Stjórnarandstaðan í Samfylkingunni

Stjórnarandstaðan í Samfylkingunni fékk samþykkta ályktun sem er í samræmi við Fagra Ísland-stefnu flokksins, en gengur þvert gegn þeim yfirlýsingum sem þingmenn hans hafa haft um uppbyggingu iðnaðar í landinu, þar sem flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar

"...hvetur ríkisstjórnina til að vinna að atvinnuuppbyggingu sem byggist á þekkingu, hátækni og virðingu við sjónarmið náttúru- og umhverfisverndar. Fundurinn leggur áherslu á að meðan beðið er niðurstöðu rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða verði ekki farið inn á óröskuð svæði og varar eindregið við því að virkjana- og stóriðjuframkvæmdir hefjist áður en gengið hefur verið frá orkuöflun, línulögnum, losunarheimildum o.fl.

Flokksstjórnarfundurinn telur að við ákvörðun um meiriháttar framkvæmdir í atvinnumálum með tilstuðlan og atbeina stjórnvalda og almannafyrirtækja verði að taka mið af nútímalegum atvinnuháttum, byggðasjónarmiðum og umhverfisþáttum, þar á meðal skuldbindingum Íslendinga í loftslagsmálum og fyrirheitum um vernd ósnortinna náttúrusvæða"

Eins og fyrr er þetta reyndar innihaldslaust froðusnakk, ekkert er talað um leiðir til að koma þessum vilja flokksstjórnarinnar til framkvæmda. Í hverju á þessi vilji flokkstjórnarinnar að birtast?

Reyndar á ég erfitt með að sjá í hverju ályktunin er frábrugðin stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, en fyrst flokksstjórnin telur þörf á að samþykkja ályktun af þessu tagi, hlýtur að felast í henni yfirlýsing um að flokksstjórnin, sem samþykktir ríkisstjórnarþátttöku fyrir Samfylkinguna, telji að ekki sé nægjanlega að gert í þessum málum og hóti eigin ráðherrum og samstarfsflokknum að ef ekki verði staðið við þennan hluta stefnuyfirlýsingarinnar, verði stjórnarsamstarfinu slitið.

Það fyrsta hlýtur að vera að koma starfinu við rammaáætlunina af stað. Maður hefur ekkert heyrt um það og hef ég þó spurst fyrir um það meðal þeirra sem eru í starfshópum rammaáætlunarinnar.

Það verður einnig fróðlegt að fylgjast með framgöngu fulltrúa Samfylkingarinnar í stjórnum OR, LV og Rarik að maður tali nú ekki um Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra í framhaldi af þessari ályktun. 

Einhvern vegin á ég erfitt með að skilja þessa ályktun sem annað en beina ofanígjöf við Össur Skarphéðinsson, sem hélt því fram á fundi á Húsavík að hann minntist þess ekki að neinn þingmaður Samfylkingarinnar hefði talað gegn álveri á Bakka og sömuleiðis hlýtur Kristján L Möller að klóra sér í hausnum yfir þessari ályktun í ljósi yfirlýsinga sinna um álverið á Bakka.

Vefstjóri Samfylkingarinnar virðist hafa áttað sig á því að ályktunin er bein árás á Bakkaverkefnið, með því að setja inn í fréttina um málið að umfjöllunin hafi aðallega snúist um Helguvík. En ályktunin er skýr og verður erfitt fyrir þingmenn flokksins að aðhafast neitt til að bæta atvinnuástandið fyrir norðan með áframhaldi Bakkaverkefnisins vegna þess að stjórnarandstaðan í Samfylkingunni hefur náð yfirhöndinni í flokknum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Bakkaverkefnið" heitir einfaldlega Álver á Bakka, Gestur. Annað til fróðleiks, þá er ekkert sem heitir "stjórnarandstaða" í Samfylkingunni enda væri það eðli málsins samkvæmt minnihlutahópur. Þá er það þannig í Samfylkingunni að menn "fá ekki" ályktun samþykkta. Allar ályktanir eru bornar upp og annað hvort felldar eða samþykktar. Þessi með þorra atkvæða. Hvaða flokkur er með svona skrítnar reglur sem þú hélst að væri líka í Samfylkingunni, Gestur? Þú talar um "froðusnakk". Það merkir innihaldslaust orðskrúð. Skilurðu ekki ályktunina, Gestur? Er hún ekki nægjanlega skýr? Máttu/viltu ekki vera málefnalegur?

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 31.3.2008 kl. 13:48

2 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Jú, ég vill alveg vera málefnalegur, legg mig í líma við það. Ályktunin er afar almennt orðuð og í rauninni endurtekning á inngangsorðum Fagra Íslands. Ekkert nýtt, engar nýjar áherslur, engar nýjar leiðir, engar fréttir. Hún er aukinheldur efnislega samhljóma ríkisstjórnarsáttmálanum. Þess vegna kalla ég ályktunina froðusnakk.

Þegar slík ályktun er borin upp er að sjálfsögðu ekki hægt að fella hana. Í því fælist yfirlýsing um stefnubreytingu.

Fréttin er í rauninni sú að græna netið og UJ telji þörf á að bera upp slíka ályktun. Það er hrein vantraustyfirlýsing á forystuna og samstarfsflokkinn, því með samþykkt ályktunarinnar er flokksráðið að segja eigin ráðherrum að framfylgja eigin stefnu og stefnu ríkisstjórnarinnar.

Stóð sem sagt annað til?

UJ og Græna netið, sem hafa ítrekað talað gegn stefnu ríkisstjórnarinnar og yfirlýsingum samstarfsflokksins og gegna því hlutverki að leyfa þeim Samfylkingarmönnum sem eru óhressir með stjórnarsamstarfið, að hafa samt vettvang innan Samfylkingarinnar,  hafa greinilega staðið í þeirri meiningu að annað stæði til og þess vegna er hún borin upp.

Það er frétt.

Gestur Guðjónsson, 31.3.2008 kl. 14:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband