Af ástum samlyndra sveitarfélaga...

Í allri sambúð er gagnkvæm tillitssemi og virðing grundvallaratriði. Sérstaklega þegar um er að ræða það fjölkvæni og fjölveri sem samstarf sveitarfélaganna á Höfuðborgarsvæðinu svo sannarlega er. Rekkjubrögðin eru afar fjölbreytileg, á sviði svæðisskipulags, vatnsverndar, brunavarna, almenningssamgangna, sorphirðu og förgunar, reksturs fráveitukerfisins svo eitthvað sé nefnt.

Í þessu margslungna sambandi verður hvert sveitarfélag að virða sjálfstæði hins þannig að ekki sé gengið á rétt nágrannana. Hefur það í flestum tilfellum tekist þokkalega.

Nú stefnir því miður í að dæmi um hið gagnstæða sé í uppsiglingu.

Mikið hefur verið fyllt upp af landi á hafnarsvæði Kópavogs undanfarin ár og til stendur að fylla enn meira og standa áætlanir Kópavogsbúa að fylla Fossvoginn alveg út að sveitarfélagamörkum Kópavogs og Reykjavíkur.

karsnes-framkvaemdirEkki stendur til að fara í umhverfismat framkvæmda vegna þessara fyllinga, sem hlýtur að vera misskilningur sem verður leiðréttur, en í því umhverfismati munu umhverfisáhrif á Skerjafjörðinn koma í ljós og í framhaldi af því verður hægt að meta hvort þau séu ásættanleg.

Niðurstöðu slíks mats er ekki hægt að gefa sér fyrirfram, en óháð því er alveg ljóst að með þessum fyllingum væri farið að ystu mörkum þess sem hægt er að leggja á lífríki Skerjafjarðar og frekari framkvæmdir annarsstaðar væru verulega heftar.

Allar hugmyndir um brúartengingar yfir Skerjafjörðin yrðu mun erfiðari ef þær væru yfir höfuð mögulegar, en það alvarlegasta í þessu máli er að ef farið yrði í þessar fyllingar óbreyttar væri líklega tekið fyrir alla þróun flugvallarins í Vatnsmýri út í Skerjafjörð og sömuleiðis væri líklegast hægt að afskrifa flugvöll á Lönguskerjum. Má því segja að með þessum fyllingum væri Kópavogur að auka líkurnar á því að flugvöllurinn fari alveg úr Vatnsmýrinni. Er það stefna Kópavogs?

Kópavogsbær verður að gæta þess að fara ekki með frelsi sitt í skipulagsmálum með þeim hætti að það hefti möguleika annara sveitarfélaga til eðlilegrar þróunar. Slíkt myndi fjölga þeim röddum sem vildu taka skipulagsvaldið af sveitarfélögunum og færa það til ríkisins, sem væri afar mikil öfugþróun. Ekki er það stefna Kópavogs?

Þverpólitísk samstaða er í Umhverfis- og samgönguráði Reykjavíkur um málið og verður því fylgt eftir af þunga af þess hálfu, en vonandi sjá Kópavogsmenn að sér, svo sambúð og rekkjubrögð þessara nágranna haldist áfram jafn ljúf og þau hafa verið hingað til.


mbl.is Reykjavík gagnrýnir áform um landfyllingu á Kársnesi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband