Seðlabankinn stendur sína plikt - hvar er ríkisstjórnin?
25.3.2008 | 10:40
Eftir makalausan blaðamannafund fyrir páska, þar sem stefnuleysi og aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum var opinberað, virðist trúverðugleiki hennar hafa beðið svo mikinn hnekki að réttast hefur verið talið að Seðlabankinn sé látinn tilkynna um fyrstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum sem eru yfirhöfuð í sömu átt og aðgerðir Seðlabankans.
"Þá segir Seðlabankinn að ríkissjóður muni í vikunni gefa út ríkisbréf með gjalddaga eftir um níu mánuði"
Nema að Seðlabankinn sé tekinn við völdum í landinu?
Í það minnsta bregst markaðurinn vel við þessum aðgerðum Seðlabankans, eins illa og hann brást við blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar.
Þvílíkt skaðræði sem þetta stefnuleysi er öllum almenningi. Að Seðlabankinn neyðist til að fara með stýrivextina í 15% er hrein vantraustsyfirlýsing á ríkisstjórnina. Ég er sannfærður um að staðan væri allt allt önnur, ef ríkisstjórnin hefði ekki farið á svona rosalegt eyðslufyllerý á hveitibrauðsdögunum og aukið útgjöld ríkissjóðs um 20% og komið með jafn óskýrar yfirlýsingar í tengslum við kjarasamningana..
Stýrivextir hækka í 15% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það hefði nú verið bara til að auka veltinginn á bátnum að ríkisstjórnin tæki þátt í einhverri taugaveiklun tengt verðbréfum og falli krónunnar. Þetta var komið í hæstu hæðir og var eðlilegt að leiðrétting kæmi fram.
Ég held að Framsóknarflokkurinn eigi nú að skoða fyrst eigin mistök í fjármálastjórn ekki síst að innleiða 100% lán hjá Íbúðalánasjóði á þeim tíma þar sem fasteignaverð var komið upp í hæstu hæðir. Líklegt má telja að margir lendi í þeirri stöðu að vera með hærri lán en verðmat fasteignar. Átti að vera leið til skammtímavinsælda fram yfir kosningar en dugði ekki.
Gunnlaugur B Ólafsson, 25.3.2008 kl. 13:48
Gunnlaugur: Framsóknarflokkurinn innleiddi ekki 100% lán hjá Íbúðalánasjóði. Þú skrifar vísvitandi gegn betri vitneskju og það er þér ekki til sóma. Framsókn boðaði allt að 90% lán til íbúðakaupa, með þaki, ef og þegar aðstæður í efnahagslífinu gæfu tilefni til.
Það voru hins vegar bankarnir sem ruddust inn á markaðinn með 90-105% lán um leið og búið var að mynda ríkisstjórn, með miklu hærri þökum og án þess að nauðsynlega þyrfti íbúðakaup til lánveitingar. Á þann hátt var dælt inn í hagkerfið miklum fjármunum, sem eru meðvirkandi í þeirri þenslu sem við erum að eiga við núna.
Íbúðalánasjóður fylgdi svo á eftir með 90% lánum, þá aðallega til að tryggja að landsbyggðin fengi notið sömu kjara og SV-hornið, en frumkvæðið var allt bankanna.
Gestur Guðjónsson, 25.3.2008 kl. 15:35
Það er orðið hálf þreytt að reina að kenna Framsóknarmönnum um verðsveifluna í húsnæðismálum þetta er eitt af því góða sem að þeir gerðu en var eyðilagt með tilraunum bankana til að losna við Íbúðalánasjóð og hvar væru húskaupendur núna ef það hefði tekist. Það er hlutur sem aldrei má verða. Og ég er nokkuð viss um að ef einhver fjármálastofnun hefur tekið skortstöðu í krónunni þá er það ekki Íbúðalánasjóður.
Jón Aðalsteinn Jónsson, 25.3.2008 kl. 20:33
Sæll Gestur, ég tek undir með þér að Davíð Oddsson stendur sína plikt. Hann situr í kviksyndi og berst hetjulegri baráttu, einn og óstuddur, við að leysa vandamál efir alnafna sinn sem var forsætisráðherra. Er þetta sanngjarnt?
Sigurður Þórðarson, 26.3.2008 kl. 10:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.