Munu Davíð, Illugi og Bjarni beygja Geir?

Loksins heyrist eitthvað í þingmönnum Sjálfstæðisflokksins um efnahagsmálin. Illugi Gunnarsson og Bjarni Benediktsson kváðu sér hljóðs í ítarlegri og sjálfstæðislegri grein í miðopnu Morgunblaðs dagsins. Það er allrar athygli vert að þessi grein er birt um leið og Geir fer úr landi til að ræða við herrana í Brussel og á því óhægt um vik að svara henni.

Greinin byrjar sem réttmæt lofgjörð um árangur undanfarinna ára, hækkaðan kaupmátt og vöxt. Þó þora þeir ekki að segja satt með að líklegast hefur kaupmátturinn hækkað meira en efni stóðu til eða réttara sagt handbært fé, hafi í of miklum mæli verið fengið að láni, sérstaklega með innkomu bankanna á íbúðalánamarkaðinn. Í staðin er farið í árás á Íbúðalánasjóð sem Framsókn hefur staðið vörð um gagnvart íhaldinu, enda eitt mesta jöfnunartæki gagnvart efnahag og búsetu sem til er og hefur um langa hríð verið þyrnir í augu Sjálfstæðismanna. Vonandi stendur Samfylkingin sig í þeirri vörn, þótt maður sjái blikur á lofti í ljósi yfirlýsinga forsætisráðherra um einangrun félagslega þáttar sjóðsins, sem þýðir ekkert annað en að til standi að afhenda sjóðinn bönkunum.

Í rauninni væri það að gefa bönkunum ríkisábyrgð í þegar útgefnum skuldabréfum sjóðsins. Er það kannski ástæða þess að þeir nefna Íbúðalánasjóð sérstaklega? Stæðist það lög? Ég er ekki viss.

Ég er sammála þeim að leita eigi hámörkunar á þeim tekjum sem samfélagið fær af fyrirtækjum. Vel ígrunduð lækkun skattprósentu á fyrirtæki er örugglega spor á þeirri leið.

Svo er farið í fjaðrastuld þegar þeir segja "Fyrir nokkru var samin skýrsla um hvernig hægt væri að bæta umhverfi íslenska fjármálakerfisins og leggja þar með grunn að alþjóðlegri fjármálastarfemi hér að landi." Væri ekki drengilegt að halda því til haga að þessar fjaðrir eru í eigu Halldórs Ásgrímssonar? Það er kannski til of mikils mælst. Ágúst Ólafur Ágústsson, hinn gleymdi varaformaður Samfylkingarinnar, reynir einnig að gera hugmyndina að sinni í grein á næstu síðu Moggans, svo þeir eru ekki einir um þennan ásetning.

En það sem er þó merkilegast í þessari grein er að þeir benda góðlátlega á að setja eigi verðbólgumarkmið Seðlabankans með þeim hætti að þau séu trúverðug. Þetta er sama ákall og Þorsteinn Pálsson hefur gert í leiðara Fréttablaðsins og fleiri og fleiri. Seðlabankinn getur, að fengju samþykki forsætisráðherra, breytt markmiðum sínum án þess að lögum verði breytt. Miðað við horfur á markaði er ekki hægt að sjá annað en að verðbólgan sé og verði áfram há, svo ef einhver möguleiki á að vera að lækka vexti í bráð, sem verður að fara að gerast svo lítil og meðalstór fyrirtæki og almenningur lendi ekki í stórvandræðum, þarf tímabundið að sætta sig við hærri verðbólgumarkmið.

Ekki er hægt að skilja skrif þessara þingmanna Sjálfstæðisflokksins á annan veg en að Geir H Haarde hafi þráast við að breyta markmiðunum og nú komi þeir Illugi og Bjarni vini sínum Davíð Oddssyni til hjálpar við að beygja Geir til hlýðni, en hann hefur bara komið með óskir um 2-3 álver sem tillögur að bættu efnahagsástandi. Álver sem ekki er til losunarkvóti fyrir. Mætti ég frekar biðja um eitt álver á Bakka og svo frekar netþjónabú eða ámóta starfsemi fyrir afganginn.

Vonandi verður þeim að ósk sinni, svo við förum að geta séð fram á stöðugleika. Að honum fengnum er fyrst hægt að ræða um framtíðarstöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu. Ekki fyrr.


mbl.is Brýnt að grípa strax til aðgerða vegna bankanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband