Gleymt átakamál í Evrópuumræðunni

Ég tel mig ekki hafa forsendur til að taka afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu og eru örugglega margir í sömu stöðu og ég. Margir í kringum mig hafa hins vegar tekið afstöðu og minna mann stundum á áhangendur fótboltaliða í því sambandi, með og á móti. Það færir umræðuna hins vegar lítið áfram, og meðan afstaða VG, Sjálfstæðismanna og Samfylkingarinnar er jafn svart-hvít og hún er, mun málið lítið þroskast og færast hægar nær skynsamlegri niðurstöðu en ef umræðan væri fordómalaus og opin.

Las ágæta evrópuskýrslu sem unnin var á vegum Framsóknar árið 2007, sem kristallar það sem málið snýst um að mestu leyti. Þar segir:

"Miðað við óbreyttar aðstæður getur samningurinn um Evrópska Efnahagssvæðið verið grundvöllur Evrópusamskipta Íslendinga á næstu árum. Sviptingar í þróun og á vettvangi Evrópusambandsins geta hinsvegar breytt þeirri forsendu á skömmum tíma og kallað á hröð viðbrögð og stefnumótun. Verði breytingar á aðstæðum kann að verða nauðsynlegt að undirbúa tillögu um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu.

Ef til þess kemur á næstu árum að taka þurfi ákvarðanir með skömmum fyrirvara í Evrópumálum er mikilvægt að Íslendingar noti tímann vel og vinni að langvarandi stöðugleika og varanlegu jafnvægi í efnahags-, verðlags- og gjaldeyrismálum. Þetta eiga Íslendingar að gera upp á eigin spýtur og að eigin frumkvæði sem frjáls þjóð. Árangur í þessu kann að taka nokkur ár. Hann er jafnframt forsenda þessað Íslendingar uppfylli Maastricht-skilmálana sem verða, að sínu leyti, skilyrði þess að Íslendingar gætu gengið til Evrópusamstarfsins um sameiginlegan gjaldmiðil ef þeir svo kjósa í framtíðinni. Fátt bendir þó til að það verði gert öðruvísi en með fullri aðild Íslendinga að Evrópusambandinu.

Ef sótt yrði um aðild Íslendinga að Evrópusambandinu yrði umsóknin að miðast við sérstöðu Íslands, landsréttindi og þjóðarhagsmuni Íslendinga, nauðsynlega aðlögun og öryggisþætti. Í þessu samhengi er vert að benda á að í aðalsáttmála Evrópusambandsins eru ákvæði sem tryggja fjarlægum eyjasamfélögum víðtæka sérstöðu og eigin yfirráð, m.a. á sviði fiskveiða og landbúnaðar (299. gr.). Í frumvarpi að aðildarsamningi Norðmanna, sem fellt var í þjóðaratkvæðagreiðslu, er varanlegt ákvæði um eignarhald á fiskiskipum. Í aðildarsamningi Finna eru ákvæði um víðtæk frávik frá landbúnaðarstefnu ESB í formi svæðisbundinna styrkja. Aðildarsamningur Maltverja gerir ráð fyrir nokkrum sérréttindum heimamanna í fiskveiðum og á sviði þjónusturekstrar. Ennfremur eru þar ákvæði um eignarhald á landi og fasteignum. Hliðstæð sérréttindi er varðar eignarhald á fasteignum má einnig finna í aðildarsamningi Dana."

Jón Sigurðsson, fv formaður Framsóknar hefur einmitt verið að rifja upp nokkur þessara atriða og dýpkað þau frekar í greinum sem birst hafa í Morgunblaðinu að undanförnu og ber þökk fyrir.

Fyrir mér fer spurningunum fækkandi, en um leið verða þær flóknari og erfiðari og ljóst að þeim verður ekki svarað nema í aðildarviðræðum:

  • Hversu mikils virði er nýr gjaldmiðill okkur í formi lægri vaxta og stöðugleika í gengi?
  • Hversu miklar hömlur setur það efnahagsstjórninni og uppbyggingu þjóðfélagsins að missa vaxtaákvörðunartækið úr okkar höndum, hvaða þörf verður á fleiri tækjum þegar myntin er orðin stöðugri, hvaða önnur tæki eru til staðar og hver þeirra viljum við nota, verður atvinnustig kannski eina efnahagsstjórnartækið?
  • Hversu mikil yfirráð munum við hafa yfir auðlindum okkar?
  • Hvað myndi breytast ef eignarhald á sjávarútvegsfyrirtækjum mætti verða erlent?
  • Hvað kostar aðildin?
  • Á hvaða lokagengi yrði íslenska krónan metin inn í myntsamstarf?

Þessi síðasta spurning er líklegast sú sem minnst hefur verið rædd, en um leið kannski sú erfiðasta. Ef tekið yrði upp fast myntsamstarf, annaðhvort með upptöku evru, annarar myntar eða fasttengingar við aðra mynt yrðu Íslendingar að semja við viðkomandi seðlabanka um það gengi sem miðað yrði við.

Um væri að ræða heildarmat á virði íslensks efnahags.

Einnig þarf að meta áhrif gengisins á útflutnings- og samkeppnisatvinnuvegunum, sem blómstra núna eftir gengisfallið, meðan að kaupmáttur almennings er mun rýrari en áður. Þarna takast á stórir og miklir hagsmunir og þar erum við íslendingar ekki einir um ákvörðunina. Við þyrftum nefnilega að semja um það við seðlabanka viðkomandi ríkis sem þyrfti að samþykkja að kaupa íslenskar krónur á tilteknu gengi.

Einhliða upptaka er tæknilega möguleg, en ef hún er tekin í beinni andstöðu við seðlabanka þeirrar myntar sem tekin yrði upp, er hætt við að upptökutímabilið yrði ansi róstursamt, því sá seðlabanki gæti ákveðið að kaupa íslenskar krónur á því gengi sem honum sýndist í samræmi við eigin hagsmuni, án tillits til okkar hagsmuna. Þannig er það varla mögulegt að taka upp aðra mynt öðruvísi en með samkomulagi við hann.

Það verður fróðlegt að fylgjast með umræðunni og fylgjast með henni dýpka og vonandi munu íslenskir stjórnmálaflokkar axla þá ábyrgð að hefja umræðuna upp úr skotgröfunum á málefnalegt plan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Gestur.

Mín afstaða til Evrópusambandsaðildar byggist á því sem ég hefi nú þegar kynnt mér, og ég er ekki hlynnt henni að svo komnu máli að því gefnu.

Það breytir því hins vegar ekki að margir sem ég þekki eru á öndverðum meiði og oft og iðulega skoðanaskipti um þessi mál, fram og til baka.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 7.9.2008 kl. 23:44

2 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Heyrðu, nú kallinn, skammastu þín virkilega ekkert fyrir að vera framsóknarmaður?

Þú ert maðurinn sem hefðir átt að fylgja liðinu heim eftir 14-2 tapið hér um árið.

Sigurður Sigurðsson, 8.9.2008 kl. 12:25

3 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Sigurður: Nei, ekki aldeilis.

Sæl Guðrún María: Þú ert sem sagt ekki fylgjandi miðað við þær upplýsingar sem þú hefur gleggstar í dag, en ef forsendur breytast?

Gestur Guðjónsson, 8.9.2008 kl. 15:03

4 Smámynd: Gísli Tryggvason

Um 2. pkt. bendi ég aðeins á álitamálið um hversu vel - eða illa - núverandi stjórntæki (einkum stýrivextir) virka í verðtryggðu umhverfi. Um annað segi ég pass í bili.

Gísli Tryggvason, 8.9.2008 kl. 16:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband