Landskipulag; Útfærsla stjórnlyndis í stað frjálslyndis
21.4.2008 | 10:59
Í undirbúningi að landskipulagi, sem hófst í ráðherratíð Jónínu Bjartmarz, var grunnhugsunin að leggja þá skyldu á ríkið að það samþætti sína áætlanagerð í landsskipulagi, þannig að sveitarfélögin gætu sótt á einn stað upplýsingar um fyrirætlanir þess í sinni skipulagsvinnu, enda hafa áætlanir ráðuneytana oft verið á ská og skjön hver við aðra og byggja á mismunandi forsendum og spám. Vegir liggja um einn dal, raflínur um þann næsta og ljósleiðarar kannski um þann þriðja. Var það í samræmi við stefnumótun Framsóknar á síðasta flokksþingi, þar sem áhersla var lögð á að skipulagsvaldið væri áfram hjá sveitarfélögunum.
Auðvitað þurfa sveitarfélögin að taka mið af áætluðum framkvæmdum ríkisins, alveg eins og ávallt hefur verið í línulögnum hvers konar, vegaframkvæmdum, uppbyggingu heilbrigðishúsnæðis o.s.frv.
En það stóð aldrei til að taka skipulagsvaldið af sveitarfélögunum og er það stefnubreyting í átt til stjórnlyndis sem ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks er að standa fyrir í því frumvarpi sem búið er að leggja fram, þar sem búið er að einskorða landskipulagið við landnotkun, en ekki aðra þá starfsemi sem skipulagsvinnan þarf óhjákvæmilega að taka tillit til. Væri ríkið því orðið stikkfrí í sínum skyldum gagnvart sveitarfélögunum, en landþörf ríkisins væri tryggð með boðvaldi með þessari takmörkun landsskipulagsins.
Það er því eðlilegt að sveitarfélögin mótmæli, enda er landsskipulagið orðið að landtöku ríkisins gagnvart sveitarfélögunum, eftir samráð, án þess að skyldur ríkisins til innbyrðis samræmingar komi á móti.
(breytti þessari færslu eftir að hafa lesið umsögnina og frumvörpin betur)
Segja sjálfstjórnunarréttinn í hættu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:42 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.