Stenst kjarasamningaútspil ríkisstjórnarinnar stjórnarskrána?
18.2.2008 | 22:15
Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við lúkningu kjarasamninga segir meðal annars:
- "Þá mun ríkisstjórnin beita sér fyrir því að stimpilgjöld falli niður vegna lána til kaupa á fyrstu fasteign.
- Jafnframt verður komið á húsnæðissparnaðarkerfi með skattafrádrætti, fyrir einstaklinga 35 ára og yngri, til að hvetja til sparnaðar hjá þeim sem hyggja á fyrstu kaup eigin húsnæðis eða búseturéttar. "
Einhvernvegin held ég að þessi loforð standist illa eftirfarandi:
"Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna"
Þetta er 65. grein Stjórnarskrárinnar.
Þótt hugurinn í tillögum ríkisstjórnarinnar sé góður, eru þessar vanhugsaðar og kalla á svindl, ójafnrétti og mismunun sem stenst ekki skoðun eins og svo margar sértækar kratískar lausnir.
Par sem sleppir því að skrá sig í sambúð, heldur kaupir annað fyrst íbúð og svo þegar hitt hefur keypt næstu íbúð fá þau tvöfaldan afslátt af stimpilgjaldinu, sem heiðarlegt par sem skráir sig strax í sambúð nýtur ekki. Hélt að hagnaðurinn af þessu sambandsskráningarsvindli væri nú nægur fyrir, svo ekki sé bætt enn í. Hvernig á svo að meðhöndla þennan rétt við sambúðarslit? Það eru uppgrip framundan hjá lögfræðingum þessa lands, svo mikið er víst.
Tillagan um niðurfellingu stimpilgjalds við kaup á fyrstu íbúð hlýtur einnig að vera mismunun á stöðu minni sem íbúðakaupanda gagnvart þeim sem hefur ákveðið að leigja hingað til, ef ég hef einhverntíma á lífsleiðinni keypt mér íbúð. Vaxtabæturnar eru ekki þessu marki brennd með sama hætti.
Hvers á ég einnig að gjalda að vera orðinn 35 ára og fá ekki að njóta skattaafsláttar vegna húsnæðissparnaðar? Hvaða aldur er þetta? Getur verið að þetta tengist því að þetta eru aldursmörk ungliðahreyfinga flestra stjórnmálaflokkanna? Aldur getur ekki verið lögmæt ástæða til mismununar með þessum hætti. Þessi réttir á einnig að miðast við kaup á fyrstu íbúð, svo sambúðarsvindlið verður enn ábatasamara og enn meira að gera fyrir skilnaðarlögfræðingana.
Eignastaða og tekjur hljóta að vera lögmætar ástæður mismununar, sbr vaxtabæturnar, svo hægt væri að koma húsnæðissparnaðinum á með þeim takmörkunum, en ekki aldri eða hvort ég hafi asnast til að kaupa einhverntíma áður í stað þess að hafa alltaf verið á leigumarkaðnum.
Ég held að ef menn hefðu rétt á húsnæðissparnaði til kaupa á íbúð eða búseturétti, háð eignastöðu og tekjum eins og vaxtabæturnar byggja á, er um gæði að ræða sem allir hafa rétt á og stenst því stjórnarskrána. En tillögur ríkisstjórnarinnar tæplega.
Ég er ekki löglærður, en einhvernvegin stingur þetta í augun og þar sem lög eru yfirleitt sanngjörn, hlýtur þetta að vera andstætt jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og því ólöglegt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þú gleymdir að telja upp vaxtabæturnar,og reyndar margt fleyra.Stenst það að einhver fái bætur ef hann skuldar.Hvers á sá að gjalda sem hefur sparað við sig og skuldar ekki neitt.Það er verið að hegna honum ,brjóta á honum jafnræðisreglu vegna efnahags.
Sigurgeir Jónsson, 18.2.2008 kl. 23:14
Það er spurning Sigurgeir. Vaxtabæturnar hafa verið í gangi lengi og ekki verið hnekkt af dómstólum, svo ég gef mér að þær standist, hvort sem það er rétt eður ei.
Gestur Guðjónsson, 18.2.2008 kl. 23:19
Ég biðst afsökunar á fljótfærninni að hafa ekki lesið alla greinina strax,Auðvitað gleymdir þú ekki vaxtabótunum.En að greiða niður sérstakar skuldir fólks er í mínum huga hrein mismunun á þegnunum.Á þetta þyrfti að láta reyna.
Sigurgeir Jónsson, 18.2.2008 kl. 23:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.