Ríkisstyrkt Ker í einkaeigu
15.7.2008 | 15:03
Þetta Kermál er afar merkilegt í alla staði.
Nú hefur komið fram að Ferðamálastofa hefur veitt styrki til að bæta aðgengi að Kerinu, en fé sem veitt er í þann úthlutunarsjóð er ætlað til að bæta aðgengi ferðaþjónustufyrirtækja að áhugaverðum stöðum.
Ef hið opinbera er að veita styrki til að bæta aðgengi ferðamanna að stöðum án þess að sett séu skilyrði um aðgengi ferðaþjónustunnar er það alvarleg handvömm af hendi þeirra embættismanna sem ganga frá styrkjunum.
Ég tel grundvallarmun á því hvort almenningi sé heimiluð lögleg för um land og hvort ferðaskrifstofur megi hafa tekjur af því að sýna land í annarra eigu. Því hefði málstaður Kerfélagsins verið allur annar ef styrkurinn hefði verið veittur úr einhverjum náttúruverndarsjóði eða engin styrkur verið veittur.
Þetta leiðir huga manns að þeirri hliðstæðu þversögn sem felst í því að almannafé sé veitt í gegnum rannsóknarsjóði til einkaaðila sem geta svo gert sama almenning að féþúfu í gegnum einkaleyfi sem koma hugsanlega út úr þessum rannsóknum. Meira að segja Bandaríkjamenn hafa komið í veg fyrir slíkt. Ef almenningur hefur einu sinni greitt fyrir eitthvað í gegnum opinbera rannsóknar og þróunarstyrki ætti ekki að vera heimilt að endurrukka hann fyrir hið sama á ný að þróun lokinni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Reyndar eru rannsóknarstyrkir til einkaaðila iðulega ekki nema brotabrot af heildarkostnaði við að koma vöru í einkaleyfi.
"Ef almenningur hefur einu sinni greitt fyrir eitthvað í gegnum opinbera rannsóknar og þróunarstyrki ætti ekki að vera heimilt að endurrukka hann fyrir hið sama á ný að þróun lokinni."
Ættu landbúnaðarafurðir ekki að vera ókeypis fyrir almenning með sömu rökum?
Karma (IP-tala skráð) 15.7.2008 kl. 15:25
Ríkisrekinn kapíatalismi, hvað annað er nýtt?
Theódór Norðkvist, 15.7.2008 kl. 15:26
Karma: Í USA er alveg skýrt að ef eitthvað opinbert fé fer til rannsókna er það public domain. Því þurfa vísindamenn þar að gera upp við sig hvort þeir séu að rannsaka til ná sér í einkaleyfi eða hvort þeir séu að rannsaka til að auka almenna þekkingu í samfélaginu.
Gestur Guðjónsson, 15.7.2008 kl. 15:38
Þessar reglur í USA voru auðvitað settar til að draga úr rannsóknum opinberra háskóla sem gætu leitt til "arðbærra" einkaleyfa einmitt til að stærri einkafyrirtæki sætu ein um hituna. Enda er samstarf opinberra háskóla/rannsóknarstofnanna og einkafyrirtækja margfalt minna en t.d. í Evrópu.
Ef þessar reglur yrðu teknar upp hér myndu engin einkafyrirtæki sækja um opinbera styrki því þeir eru lágir og tímabundnir og ekki hægt að reka fyrirtækið seinna meir ef ekki er hægt að selja afurðina.
Þessar reglur gilda þó að vissu leiti t.d. í Háskóla Íslands en öll þekking sem starfsfólk hans "býr til" er eign HÍ. Veit ekki hvernig þessu er háttað í ríkisstyrktu einkaháskólunum t.d. HR en þú getur kannski frætt mig um það.
En mér þætti gaman ef þú svaraðir spurningunni hérna að ofan hvort að landbúnaðarafurðir ættu þá ekki að vera ókeypis þar sem framleiðslan er ríkisstyrkt?
Karma (IP-tala skráð) 15.7.2008 kl. 15:52
Þeir sem þyggja ríkisstyrki til landbúnaðar undirgangast ákveðnar kröfur sem aðrir gera ekki, t.d. um framleiðslumagn, gæðastýringu, eru undir verðlagsákvörðunum o.fl, sem við almenningur erum í rauninni að kaupa af þeim.
Á þann hátt er reynt að tryggja að það fé sem rennur til landbúnaðarins komi aftur almenningi til góða, eins og í hinu tilfellinu, þótt ólíkt kerfi sé viðhaft.
Gestur Guðjónsson, 15.7.2008 kl. 16:19
Að vera undir verðlagsákvörðunum komið er ekki það sama og að gefa vöruna þína frítt.
Ég tel að sama skapi sé hægt að gera ákv. kröfur til þeirra sem hljóta rannsóknarstyrki, t.d. að kvöð að fyrirtækið sé ekki selt úr landi enda eru styrkirnir líka ætlaðir til að efla atvinnu.
En það segir sig sjálft að með þessu kerfi sem þú stingur uppá er sjálfhætt að fyrirtæki sæki um rannsóknarstyrki. Styrkir sem hafa hjálpað mörgum fyrirtækjum yfir erfiðasta hjallann þegar þróunarstarf er í gangi og tekjurnar litlar sem engar. Varla viltu það?
Karma (IP-tala skráð) 15.7.2008 kl. 17:59
Orð í tíma töluð Gestur.
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 16.7.2008 kl. 01:54
Karma: Þú hefur heilmikið til þíns máls.
Gestur Guðjónsson, 16.7.2008 kl. 08:43
Ef fyrirtæki fær rannsóknarstyrk frá ríkinu fer það að öllu jöfnu eftir ströngum reglum og það er ekki auðvelt að "ná sér í pening". Ef afurðin eða hugmyndin verður ábatasöm græða allir, ríki, almenningur og fyrirtækið. Í örstuttu máli þá græðir ríki í formi skatta, almenningur fær vinnu og fyrirtækið tekur inn gróða af uppfinningunni. Auk annarra óbeinna áhrifa og ruðningsáhrifa af framþróun.
Þjóðin í heild græðir á því að vísindamenn og konur geti unnið í þannig umhverfi að rannsóknir og tilraunir séu gerðar mögulegar. Bankar og fjárfestar eru yfirleitt ekki nægilega þolinmóðir til að bíða eftir niðurstöðum og þróun í mörg ár upp á von og óvon um gróða. Fyrirtæki hafa sjaldnast efni á að setja mikinn pening í þróun, því er þörf á styrkjakerfi. Það kerfi sem við notum núna er sjálfsagt ekki gallalaust og vitaskuld á að fara ofan í saumana á því og setja einhverjar kvaðir á styrkþega.
Ég tel þó varhugavert að meina fólki að græða á sínum hugmyndum fái það styrki, Afleiðingarnar yrðu líklega þær að flóknar og dýrar rannsóknir legðust af.
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 16.7.2008 kl. 13:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.