Var OECD skýrslan skrifuð í Valhöll?
3.3.2008 | 10:38
Lestur skýrslu OECD og tillögur hennar fengu mig til að staldra við. Það var eins og farið hefði verið í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins og helstu baráttumál þeirra listuð upp, hnýtt í samstarfsflokkinn um leið og mikilvægi Seðlabankans er að sjálfsögðu áréttað.
Auðvitað er skýrslan gagnrýnin á aðgerðir ríkisstjórnarinnar, enda ekki hægt að horfa fram hjá þeim hagstærðum sem blasa við. Segir ríkisstjórnina bregðast seint og illa við þeim vanda sem blasir við og vinni gegn Seðlabankanum með útgjaldaþenslu sinni, um leið og varað er við stórframkvæmdum sem gætu skapað ójafnvægi. En að því sögðu tekur óskalisti Sjálfstæðisflokksins við.
Niðurlagning Íbúðalánasjóðs er þar efst á lista, og er greinilegt að OECD hafa ekki fengið rétta söguskýringu með sér heim, þegar því er haldið fram að Íbúðalánasjóður hafi hafið samkeppnina á íbúðalánamarkaðinum. Misskilningur sem andstæðingar sjóðsins hafa statt og stöðugt haldið fram, sérstaklega Sjálfstæðismenn:
"Easing of lending criteria and changes to funding strategies at the publicly owned Housing Financing Fund (HFF) sparked a competitive battle with the private banks in the middle of the decade, entailing a decline in real mortgage rates at the same time as the Central Bank was trying to tighten monetary conditions with hikes in the policy rate."
Hið rétta er að það voru bankarnir sem fóru inn á lánamarkaðinn með ábyrgðarlausu offorsi. Íbúðalánasjóður gerði ekkert annað en að fylgja með til að tryggja jafnrétti þegnanna eftir búsetu.
Næst á listanum er ákall um aukinn einkarekstur og einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu og aukin kostnaðarhlutdeild sjúklinga. Gamalt baráttumál Sjálfstæðisflokksins:
"At the same time, the introduction of cost sharing should be considered where it does not exist (as in hospitals), although concerns about equity need to be taken into account."
En kostulegasta niðurstaða skýrslunnar er eins og ákall Sjálfstæðisflokksins til Samfylkingarinnar um að ráðherrar þeirra dragi yfirlýsingagleði sinni um allt og alla:
"Still, monetary policy will need to remain tight until inflation expectations are firmly anchored at the inflation target. This is crucial to minimise second round effects of wage increases or exchange rate depreciation. It would also be helpful if members of government respected the independence of Central Bank policymaking, as this would reinforce the credibility and effectiveness of policy."
Það er greinilegt að OECD á öðru að venjast en þeirri yfirlýsingagleði ráðherra um hin og þessi málefni sem einkennt hefur núverandi ríkisstjórn og telja það efnahag landsins greinilega ekki til framdráttar.
Fleira er á listanum, eins og ákall um að við höldum okkar kvótum í loftslagsmálum, sem er ágreiningsmál í ríkisstjórn og hefðbundið ákall um að leggja niður íslenskan landbúnað með lækkun á framlögum.
Ég fór á smá flakk á netinu og fann lýsingu á því verklagi sem viðhaft er við gerð svona skýrslu. Það gæti þó ekki verið að skýringuna á áherslum skýrslunnar sé þar að finna?
Skýrslan er unnin af matsráði, þar sem hver þjóð á einn fulltrúa. Vinna tveir fulltrúar matsráðsins hverja skýrslu og kalla oft til sérfræðinga sinnar eigin þjóðar við þá vinnu. Háttsettir embættismenn úr stjórnsýslunni eiga svo samskipti við þá.
Drög að matinu er unnið um ári fyrir útgáfu þess. Byrjað er á úttekt sem er unnin af starfsmönnum OECD. Er landið heimsótt og hittir fjölda manns, embættismenn, fræðimenn, félagasamtök og hagsmunasamtök til að safna upplýsingum. Seinna kemur sami hópur, nú með yfirmanni og fer yfir stefnumörkun stjórnvalda, þar sem frumniðurstöður starfsmanna OECD eru ræddar fyrir hæst settu áhrifamenn þjóðarinnar, eins og fjármálaráðherra, æðstu embættismenn, Seðlabankans, verkalýðshreyfingarinnar og samtaka atvinnurekenda.
Þannig að það er þarna sem helstu áherslupunktarnir, sem mest er fjallað um núna eru ákveðnir.
Hverjir eru það þá sem koma að gerð þeirra fyrir hönd Íslands? Jú, Fjármálaráðherra Árni Mathiesen (D), ráðuneytisstjóri fjármála, Baldur Guðlaugsson (D), Seðlabankastjóri Davíð Oddsson (D), framkvæmdastjóri SA, Vilhjálmur Egilsson (D) og framkvæmdastjóri ASÍ, Gylfi Arnbjörnsson. Kannski koma einhverjir fleiri að þessu. Ég veit það ekki, en Gylfi er sá eini af þessum hóp sem ekki er virkur, opinber Sjálfstæðismaður. Er þá nema furða að skýrslan sé eins og hún er?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.