Sjálfsblekking eða bara blekking?
13.9.2008 | 23:08
Mann setur hljóðan þegar ráðherra efnahagsmála segir að nýjustu tölur Hagstofunnar um þjóðarframleiðslu komi á óvart.
Eitthvað mikið hlýtur að vera að í efnahagslíkani stjórnvalda og hagmælingum ef slíkt gerist.
Mann setur enn hljóðar að ráðherra efnahagsmála skuli án fyrirvara álykta útfrá þessum óvæntu tölum að engin kreppa sé í spilunum. Hafa verður í huga að á þeim tíma sem þessi aukning í þjóðaframleiðslu um örfá prósent á sér stað, fellur gengið á þeim gjaldmiðli sem mælt er í um tugi prósenta. Gengisfallið veldur því að útflutningsframleiðsla mælist meiri sem því nemur, sem gerir mælinguna sem mælikvarða á raunframleiðslu þjóðarbúsins ómarktæka.
Hagfræðingurinn og forsætisráðherrann Geir H Haarde er annað hvort að blekkja almenning með þessum orðum sínum, eða hann er haldinn alvarlegri sjálfsblekkingu, sem viðhaldið er af þeim sem hann hlustar helst á. Við hvorugt verður búið til lengdar.
Í stað þess að taka þessa mælingu sem enn eina átylluna til að gera lítið sem ekki neitt, ætti þessi mæling, ásamt öllum þeim skilaboðum sem koma frá atvinnulífinu, að styrkja ríkisstjórnina í því að halda áfram að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn en ekki síður í því að losa um þá lánsfjárkreppu sem er að kæfa alla atvinnustarfsemi og nýsköpun í landinu.
Um leið ætti að endurskoða ramman um Seðlabankann, stjórn og skipulag hans og peningamálastefnu, sem Geir H Haarde hefur boðað fyrir mörgum mánuðum en ekki gert neitt í, því við þessa stýrivexti verður ekki búið, þeir kæfa alla nýsköpun og atvinnulíf. Ekki síður þarf að auka lánsfé á markaði, t.d. með aðkomu lífeyrissjóðanna í samráði við aðila vinnumarkaðarins. Verðbólgan nú er ekki drifin áfram af of miklu peningamagni í umferð lengur, heldur kostnaðarhækkunum vegna gengisfalls. Á slíkri verðbólgu bítur stýrivaxtavopnið greinilega ekki, það þarf að fara aðrar leiðir.
Þar er trúverðug og ábyrg greining á stöðu mála og skynsamlegar og samhæfðar aðgerðir byggðar á þeirri greiningu lykilatriði. Slíkt verður ekki gert nema með góðri samvinnu allra aðila.
Því miður virðist ríkisstjórnin ekki þora að tala við SA eða verkalýðshreyfinguna og fara í sameiginlegar aðgerðir, þrátt fyrir mikinn fagurgala um samráð og samhæfingu.
Sá fagurgali var víst bara blekking.
Ekki rétt að tala um kreppu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.