Það sem bankastjórarnir segja ekki

Viðbrögð bankastjóranna við grein Illuga og Bjarna Ben sem birtist í Morgunblaðinu í gær eru fyrirsjáanleg. Styrkja þarf ímynd íslenska hagkerfisins og bankanna sem sterkra fyrirtækja. Auðvitað. Það geta allir tekið undir það.

En auðvitað taka þeir mest undir með því sjónarmiði þeirra að koma eigi Íbúðalánasjóði fyrir kattarnef. Hreiðar Már, eini íslenski bankastjórinn, hann borgar amk raunverulegan skatt hér á Íslandi, segir:

"Við höfum bent á það áður að stjórnvöld reka tvo banka í landinu, annars vegar seðlabanka og hins vegar íbúðabanka og það væri eðlilegt fyrsta skref að þessir tveir bankar mundu stíga í takt,” segir Hreiðar Már. “Að okkar mati gengur það ekki að annar bankinn setji 14% grunnvexti í kerfið og hinn bankinn reyni að taka af okkur viðskiptavini alla daga með því að lána þeim út á 5,5% vöxtum. Þetta er nú ekki flóknara en þetta. Svo skilja menn ekkert í því að ójafnvægi sé í  kerfinu, vaxtahækkanir hafi ekki áhrif og verðbólga fari af stað."

Vissulega hefur hann rétt fyrir sér að ef Íbúðalánasjóði væri beitt sem vaxtastýringatæki hefði það áhrif á húsnæðismarkaðinn að einhverju leiti. En er þetta svona einfalt?

Nei. Ég tel alveg ljóst að ef Íbúðalánasjóður hefði fylgt Seðlabankanum er engin trygging fyrir því að  bankarnir hefðu gert það, síður en svo. Því hefði vaxtahækkun Íbúðalánasjóðs bara bitnað á þeim sem síst skyldi, landsbyggðinni og þeim á höfuðborgarsvæðinu sem hallast stóðu. Meiri kæling á köldum svæðum en áframhaldandi hiti á heitum svæðum.

Íslensku bankarnir hafa jú haft aðgengi að ódýru erlendu lánsfé, sem þeir hafa getað endurlánað, algerlega óháð íslensku stýrivöxtunum. Í því hefur kannski bitleysi aðgerða Seðlabankans helst legið.

Það eru því ódýr undanbrögð frá eigin ábyrgð að kenna tilvist Íbúðalánasjóðs um það sem aflaga hefur farið í íslensku efnahagslífi. Það voru bankarnir sem geystust inn á íbúðalánamarkaðinn stórhækkunum á lánshlutfalli og hámarkslánum og bundu lánveitingarnar ekki einu sinni við að íbúðaviðskipti ættu sér stað. Íbúðalánasjóður gerði ekkert annað en fylgja að einhverju leiti á eftir til að tryggja jafnræði íbúanna eftir búsetu og hefur aldrei kvikað frá því skilyrði að íbúðalán séu einungis veitt vegna viðskipta með húsnæði.

Það hafa bankarnir ekki gert, heldur dældu þeir inn ódýru lánsfé í stríðum straumum, langt umfram það sem hagkerfið hefur þolað og því stöndum við í þeim sporum sem við gerum í dag. Ekki vegna virkjanaframkvæmda fyrir austan eða Íbúðalánasjóðs.

En vonandi fer verðbólguþrýstingurinn minnkandi, nú þegar minna aðgengi er að ódýru erlendu lánsfé sem hefur tekið tennurnar úr stýrivaxtavopni Seðlabankans, þannig að hann geti farið að lækka sína stýrivexti. Ef ekki þarf Seðlabankinn að gefa yfirvöldum skýringar á því af hverju verðbólgumarkmiðin hafi ekki náðst og skoða alvarlega hvort verðbólgumarkmið hans sé rétt.


mbl.is Aðstæður að skapast fyrir lækkun stýrivaxta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Það er róið öllum árum að því að drepa Íbúðarlánasjóð og virðist eiga að nota Jóhönnu Félagsmálaráðherra til verksins, láta hana leggja til skiptingu sjóðsins og eða breyta honum í félagsmálastofnun, sem krefur lántakendur um tekju og eignarleysi.

Þannig verður öllum hinum kastað fyrir bankana, eins og keti fyrir soltna úlfa.

Það má heldur ekki gleyma hlut Sveitarfélagana í uppsprengdu íbúðarverði, til að komast fram hjá lögum, sem banna þeim að krefjast hærri gatnagerðagjalda en sem nemur sannanlegum kostnaði við gerð gatna, fóru þau útboðsleiðina og í græðginni var ekkert hugsað um það hverjir kæmu til með að bera byrðina af þessu til framtíðar.

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 27.2.2008 kl. 11:05

2 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Vonum að þeir lifi þetta af.

Sigurður Þórðarson, 27.2.2008 kl. 22:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband