Kostir og gallar verðtryggingar

Það er einkennileg umræða þegar fólk kvartar yfir þeim viðskiptasamningum sem það gerir af fúsum og frjálsum vilja. Var það blekkt? Var það þvingað? Er um óeðlilega viðskiptahætti að ræða?

Nei.

Þegar maður borgar ekki meira af verðtryggðu láni en sem nemur rétt vöxtum er ekki nema von að eftirstandandi höfuðstóll hækki í verðbólgutíð. Það liggur í hlutarins eðli. Fólk er að fá greiðslufrest fyrir verðbólgunni.

Ef menn taka aftur á móti lán sem er með breytilegum vöxtum, verður afborgunin hærri þegar verðbólgan er há, en lægri þegar hún lækkar. Vegna þess að meira er borgað á verðbólgutímum gengur stöðugt á höfuðstólinn sem lækkar. Sú sveifla leiðir það af sér að meira borð þarf að vera fyrir báru þegar lán eru tekin og því ekki hægt að kaupa eins dýrt húsnæði en annars. Auðvitað er spurning hvort það er kostur eða galli.

Í raun má segja að verðtryggt lán veiti manni tryggingu fyrir því að mánaðarlegu útgjöldin hækki ekki úr hófi og er í raun greiðslufrestun og greiðslumiðlun milli tímabila með mismunandi verðbólgustigi.

Ég er ansi hræddur um að í núverandi verðbólgutíð væru margar fjölskyldur komnar í mun verri mál með húsnæðislán með breytilegum vöxtum, með þeim hörmungum sem því fylgdu.

Hins vegar verður einnig að taka tillit til þess að líklegast væru stýrivextirnir ekki svona háir ef Seðlabankinn hefði haft tök á að fara í vasa fjölskyldnanna í gegnum húsnæðislánin.

Það verður víst ekki bæði sleppt og haldið...

Værum við í Evrulandi með þessa verðbólgu væri staðan alveg sú sama. Verðbólga í evrum virkar nefnilega alveg eins og verðbólga í krónum.

Sú festa í stjórn efnahagsmála sem óneitanlega fylgdi evruupptöku ætti að óbreyttu að halda verðbólgunni niðri, á kostnað atvinnustigsins, en það er ekkert sem segir að menn geti ekki haldið sama aga þótt gjaldmiðillinn sé króna, menn hafa bara ekki gert það og núverandi ríkisstjórn er því miður síst best í því.

Hins vegar væri allrar athygli vert að skoða að það séu ekki bara neytendur sem eigi að taka verðbólguáhættuna. Ef lánveitendur ættu að taka á sig einhvern hluta þeirrar áhættu, eins og Birkir J Jónsson lagði til að skoðað yrði, væru hagsmunirnir þeir sömu og bæði bankar og aðrir myndu hafa hag af því að hafa verðbólguna lága.


mbl.is Skuldin hækkar hraðar en eignin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Sú gengdarlausa skuldsetning sem íslenskur almenningur situr uppi með Gestur, er fyrst og fremst afleiðing hinnar svokölluðu verðtryggingar.  Af hverju er þetta kallað verðtrygging.Þetta er ekkert annað en vextir sem eru bundnir neysluvísitölu sem síðan leggst við höfuðstól sem ber síðan aftur vexti.Að leyfa slíka lántöku til 40 ára,þar sem útilokað er að segja til um hvað lántakandinn þarf að borga er hreint rugl.Það er allt í lagi að að leyfa fyrirtækjum að taka slík lán, ef þá einhver þorir að lána fyrirtæki sem vill slíka lántöku.Síðan stangast slík lántaka á við lög um upplýsingaskyldu lánveitanda um greiðslubyrði lánsins.Spurningin gæti verið sú hvort hvort verðtryggingin er ekki hrein okurstarfsemi sem fer fram með blekkingum sem fólk getur kært til mannréttindadómstóls Evrópu, og einfaldlega hætt að borga af lánunum.Staða Íslands væri önnur hvað skuldsetningu varðar ef þessi lög sem leifa slíkar lánveitingar til almennings væru ekki til staðar.Ég segi þetta ekki vegna þess að ég sé með slík lán sjálfur.Svo er ekki.Ég tek ekki slík lán.

Sigurgeir Jónsson, 27.9.2008 kl. 16:45

2 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Það má með hæfilegri einföldun segja að verðtryggt lán sé í rauninni lán með síbreytilegum vöxtum. Það er rétt hjá þér Sigurgeir, en þar sem lánveitandinn er ekki að taka neina áhættu hvað varðar neysluvísitöluna, ætti lánið að öllu öðru óbreyttara vera því ódýrara, hefur verið talað um 0,5% í því sambandi, sem er talsvert þegar allt er reiknað saman.

Gestur Guðjónsson, 27.9.2008 kl. 17:12

3 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Gestur:

Þetta er bara mjög áhugaverður og fróðlegur pistill hjá þér verð ég að segja. Þakkir fyrir hann.

Hjörtur J. Guðmundsson, 27.9.2008 kl. 20:04

4 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Góður pistill Gestur.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 28.9.2008 kl. 01:25

5 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Já fínn pistill Gestur. Takk fyrir.

En um leið og fjármagnseigendur eru beðnir að taka á sig meiri áhættu þá munu þeir hækka vextina þ.e. krefjast betri trygginga (betri ofnæmislyf gegn rýrnun) eða fara eitthvað annað með peningana því það er frjálst flæði peninga og þá mun framboð peninga á fasteignalána markaðinum minnka.

Bankar voru að boða hækkun útlánsvaxta hér í Danmörku þann 1. október um 0,5% vegna vandræða á fjármálamörkuðum => verð á peningum fer hækkandi á millibankamarkaði. Útlánsvextir á venjulegum yfirdrætti verða á bilinu 8,5% - 19,5%. En 10-14% verður algengt fyrir meðal-Jón. En vextirnir fara eftir greiðslugetu (ríkur eða fátækur), upphæðinni (stærð áhættu) og viðskiptavild (ertu nýr eða gamall og velreyndur kúnni). Stýrivextir í Danmörku eru 4,25%.

Að meðaltali þá skuldbreytir stór hluti Dana húsnæðislánum sínum á þriggja ára fresti - og taka náttúrlega út alla eignamyndun í hvert skiptið þannig að flestir eru með allt upp fyrir skorstein og treysta á verðhækkanir. Stimpilgjaldakostnaður er óheyrilegur. En núna er ballið búið. Þetta hefur verið aðal orsakavaldur alls efnahagslegs framgangs hér undanfarin ár (bóla). Og svo eru það afborganalausu lánin, þau eiga eftir að koma af stað flugeldasýningu og "glade dage" á himni fjármála hér.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 28.9.2008 kl. 07:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband