Góð sinnaskipti hjá ríkisstjórninni - hver verða viðbrögð bankanna?
20.6.2008 | 00:53
Jóhanna Sigurðardóttir er enn og aftur að sanna sig sem einn ábyrgasti stjórnmálamaður nútímans.
Tillögurnar sem nú hafa verið kynntar eru hófstillt skref í rétta átt, það hefði verið óskynsamlegt að ganga lengra á þessum tímapunkti.
Eru þær í takt við þær tillögur sem Framsókn, með Hall Magnússon í broddi fylkingar, hefur verið að leggja til frá því fyrir jól og getur maður alveg séð eftir þeim fjármunum sem hefðu sparast, hefði verið hlustað á þær strax þá. En vonandi eru ráðherrarnir nú búnir að læra að hlusta á góð ráð ábyrgs flokks sem hefur ekki misst sig í lýðskrumi og ofloforðum.
Jóhanna hefur nú náð að beygja íhaldið og vonandi fengið það til að sjá ljósið í þeim verðmætum sem samfélagið á í Íbúðalánasjóði, verðmæti sem ekki væru til staðar nema í gegnum sameignina á honum. Hingað hefur íhaldið lagt lykkju á leið sína til að ófrægja sjóðinn og kennt honum um allt að sem aflaga hefur farið í íslensku efnahagslífi, þrátt fyrir að hafa ítrekað verið leiðrétt með það, þannig að Jóhanna er þarna virkilega að sýna styrk sinn.
Það svigrúm sem bönkunum verður gefið með því að kaupa lán af þeim verða þeir að nýta á ábyrgan hátt. Hjól litilla, millistórra og stærri fyrirtækja verða að fara að snúast á ný á eðlilegan hátt með bættu aðgengi að fjármagni, en algert frost hefur verið á lánamarkaði undanfarna mánuði, bæði vegna utanaðkomandi aðstæðna, en ekki síður vegna óvissu sem ríkisstjórnin hefur skapað með ósamstilltri og hikandi framgöngu sinni. Nú reynir á bankana, en ég á bágt með að trúa því að þeim verði veitt svona tækifæri í bráð, misnoti þeir það.
Óábyrgar aðgerðir og yfirlýsingar annarra ráðherra, þá sérstaklega forsætisráðherra um að hætta að kaupa húsnæði og miklar væntingar vaktar af viðskiptaráðherra í tengslum við stimpilgjöldin, sem svo var bara leyst til hálfs, osfrv. Yfirlýsingar formanns og varaformanns fjárlaganefndarmanna um brostnar forsendur fjárlaga voru svo ekki til að bæta ástandið.
Útgáfa ríkisskuldabréfa er og afar góður hlutur, um að gera að setja ekki of mikið inn of hratt, því þetta eru dýr skuldabréf, þurfa að bera amk 16% vexti. Ef þessar aðgerðir styrkja gengi krónunnar, ætti verðbólguhraðinn að fara að minnka og hægt verður að hefja vaxtalækkunarferli og þar með væri næsta útgáfa ríkisskuldabréfa ekki að þurfa að vera eins dýr.
En á næstu vikum þurfa að koma fram fleiri skref, skipuleg skref sem geta sannfært fólk um að ríkisstjórnin hafi einhverja hugmynd um hvað hún sé að gera. Að hún hafi yfirsýn og ætli sér að vera virkur þátttakandi í samfélaginu. Skref sem slá á verðbólguna, sem yrði aftur til að hægt væri að hefja skipulagt vaxtalækkunarferli, sem aftur ætti að slá á verðbólguna, því með þessum okurvöxtum er einungis verið að auka framleiðslukostnað í samfélaginu, sem hlýtur að fara út í verðlagið, þannig að þessi slæma hringverkun fari að snúast við og vinda ofanaf vitleysunni.
Breytingar á Íbúðalánasjóði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Gestur, ég hef svo sem ekkert vit á þessu en fæ ekki betur séð að þetta vinni gegn markmiðum Seðlabankans sem er að reyna að kæla hagkerfið, hvort sem það er gott eða slæmt.
Sigurður Þórðarson, 20.6.2008 kl. 01:33
Veit ekki hvort hægt sé að kæla mikið alfrosinn markað. Harkalegar kæliaðgerðir geta skemmt meira en þær hjálpa ef frostið verður of lengi.
Gestur Guðjónsson, 20.6.2008 kl. 08:05
Þetta eru Jöklabréf sem nú fá nafnið Ríkisskuldabréf.Það er verið að langja í hengingarólinni.
Sigurgeir Jónsson, 22.6.2008 kl. 22:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.