Í ræðustól með hausinn í sandinum

Guðni Ágústsson formaður Framsóknar bregst með eðlilegum og sjálfsögðum hætti við áliti mannréttindanefndar SÞ, meðan íhaldið stingur höfðinu í sandinn og kveður sífellt kunnuglegra stef úr ræðustóli Alþingis: Það ræður enginn yfir okkur. Við gerum eins og okkur sýnist. Við höfum valdið.

Mannréttindanefnd SÞ hefur ekki yfirþjóðlegt vald. Það er rétt. Við getum verið ánægð eða óánægð með niðurstöðu nefndarinnar, en við verðum að taka tillit til hennar. Það er, ef við viljum láta taka okkur alvarlega á alþjóðavettvangi.

Ingibjörg Sólrún er á sömu línu og Framsókn, sem og forystumenn hinna stjórnarandstöðuflokkanna. Íhaldið er þannig einangrað í sinni afstöðu um að engu eigi að breyta í kvótakerfinu. Það kemur Össuri Skarphéðinssyni á óvart, en það er hans vandamál að þekkja ekki til og kynna sér ekki málin áður en hann gasprar á veftorgum. Hvaða breytingar eigi að gera er annað mál. Um það eru menn ekki sammála, enda engar tillögur komnar fram. Einhvernskonar fyrning með uppboði hlýtur að koma til álita í því sambandi.

Kvótakerfið hefur valdið byltingu í afkomu sjávarútvegsins og má með réttu fullyrða að það er ein mikilvægasta forsenda þeirra efnahagsframfara sem einkennt hafa undanfarin ár, þótt ég telji að heimildin til veðsetningar kvótans hafi verið mikil mistök hjá krötum og íhaldinu árið 1991. Í framhaldið af þeirri ákvörðun hækkaði verðið á kvótanum ótæpilega og fjöldi manns fór út úr greininni með fúlgur fjár. Ég er sannfærður um að það er það sem er enn að skapa ósætti um kerfið í dag. Hið frjálsa framsal eitt og sér eru smámunir í þvi sambandi, en það er samspil framsalsins og kvótaveðsetningarinnar sem skapar ósættið.

Hins vegar er greinilegt að ekki hefur verið lögð nægjanleg áhersla á hafrannsóknir. Fjallaði um það hér, hér og hér. Þar ber Framsókn sína ábyrgð, en ekki síður íhaldið, sem hefur haft ráðuneyti sjávarútvegsmála síðan 1991

Framsókn ályktaði á síðasta flokksþingi að sátt þyrfti að ríkja um sjávarútveginn og gera þyrfti heildarúttekt á kostum og göllum íslenska kvótakerfisins. Í þessari stefnumörkun felst að sjálfsögðu vilji til breytinga, þótt Framsókn skilji vel nauðsyn þess að útgerðarfyrirtækin hafi traustan rekstrargrundvöll og þoli engar kollsteypur. Rétt er að benda á að þessi stefnumörkun er gerð áður en niðurstaða mannréttindanefndarinnar var birt og áður en niðurskurðartillögur Hafrannsóknarstofnunar lágu fyrir.

Þannig að Guðni fylgir í sínum yfirlýsingum algerlega stefnu Framsóknar og er að bregðast við niðurstöðu mannréttindanefndarinnar af ábyrgð og skynsemi.


mbl.is Guðni: Verðum að taka á kvótamálinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallur Magnússon

Góður Gestur.

Það mætti halda betur á lofti í umræðinni það sem þú segir:

Kvótakerfið hefur valdið byltingu í afkomu sjávarútvegsins og má með réttu fullyrða að það er ein mikilvægasta forsenda þeirra efnahagsframfara sem einkennt hafa undanfarin ár, þótt ég telji að heimildin til veðsetningar kvótans hafi verið mikil mistök hjá krötum og íhaldinu árið 1991. Í framhaldið af þeirri ákvörðun hækkaði verðið á kvótanum ótæpilega og fjöldi manns fór út úr greininni með fúlgur fjár.

Framsóknarflokkurinn hefur alltaf tekið skellinn af þessu!

.. og aðeins meira um sama mál á Formaður Guðni, félagi Össur og kvótakerfið

Hallur Magnússon, 6.2.2008 kl. 10:15

2 Smámynd: Vigfús Davíðsson

Með þessu út spili er Guðni Ágústsson á réttri leið með flokkinn.Til hamingju með það Framsóknarmenn og konur.

Vigfús Davíðsson, 6.2.2008 kl. 12:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband