Skattastefnan er mikilvirkasta menntastefnan

Grundvöllur framtíðarhagsældar á Íslandi er hátt menntunarstig. Um það eru allir sammála, amk eru þær raddir sem halda öðru fram afar mjóróma og hafa farið framhjá mér. Til þess að svo megi verða þarf tvennt að koma til, góðir skólar og svo nemendur til að kenna.

Umræðan undanfarið hefur mikið snúist um skólana sjálfa og rekstur þeirra, námsframboð, framhaldsnám og skólagjöld og svona mætti lengi telja, en ekkert hefur borið á hinum hluta umræðunnar, það er að skapa ramma sem hvetur fólk til að fara í skóla.

Kannski er það vegna þess að á Íslandi er ríkisstjórn sem skilur hvaða gildi það hefur að fólk sjái greinilegan ábata af því að ganga menntaveginn. Hefur hún lagt sitt lóð á vogarskálarnar með því að leggja ekki of mikla álögur á þann ábata sem námið hefur í för með sér í launaumslaginu og einnig með lækkun endurgreiðslubyrði námslána.

Stjórnarandstaðan hefur lagt fram tillögur um breytingar á skattkerfinu í þá átt að með hærri tekjum hækki skattprósentan, umfram þau áhrif sem persónuafsláttarurinn hefur og mótmælt niðurfellingu hátekjuskatts. Nú síðast leggja VG fram tillögur sem miða að 50% skattprósentu, með því að tala um 125 þús króna frítekjumark án útgjaldataps fyrir ríkissjóð.

Vonandi munu kjósendur hlusta á þessar skammsýnu tillögur og taka skynsama afstöðu á móti þeim, en þær myndu hafa það í för með sér að hvati nemenda til að leggja í frekara nám minnkar, þar sem sá ábati sem þeir geta reiknað sér fyrir þá fyrirhöfn er skattlagður meira og minna yrði eftir í launaumslaginu. Ekki síður er ósanngjarnt og óskynsamlegt að skattleggja með hærri prósentu hærri tekjur þeirra sem eiga styttri starfsævi vegna skólagöngu en tekjur þeirra sem ekki fara í skóla geta unnið lengur en með lægri tekjur greiða lægri prósentu fyrir af ævitekjunum.

Það sem þó er enn mikilvægara er að með aukinni skattbyrði á hærri tekjur er fyrirtækjum gert kostnaðarsamara að ráða til sín vel menntað fólk í vel launuð störf. Verður það til þess að þeim störfum fjölgar síður eða hægar hér á landi og flytjast þau frekar úr landi. Á slíkum hæfileikaskatti, braintax, tapa allir; fyrirtækin, launþegar og samfélagið allt. En samt er þetta stefna VG og Samfylkingarinnar, eins gott að hún komi ekki til framkvæmda, því þá væri hellingi af peningum ausið í tóma skóla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband