Davíð og ríkisstjórn í leikskóla !
18.11.2008 | 23:46
Ræða Davíðs Oddssonar hjá Viðskiptaráði er sorgleg fyrir margra hluta sakir
- Hún er sorglegur vitnisburður um embættismann sem ætti að vera að bjarga hag þjóðar sinnar, en eyðir þess í stað tíma sínum í að kenna hinum og þessum um hvernig komið er. Sá tími mun koma að gera þarf upp málin, en sá tími er ekki núna.
- Hún er sorglegur vitnisburður um sofandahátt ríkisstjórnar sem brást ekki við af myndarskap, þegar Seðlabankinn og að því er virðist Fjármálaeftirlitið einnig, vöruðu við ástandinu á bankamarkaðinum í vor.
- Hún er sorglegur vitnisburður um aðgerðarleysi og dugleysi Seðlabanka og Fjármálaeftirlits, sem þó eru bundin af aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar.
- Hún er sorglegur vitnisburður um greinilegt virðingarleysi sem ríkir í garð Fjármálaeftirlits, sem þrátt fyrir allt ber skylda til að eiga samstarf við Seðlabankann, á meira að segja mann í stjórn Seðlabankans og öfugt.
- Hún er sorglegur vitnisburður manns sem skilur augljóslega ekki alþjóðlegt samstarf. Á hverju það byggir og hversu mikils virði velvild nágrannaþjóða og helstu viðskiptaþjóða er. Heimastjórnarmennskan er þjóðinni ekki til framdráttar. Við verðum að vernda viðskiptavild þjóðarinnar.
- En fyrst og síðast er ræða Davíðs Oddssonar sorglegur vitnisburður um mann sem aldrei hefur á ævinni tapað og sér hugsanlega fram á sitt fyrsta tap, en ákveður að berjast til síðasta blóðdropa, númeð því að varpa ábyrgð út og suður, sumpart á rétta staði, en í annan part ekki.
Ráðherrar og aðrir embættismenn bregðast við á sama plani og Seðlabankastjóri og segja ekki ég", það var ekki sagt mér það", það er víst honum að kenna", hann vissi meira en ég". Ástandið minnir á það ástand sem kemur upp oft og iðulega upp í leikskólum landsins og bið ég leikskólabörn landsins þegar afsökunar. Líklegast væri réttast að kalla til fólk sem er sérmenntað og vel þjálfað til að eiga við ástandið. Köllum leikskólakennara inn á ríkisstjórnarfundi til að hafa stjórn á þeim. Hagfræðingar, sagnfræðingar, lögfræðingar, líffræðingar, sagnfræðingar og dýralæknar geta það greinilega ekki.
Hins vegar komu einnig fram áhugaverð og réttmæt sjónarmið, sérstaklega um fjölmiðla landsins. Mikil má skömm Davíðs sjálfs vera að hafa lagt fram jafn meingölluð fjölmiðlalög á sínum tíma. Það léleg að þau fengust ekki í gegn.
Eins verður fróðlegt að sjá hvað olli raunverulega reiði breta. Það hlýtur að koma fljótlega fram, fyrst sandkassaleikurinn er kominn á fullt.
Fréttaskýring: Vígreif varnarræða seðlabankastjóra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
þetta var einsog að hlusta á gamlan alka í fjölskylduboði
SM, 19.11.2008 kl. 13:33
"En fyrst og síðast er ræða Davíðs Oddssonar sorglegur vitnisburður um mann sem aldrei hefur á ævinni tapað..."
Davíð tapaði feitt i fjölmiðlafrumvarpsmálinu?
Þráinn Kristinsson (IP-tala skráð) 19.11.2008 kl. 13:51
Það er stundum gaman að heyra til Davíðs, en hann er vissulega fallin stjarna. Og ég er virkilega sammála þér um leikskólagírinn. Davíð og ýmsir í ríkisstjórninni eru í þessum ham.
Hins vegar kom viðtalið við Jón Sigurðsson krata sem situr í stjórn FME og bankaráði Seðlabankans mér þægilega á óvart. Mér þótti hann yfirvegaður og hófstilltur, og ef rétt er sem hann segir þá virðist FME hafa verið að gera hlutina rétt út frá viðurkenndum forsendum á sínum tíma - sem nú er komið í ljós að gerðu ekki ráð fyrir því að þurfa að takast á við svo óvanalegar aðstæður sem heimskreppa er.
Burtséð frá þessu er auðvitað mikilvægt að hlutlaus aðili, sem hafið er yfir vafa að sé ótengdur málinu, rannsaki ofan í kjölinn hvar ábyrgðin liggur. En ljóst er að ríkisstjórnin getur tæplega verið stikkfrí, og hvað sem Davíð segir þá var vaxtastefna Seðlabankans ekki að virka um langan tíma - þessir háu vextir voru bara hvati fyrir bankana að sækja fjármagn til útlanda og endurlána á hærri vöxtum; óbeint hjálpaði röng stefna Seðlabankans þeim að blása út!
Einar Sigurbergur Arason, 20.11.2008 kl. 00:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.