Réttmætt til skamms tíma ekki langs
8.4.2008 | 11:50
Ef ríkisstjórnin og Seðlabankinn ætla að hleypa uppbyggðum verðbólguþrýstingi í gegn, þegar áhrif aukningar gjaldeyrisvaraforðans, sem vonandi er verið að ganga frá, eru komin í ljós, er réttlætanlegt að lækka álögur á eldsneyti tímabundið til að lina þau áhrif.
Það má ekki vera nema tímabundið, því álögur á eldsneyti er ekki skattur heldur gjald. Gjald fyrir notkun á vegakerfinu.
Meðan tryggt er að gjaldið renni rétta leið er þetta gjald í eðli sínu sanngjarnt, þótt auðvitað megi alltaf ræða um hvaða útfærsla á þessari gjaldtöku sé best.
Verði farið í lækkanir ber að kalla hlutina réttum nöfnum og bæta Vegagerðinni þá tekjuminnkun sem af þeirri aðgerð myndi hljótast, því verkefni Vegagerðarinnar eru brýn og afar lítil þjóðhagsleg hagkvæmni í því að draga úr framlögum til hennar, svo lengi sem hún fær frið til að vinna að þeim hagkvæmustu, en er ekki sett í einhver gæluverkefni sem engu skila, í arðsemi, öryggi eða byggðasjónarmiði.
Ég er ekki viss um að það sé það sem þessir flutningabílstjórar eru að fara fram á. Ég held að þeir séu að fara fram á að fá afslátt af notkun á vegakerfinu. Því er ég ekki fylgjandi, þótt ég vinni hjá einu stærsta flutningafyrirtæki landsins.
Eins virðist Árni ekki ætla að lina áhrif verðbólgunnar miðað við þessar yfirlýsingar.
Enn og aftur stendur til að gera - ekki neitt...
Árni: Gerist ekkert á næstunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:52 | Facebook
Athugasemdir
Gestur, við búum í svok. markaðskerfi að því okkur hefur verið sagt og slíkt kerfi byggist á verðlagningu og framboði og eftirspurn. Þegar hlutirnir eru ódýrir og aðgengilegir þá hópast menn að sjálfsögðu í þá, það segir sig sjálft. Allir, bókstaflega allir og hundurinn þeirra líka og bráðum kötturinn eru keyrandi á bílum á landi hér. Þetta er bara staðreynd sem ekki er hægt að neita og liggur á borðinu. Þegar markaður er ofurnýttur og rúmlega það á þennan hátt þá hlýtur það að þýða að hann hafi verið stórkostlega undirverðlagður (markaður 101) og 25% hækkun á bensíni getur þá varla skipt miklum sköpum. Kannski fer að hilla undir að hundurinn missi bílinn, varla meira en það.
Baldur Fjölnisson, 8.4.2008 kl. 21:43
Sæll Baldur: Tek undir með þér að ég tel ekki ástæðu til að lækka álögur á eldsneyti til lengri tíma litið, enda tel ég þetta einungis réttlætanlegt til að skapa verðbólgurými svo hægt sé að lækka stýrivexti fyrr en ella. Ekki annars.
Gestur Guðjónsson, 8.4.2008 kl. 22:32
Sæll Gestur.
Timabundnar lækkanir á eldsneytisgjaldi eru réttlætanlegar sem mótvægisaðgerð hins opinbera í því efnahagsástandi sem uppi er.
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 9.4.2008 kl. 00:15
Ef að það sá skattur sem tekinn er af bíleigendum færi nú allur í uppbyggingu vegamannvirkja þá værum við sennilega með þeim í hópi í heiminum sem hafa bestu vegina. Það er ekki nema brotabrot af þessum gjöldum sem renna þangað sem þau eiga að renna.
Glanni (IP-tala skráð) 9.4.2008 kl. 10:19
Innflutningstollar og virðisaukaskattur renna í ríkissjóð en olíugjaldið og bensíngjaldið, sem verið er að mótmæla renna til vegagerðar. Reyndar meira til, t.d. fer hluti símapeninganna í gangnagerð og fleiri göng eru greidd af tekjustofnum sem ekki eru markaðir.
Gestur Guðjónsson, 9.4.2008 kl. 21:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.