Stefna Sjálfstæðisflokksins um sölu orkufyrirtækjanna komin í framkvæmd

Yfirlýsing Sjálfstæðisflokksins í tengslum við sölu HS fær mann til að staldra við, þegar þeir segja:

"Samkomulagið tryggir jafnframt fyrstu skref í einkavæðingu orkufyrirtækja á Íslandi þar sem kraftar einkaframtaksins verða virkjaðir á sviði orkuframleiðslu og sölu"

Þetta er í samræmi við ályktun landsþings, jafnvel enn harðara, þar sem lagt var til að öll orkufyrirtæki yrðu seld, en var mildað á þinginu, til að fæla ekki frá þá skynsömu kjósendur sem alls ekki vilja selja Landsvirkjun.

Nú er spurningin, eru næg bein í nefi Samfylkingarinnar til að standa á móti þessari hraðlest?


mbl.is Samþykkt í bæjarráði Reykjanesbæjar að selja hlut í HS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elfur Logadóttir

Ég skil ekki hvað þú átt við. Það var gengið frá sölu á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja fyrir kosningar. Ef eitthvað, þá var með þessu samkomulagi, komið í veg fyrir að meirihluti hlutafjár rynnu til einkaaðila, eins og allt virtist stefna í með þeirri hringekju sem fór af stað í tíð fyrri ríkisstjórnar. Voru það ekki einmitt Samfylkingarmenn sem stóðu á móti hraðlestinni?

Elfur Logadóttir, 12.7.2007 kl. 12:23

2 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Sala á hlut ríkisins í HS var ákveðin til að einfalda orkumarkaðinn, þannig að ríkið væri með Landsvirkjun, með Rarik sem dótturfélag, sem eina ríkisfyrirtækið á orkumarkaði. Ég hefði gert  ráð fyrir að sveitarfélögin myndu kaupa ríkið út, en þessi sala sveitarfélaganna á sínum hlutum er skammsýni að mínu mati. Vinnsla á orku úr innlendum orkugjöfum á að vera í eigu almennings.

Gestur Guðjónsson, 12.7.2007 kl. 22:57

3 Smámynd: Elfur Logadóttir

Ég veit ekki einu sinni hvar ég á að byrja :)

Salan einföldun á orkumarkaðnum, segirðu. Hefðir gert ráð fyrir að sveitarfélögin myndu kaupa ríkið út, segirðu líka. Loks að sala sveitarfélaganna væri skammsýni.

Ég byrja á að endurtaka að þetta átti sér allt stað í tíð fyrri ríkisstjórnar. Samkvæmt frétt Morgunblaðsins frá 1. maí 2007 hikaði ráðherra ekki við að taka hæsta boði og því augljóst að engin ætlan var að reyna að stýra sölunni til sveitarfélaganna:

RÍKIÐ fær liðlega 6 milljarða umfram bókfært verð fyrir liðlega 15% eignarhlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja við sölu hans til Geysir Green Energy eða forkaupsréttarhafa. Geysir Green Energy átti hæsta tilboð í eignarhlutinn, 7.617 milljónir kr., og ákvað fjármálaráðherra að taka tilboðinu, strax eftir opnum tilboða. Ekki eru taldar líkur á að fyrirtækið sjálft eða aðrir hluthafar gangi inn í kaupin en hugsanlegt er að eignarhlutir einhverra sveitarfélaga verði nú til sölu. (leturbr. mín).

 Samkvæmt sömu frétt er einnig augljóst að gert var ráð fyrir að hlutir einhverra sveitarfélaga yrðu seldir í framhaldinu.

Önnur frétt sem birtist í Morgunblaðinu öllu fyrr, eða sunnudaginn 8. apríl, fjallar einmitt um möguleikann á beitingu forkaupsréttar annarra hluthafa hitaveitunnar:

"ÞAÐ hefur komið fram hjá hluthöfum að þeir hafi hug á því en dálítið skrítið væri að lýsa því yfir á þessu stigi, þ.e. þegar enginn veit hvað hluturinn mun kosta," segir Júlíus Jónsson, forstjóri Hitaveitu Suðurnesja, spurður um líkur þess að forkaupsréttur verði nýttur við kaup á 15,2% hlut ríkisins í hitaveitunni. [...]

Júlíus segir ljóst að það fari alfarið eftir verðinu hvort rétturinn verði nýttur og ef það verður hátt er það ólíklegt [...].

 Allt þetta lá fyrir í síðasta lagi 1. maí 2007 og það er síðan ekki fyrr en Samfylkingin í Hafnarfirði tekur ákvörðun um að beita forkaupsrétti sínum sem eignarhald GGE takmarkast miðað við þeirra fyrri áætlun.

Þess vegna spyr ég aftur: Voru það ekki einmitt Samfylkingarmenn sem stóðu á móti hraðlestinni sem sett hafði verið af stað löngu áður en Samfylkingin tók við í ríkisstjórn? 

Elfur Logadóttir, 13.7.2007 kl. 13:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband