Sala Landsvirkjunar?

Eftir að ríkið eignaðist Landsvirkjun að fullu hefur sú skoðun orðið sífellt háværari innan Sjálfstæðisflokksins að selja beri fyrirtækið. Tel ég það hið mesta glapræði og er Framsókn sammála mér í því.

Í framhaldi af yfirlýsingunni um kaupin lýsti Geir H Haarde, þá varaformaður Sjálfstæðisflokksins að þetta sé fyrsta skrefið í hlutafélagavæðingu Landsvirkjunar sem undanfara á sölu Landsvirkjunnar til einkaaðila. Sú skoðun hans er nú komin í stefnu Sjálfstæðisflokksins og alveg í samræmi við grundvallarstefnu hans. En þessi stefnahún vekur margar og afar flóknar spurningar, sem leita þarf svara við áður en lengra verður haldið á þeirri braut.

Landsvirkjun hefur ekki greitt raunverulegt gjald, auðlindagjald, fyrir sín virkjanaleyfi enda hefur verið víðtæk sátt um að afl stóru fossanna sé þjóðareign og eigi þeir að mala allri þjóðinni gull og eru kaup ríkisins á hlut sveitarfélaganna í rauninni eðlilegt skref til staðfestingar á þeirri sátt. Sama mætti segja um háhitann, hann eigi að blása í sín hljóðfæri, almenningi til heilla.

En þegar farið er að fjalla um sölu á Landsvirkjun til einkaaðila vaknar fjöldin allur af spurningum. Er eðlilegt að sumir einkaaðilar en ekki aðrir eigi að njóta þess að eiga í fyrirtæki sem nýtur ríkisábyrgðar á lánum, eða er ætlunin að Landsvirkjun fjármagni sig upp á nýtt án ríkisábyrgðar? Er víst að Landsvirkjun sé eins aðbært fyrirtæki án ríkisábyrgðar á lánum? Hvað ætli fáist fyrir Landsvirkjun þá?

Er eðlilegt að einkaaðilar fái afhentan hlut í auðlindum sem eru í dag sameign þjóðarinnar? Nóg hefur verið fjallað um aðgengið að fisknum í sjónum, sem þó er auðlind sem einkaaðilar gerðu að þeim verðmætum sem hún er með atorku sinni og var úthlutað með hefðarréttinn að leiðarljósi við upptöku kvótakerfisins. Hér er ekki um neitt slíkt að ræða.

Á hvaða verði á að verðleggja virkjanaheimildirnar svo sanngjarnt sé? Er rétt að miða við verðmæti þeirra tímabundnu orkusölusamninga sem eru í gildi í dag? Hvað ef hrein sjálfbær orka hækkar enn frekar í verði í kjölfar næsta skuldbindingatímabils Kyotobókunarinar? Hvað ef kjarnorka verður bönnuð á alþjóðavísu í kjölfar einhvers hörmulegs slyss? Hvers virði er það land og þau náttúruvætti sem fórnað hefur verið fyrir þessa orku? Hver á að meta það og á hvaða forsendum? Hvernig á að endurmeta eignarnám sem gert hefur verið hingað til á grundvelli almannahagsmuna sem yrðu einkahagsmunir við sölu?

Það er alveg ljóst að stór hluti verðmæta Landsvirkjunar og í rauninni tilvist fyrirtækisins er fólgin í því að það er og hefur verið almannafyrirtæki sem hefur í krafti almannahagsmuna haft aðgengi að náttúrunni með allt öðrum hætti en einkafyrirtæki hefði nokkurn tíma haft og verður ekki séð annað en að fjármálaráðherra og Sjálfstæðisflokkurinn verður að útskýra sitt mál mun betur áður en hugsanlega verður hugað að því að halda lengra á þeirri braut sem formaður flokksins hefur lýst.
Þannig að ef þú vilt tryggja áframhaldandi þjóðareign á Landsvirkjun um leið og lögð er áhersla á áframhaldandi uppbyggingu atvinnulífsins, sem grundvöll velferðarkerfisins, þá er Framsókn málið.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Er framsókn orðin sammála þér

Tómas Þóroddsson, 6.5.2007 kl. 14:24

2 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Já. Þetta er í ályktun flokksins. Það er almennt ekki ályktað um einstök fyrirtæki en Íbúðalánasjóður og Landsvirkjun voru nefnd sérstaklega sem fyrirtæki sem áfram á að standa sterkt að og vera í ríkiseigu.

Gestur Guðjónsson, 6.5.2007 kl. 20:22

3 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Heyr, heyr!

Það er skömm að fólki detti í hug að ríkisfyrirtæki sem hefur fengið í gjöf stóran hluta af auðlindum Íslands sé selt á markaði. Það eru mér vitandi engin hagfræðilögmál  sem geta réttlætt að einokunariðnaður sem byggir á afnotarétti á landsvæðum og vinnslu sem ríkisfyrirtæki fékk ókeypis sé betur komið í einkaeigu.

En ég er ekki sammála þessari setningu hjá þér"Nóg hefur verið fjallað um aðgengið að fisknum í sjónum, sem þó er auðlind sem einkaaðilar gerðu að þeim verðmætum sem hún er með atorku sinni og var úthlutað með hefðarréttinn að leiðarljósi við upptöku kvótakerfisins." Það var bara farið eftir hefðarrétti auðmagnsins og það voru bara hagsmunir útgerðarmanna sem voru teknir með. Sjómenn fengu engan kvóta, fiskverkafólk í landi fékk engan kvóta. Í auðmagnsríkinu USA hefur ekki einu sinni verið úthlutað svona óréttlátt gæðum. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 6.5.2007 kl. 20:50

4 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Salvör: Held að þú sért að misskilja mig. Ég var bara að draga samlíkingu með deilunum um kvótakerfið og það að segja "nóg hefur verið fjallað um" á ekki að þýða að ég sé sáttur við það hvernig þessi mál þróuðust. Hvað fiskinn varðar var þó örlítil réttlæting fyrir úthlutuninni því þeir sem fengu úthlutun höfðu þó eitthvað unnið til þess að fá kvótan úthlutaðan með veiðireynslu sinni, en í tilfelli Landsvirkjunnar væru þeir sem fengju þær auðlindir afhentar algerlega að kaupa þær á grundvelli peninga. Ekki t.d. rannsókna, þróunar eða hugmyndaauðgi.

Gestur Guðjónsson, 6.5.2007 kl. 21:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband