skýringar á hvernig kerfið virkar í raun og veru, og eitthvað sem sannfærir mig um að það sé byggt á réttlátum forsendum. Vonandi heyri ég eitthvað slíkt frá Jónínu í kvöld.
Þarfagreinir, 27.4.2007 kl. 15:23
"Það hefur margoft komið fram í umræðunni að umræddur ríkisborgararéttur var ekki veittur skv þessari grein, heldur með sérstökum lögum, sem veita uþb 40 manns ríkisborgararétt á hverju ári."
Ok, lög um ríkisborgararétt eru semsagt hunsuð þegar á að nota þessi "sérstöku lög". Ég hef ekki kynnt mér þessi ríkisborgaralög svo vel að ég viti mikið um þessi "sérstöku lög" en það er eitthvað nýtt fyrir mér að hægt sé að semja ný lög sem fella önnur gildandi lög úr gildi þegar ekki er verið að tala um stóra hagsmuni þjóðarinnar, flóttamenn í neyð eða eitthvað slíkt.
Það hljóta að þurfa að vera sérstakar ástæður ef á að nota sérstök lög. Hverjar eru þessar sérstöku ástæður? Getur enginn útskýrt það? Kannski Jónína geti útskýrt það ef hún kýs að tjá sig um þetta. Mér finnst þó að hún eigi ekki að þurfa þess heldur nefndarmenn. Guðrún Ögmundsd. man allavega ekki eftir því hver ástæðan var þannig að varla geta ástæðurnar verið mjög eftirminnilegar.
Hver er þessi stórbrotna manneskja sem fellur undir "sérstök lög" sem fella almenn lög úr gildi? Væri spennandi að sjá viðtal við þessa stúlku. Hvað hefur hún við sig sem gerir hana svo sérstaka að hún fái þessa sérstöku meðferð í kerfinu? Það væri gaman að vita.
Gunnar Aron Ólason, 27.4.2007 kl. 15:29
Jæja... í gær leið mér eins og við ættum í skoðanaskiptum Gestur en núna er þetta bara orðið þrögl. Skiptir engu máli hvernig þú orðar það.. þessi veiting er ekki í neinum takti við annað... ekki heldur þessar fjörtíu
Held ég láti mínum svörum til þín í þessu máli lokið hér. Takk fyrir skemmtilegar umræður í gær
Heiða B. Heiðars, 27.4.2007 kl. 15:51
Bjarni Benediktsson, vonarpeningur og erfðaprins Sjálfstæðisflokksins var, ef ég man rétt, sakaður um að hafa misnotað vald sitt sem formaður allsherjarnefndar Alþingis til að laða Roland Eradze handboltamarkvörð yfir til Stjörnunnar gegn því að hann fengi ríkisborgararétt. Keppinautarnir hjá Val voru ekki par hrifnir af yfirboði af þessu tagi.
Bjarni er þar með á sömu línu og Jónína.
Haukur Nikulásson, 27.4.2007 kl. 16:16
Þarfagreinir: Mér sýnist umræðan vera farin að snúast um eitthvað aðeins meira vitrænt, hvort og hvernig veita eigi ríkisborgararétt almennt og sértækt.
Gunnar Aron. Rétt, en mér finnst ekki eðlilegt að þessi stúlka eigi að gera frekar grein fyrir því en aðrir sem fengið hafa ríkisborgararétt þessa leið. Það á ekki að mismuna fólki eftir því hvort einhver pólitíkus sé í fjölskyldunni eður ei, í báðar áttir.
Heiða: held að umræðan sé í rauninni tæmd og bjóði eingöngu upp á endurtekningar úr þessu, amk þangað til að Jónína hefur mætt í viðtal Kastljóssins á eftir.
Haukur, þú ert að gera Jónínu upp að vera óheiðarleg og reynt að hafa áhrif á nefndarmenn, þrátt fyrir að allir nefndarmenn hafi haldið hinu gagnstæða fram.
Gestur Guðjónsson, 27.4.2007 kl. 17:11
Samkvæmt lögum á Útlendingastöfnun,að fara með þessi mál,en hún kemur undir stjórn Björns Bjarnasonar,dómsmálaráðhr.Allsherjarnefnd alþingis á náttúrlega ekki að ganga gegn niðurstöðum Útlendingastofnunar og velja síðan af handahófi eða klíkuskap þá umsækendur um ríkisborgararétt,sem þeim eru þóknanlegir.Menn verða að gera sér grein fyrir að Allsherjarnefnd er að gera undanþágur frá á lögum.Þeir virðast ekki hafa neinar samræmdar reglur að fara eftir,en slíkt opnar fyrir alls konar spillingu í undanþáguvali umsækjanda.
Kristján Pétursson, 27.4.2007 kl. 20:55
Kristján. Þetta er punktur sem er eðlilegt að ræða, en ekki í beinum tengslum við þetta mál og allra síst í tengslum við persónu Jónínu. Allsherjarnefnd er reyndar ekki að gera undanþágu frá lögum. Hún leggur fram frumvarp til laga um veitingu ríkisborgararéttar til ákveðinna einstaklinga, sem svo eru samþykkt og því lög. Eins og hin lögin
Gestur Guðjónsson, 27.4.2007 kl. 21:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.