FL myndbandið

Það er áhugavert að fylgjast með umræðunni um FL group myndbandið.

Sem betur fer hef ég aldrei átt hlutafé í fyrirtækinu og ætti því kannski að vera sama - eða hvað?

Ég er skíthræddur við að lífeyrissjóðurinn minn hafi fjárfest í fyrirtækinu eins og svo margir aðrir og því tapi ég bæði beint og óbeint á þessari vitleysu allri, bæði í gegnum skert lífeyrisréttindi til mín og með fjölgun þeirra sem hafa ónæg réttindi og þurfa á tryggingabótum að halda. Í rauninni ætti mér að vera slétt sama um aðra hluthafa, en samt... Þvi meira fjármagn sem óþolinmóðir fjárfestar taka frá þolinmóðum, því minna fjármagn fer í raunverulega verðmætasköpun til langs tíma og því meira í loftkastalabyggingar. Það er slæmt fyrir íslenskt efnahagslíf og þar með mig.

Eitthvað er myndbandið örugglega fært í stílinn og hugsanlegum málsbótum sleppt, en maður hefur heyrt svo margar sögur frá fyrstu hendi um sukkið og bruðlið að það hálfa væri nóg og ef eitthvað er til í þessum fléttum þar sem fé á að hafa verið mokað út úr almenningshlutafélagi í einkavasa, hljóta hluthafar að spyrja þá sem þeir kusu í stjórn og greiddu laun til að gæta hagsmuna sinna hvað þeir hafi verið að gera.

Af hverju sagði stjórnin bara af sér árið 2005 en stóð ekki uppi í hárinu á Hannesi?

Hannes ritar varla firmað einn og skýringar Ingu Jónu um að stjórnarmenn hafi ekki verið upplýstir og þau hafi ekki getað unnið með Hannesi halda engu vatni. Ef þau hafa ekki fengið upplýsingar þá getur meirihluti stjórnar stöðvað vitleysuna með því að neita að skrifa upp á fleiri gjörninga og neytt hann á rétta braut. Þar gildir einfaldur meirihluti. Með þeim gjörningi hlupu þessir stjórnarmenn einfaldlega frá þeirri ábyrgð sem þeir bera samkvæmt lögum.

Staða Ragnhildar Geirsdóttur er allt önnur en stjórnarmanna. Hún var ráðin af stjórn og ber að virða trúnað, svo lengi sem stjórn afléttir honum ekki.

Þeir sem tóku við af þeirri stjórn virðast á sama hátt einnig hafa brugðist skyldum sínum, þótt þeir hafi líklegast gætt sinna eigin hagsmuna, þá ber stjórn lögum samkvæmt ávallt skyldu gagnvart öllum hluthöfum, sérstaklega þegar um almenningshlutafélag er að ræða.

Þetta hlýtur að þurfa að rannsaka til hlítar og ætti sú rannsókn að vera löngu hafin.

Getur verið að sá gammbítur sem Geir H Haarde er í vegna setu Ingu Jónu Þórðardóttur í stjórn FL-group sé að koma í veg fyrir að málið sé rannsakað almennilega, því honum er í lófa lagið að hlutast til þess að FME sé veitt fjármagn til þess?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eiríkur Harðarson

Vissulega Gestur þá bítur þetta á öllum(allavega flestum) landsmönnum, oft spyr maður sig hvern sé verið að VERNDA. Ætli Vilhjálmur Bjarnason geti ekki svarað því, eða hvað?

Eiríkur Harðarson, 21.7.2008 kl. 01:30

2 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Gestur.

Fjárfestingar lífeyrissjóða í áhættusömum atvinnurekstri ættu einar og sér að lúta rannsókn nú þegar ekki hvað síst í ljósi þess að sjóðir þessir innheimta gjald af launamönnum í landinu með lagaumgjörð þess efnis í farteski.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 21.7.2008 kl. 02:24

3 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ég er algjörlega sammála um að þessi mál þarf auðvitað að rannsaka. 

Þetta er mjög góður punktur frá Guðrúnu Maríu og í raun eigum við (sjóðsfélagar/hluthafar) í lífeyrissjóðunum rétt á að vita hvernig var fjárfest. 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 21.7.2008 kl. 14:27

4 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Sammála ykkur. Ég er svo heppinn að vera líklegast þeim eina lífeyrissjóði sem fleiri en fimm mæta á aðalfundi. Lífsverk. Hinir virðast (vonandi hef ég rangt fyrir mér) vera baktjaldasjóðir verkalýðsfélaga, þar sem lýðræðið er víðsfjarri.

Gestur Guðjónsson, 21.7.2008 kl. 20:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband