Frjálslyndir vilja leggja af staðgreiðslu skatta - Kosningaloforðaflaumur IV

Eftir útvarpskappræður kvöldsins er skattastefna VG að skýrast, 125 þúsund króna skattleysismörk án þess að ríkið beri skaða af. Þetta þýðir að skattprósentan þarf að hækka upp í 50%!

Aftur á móti verð ég að eyða aðeins meiri tíma í að átta mig á því hvað tillögur Frjálslyndra kosta. Þeir vilja þrepaskipt skattkerfi, þar sem þeir sem hafa minna en 150 þús á mánuði fá auka 13.600 króna persónuafslátt sem lækkar svo niður í ekki neitt þegar 250 þúsundunum er náð. Hið einfalda módel mitt, sem byggir á meðallaunum, ræður ekki við að reikna heildarkostnaðinn við þennan skatt. Verð að fara á vef RSK og leita uppi tekjuskiptingarupplýsingar og reikna þetta mtt þeirra, en 112 þúsund króna skattleysismörkin kosta ein og sér 21,2 milljarða á ári og þá er eftir að bæta við nýja persónuafslættinum! Með þessu kerfi er verið að leggja af staðgreiðslu skatta, því gera þarf áætlun um tekjur áður en persónuafsláttur er ákvarðaður og ef sú áætlun stenst ekki, verður að leggja á að nýju og þeir sem komast í meiri vinnu, þurfa því að endurgreiða persónuafsláttinn að ári. Spurning hvernig staðan verður þá, en hætt er við að fjöldi manns lendi í skuldavandræðum vegna þessa.

Er búinn að horfa á of mörg "hækkum skattleysismörkin" skilti frá Samfylkingunni til að geta tekið mark á ISG um að ætla ekki að fara í skattabreytingar. 100 þús er lágmark sem hækkun, sem annað hvort kostar 6,4 milljarða eða 2% hækkun á skattprósentunni. ISG hefur aldrei að því að ég veit minnst á prósentuhækkun, svo ég vel 6,4 milljarða útgjöldin og bið um leiðréttingu ef prósentuhækkun er inni í myndinni hjá Samfylkingunni.

Lækkun Samfylkingarinnar á sköttum á lífeyrisgreiðslur úr 35,72% í 10% á ég erfitt með að skilja hvernig fara eigi að án þess að flækja kerfið afar mikið. Fann gögn hjá RSK um lífeyrissjóðsgreiðslur, en þær eru mun hærri en ég hafði fundið gögn um hjá SA, en þær eru 34,2 milljarðar á ári. Ef breyta á hugsuninni úr tekjuskatti í fjármagnstekjuskatt, er ekki persónuafsláttur á honum, en þá myndi heildarskattheimta af lífeyrisþegum aukast um 4,3 milljarða! Ef áfram er litið á skattinn sem tekjuskatt er frítekjumarkið 321.500 á mánuði, og því nánast um niðurfellingu á skattinum að ræða! Þetta sýnir að þetta er illa ígrundað eða þarf amk frekari skýringa við.

Tafla dagsins lítur þá svona út (uppfærði hana kl 02:07):  

Tekjur-skattar-ofl-04 

Allar athugasemdir og viðbætur vel þegnar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Gestur.

Í guðanna bænum vertu nú ekki að þreyta þig á of miklum útreikningum þvi það er hvoru tveggja sjálfsagt og ljúft að tjá þér að skattapakki okkar Frjálslynda kostar 21 milljarð.

Raunin er sú að frysting skattleysismarkanna og aftenging þeirra þar með við þróun kaupmáttar er heimska og vitleysa núverandi ríkisstjórnarflokka sem jaðrar við það að arðræna hinn almenna lauanamann á vinnumarkaði meðan til dæmis sjávarútvegsfyrirtækin gátu verið skattlaus í heil tíu ár svo eitt dæmi sé tekið með þvi afskrifa tap árum saman.

Aftenging skattleysismarka við verðlagsþróun er álíka mistakadæmi og lögleiðing braskumsýslu með óveiddan fisk úr sjó´, svo ekki sé minnst á veðsetingu í þvi sambandi.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 5.5.2007 kl. 02:24

2 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Guðrún María: Skattapakki ykkar kostar mikið meira. Hækkun skattleysismarkanna í 112 þúsund á mánuði kostar 21 milljarð. Það er í samræmi við mína útreikninga. Þá er eftir þessi auka persónuafsláttur ykkar sem þýðir í raun afnám staðgreiðslukerfisins. Er að reyna að böggla saman módeli til að reikna hitt. Að halda 21 milljarði fram og tala svo um hitt er hálfsannleikur.

Tek undir með þér að veðsetningarheimildin á kvótanum eru mistök kvótakerfisins og gerðu það að verkum að allt í einu myndaðist ofsaleg eign í kvótanum, sem svo er að mínu mati megingrunnur að því ósætti sem hefur verið um kerfið. Það var Alþýðuflokkurinn og Sjálfstæðisflokkur sem stóðu að því ef ég man þetta rétt, en framsalið var nauðsynlegt til að hagræðingin sem nú er að skila okkur arði af greininni gat átt sér stað. Um það verðum við kannski aldrei sammála.

Gestur Guðjónsson, 5.5.2007 kl. 10:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband