Rangfærslur utanríkisráðuneytisins um viðbúnað við mengunarslysum
24.2.2008 | 10:34
Í gær var haldið málþing um hugsanlega olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Var þar gefin yfirlýsing sem fjölmiðlum hefur greinilega þótt merkileg, sbr umfjöllun RÚV um málið:
"Fram kom í máli Ragnars Baldurssonar hjá utanríkisráðuneytinu á málþinginu í dag að illa sé hægt að bregðast við verði meiriháttar olíuslys verða hér við land. Í lok júlí 2006 steytti rússneskt olíuskip á ísjaka fyrir norðan landið sumarið 2006. Íslendingar eru varnarlausir gegn meiriháttar mengunarslysum segir embættismaður í utanríkisráðuneytinu."
Á hverju byggir embættismaðurinn yfirlýsingu sína? Utanríkisráðuneytið sér ekki um þennan málaflokk í stjórnsýslunni og virðist fulltrúa ráðuneytisins ekki vera kunnugt um hvernig bráðamengunarmálum er sinnt hérlendis. Viðbrögð við mengunaróhöppum er á ábyrgð Umhverfisstofnunnar, sem vinnur með Landhelgisgæslunni og fleiri aðilum, þám okkur í Olíudreifingu, og hefur komið sér upp búnaði og skipulagi til að bregðast við mengunaróhöppum. Auk þess er í gildi samningur sem skuldbindur Norðurlöndin um gagnkvæma skyldu til að koma til aðstoðar, verði meiriháttar mengunaróhapp. Um er að ræða aðgengi að miklum búnaði og mannskap, meðan annars búnaði Norðmanna, einnar mestu olíuvinnsluþjóðar heims. Eins virðist honum ekki vera kunnugt um að í Southampton á Englandi sé ein stærsta viðbragðsmiðstöð gegn olíumengun staðsett og hafa tryggingafélög flestra ef ekki allra olíuskipa aðgengi að þeim búnaði.
Fulltrúi Umhverfisstofnunar hefur líklegast ekki verið boðið á ráðstefnuna, amk er ekkert innlegg frá stofnuninni á dagskrá hennar, svo ég er hræddur um að þessi fullyrðing embættismannsins hafi ekki verið leiðrétt á fundinum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.