Talar í lausnum - hafnað af Samfylkingu

Það var gaman að hlusta á Benedikt Sigurðarson framkvæmdastjóra á Akureyri á borgarafundinum í kvöld. Hann talaði í lausnum og um raunveruleikann eins og hann blasir við honum. Eitthvað sem Samfylkingarmenn hafna, enda hlaut hann ekki brautargengi í prófkjöri flokksins fyrir síðustu kosningar.

Hann talaði um nauðsyn þess að fólk gæti staðið við sínar skuldbindingar og lagði til að vísitalan verði fryst. Sú lausn gengur í mínum huga ekki upp eins og hann leggur hana til, en það er hægt að ná sömu markmiðum með þeirri leið sem miðstjórn Framsóknar lagði til á fundi sínum um daginn, þar sem lagt var til að boðin yrði skuldbreyting á vísitöluhækkun lána næstu 12 mánuði.

Á þann hátt er verðbólgukúfnum létt af fólki, um leið og staðið verður við samninga við skuldareigendur, sem eru að mestu leiti lífeyrissjóðirnir okkar. Sú upphæð sem fryst er með þessum hætti, bættist aftan við það lán sem fryst væri.

Það er þörf á Framsókn við stjórn landsins og mönnum eins og Benedikt.


mbl.is Verðtryggingin verði fryst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Karl Ólafsson

Einu lausnirnar sem nefndar eru felast í endalausum skuldbreytingum sem svo aftur eru að sjálfsögðu verðtryggðar og enn bætist bara á skuldaklafa fólks sem þegar á í raun ekki veð fyrir skuldum sínum. Hvenær ætla menn að sjá að það er ekki hægt að skipta bara um kennitölur hjá bönkunum og afskrifa skuldir þeirra eins og siður er hjá fjölda Íslendinga (nánast þjóðarsport), en ætlast til að allur pakkinn bara bætist ofan á ólánsama verðtryggða skuldara.

Lífeyrissjóðirnir og ILS sem vissulega eiga stórar fúlgur fjár útistandandi í verðtryggðum skuldabréfum geta einfaldlega ekki ætlast til þess að vera áskrifendur að nýjum peningum sem skellt er inn í hagkerfið í formi verðbóta. Ég minni enn og aftur á að þessir peningar ERU EKKI TIL og það eru engin, endurtek ENGIN verðmæti á bak við þessar verðbætur.  Hvet þig til þess að lesa í gegnum blog mitt og fleiri blog um sama efni. Spurðu svo hagfræðingana ykkar í Framsókn hvar í mínum rökstuðningi hef ég rangt fyrir mér. Ég vil gjarnan vita hvar ég hugsa þessi rök vitlaust. Eru lífeyrissjóðirnir og ILS einhverju betur settir ef þeir sitja uppi með nokkur þúsund húseignir sem þeir geta ekki selt næstu árin? Og fólkið sem gæti leigt eignirnar farið af landinu?

Karl Ólafsson, 25.11.2008 kl. 01:46

2 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Karl: Þessi lausn er auðvitað sértæk og ætti að hjálpa fólki að komast yfir þennan hjall, en til lengri tíma ætti að breyta þessu amk í þá átt að skuldari og skuldareigandi bæru sameiginlega ábyrgð á þessu. Þá töpuðu bankarnir á því að taka stöður gegn krónunni.

Framsókn ályktaði eftirfarandi á síðasta flokksþingi:

Ályktun um verðbólgumælingar og afnám verðtryggingar

Markmið

Mikilvægt er að vísitölu- og verðbólgumæling sé með sem bestum hætti og samræmist því sem best gerist í okkar nágranna- og samkeppnislöndum. Að mælingarnar bæti hag lántakenda, en núverandi kerfi tryggir fyrst og fremst haga banka og lánveitenda.

Leiðir

• Vísitala neysluverðs mæli einungis raunverulega neyslu og sé í samræmi við alþjóðlegar viðmiðanir.

• Að meta stöðugleikann í hagkerfinu með tilliti til afnáms verðtryggingar.

Fyrstu skref

Þróun húsnæðisverðs verði tekin úr verðbólgumælingunni. Þess í stað verði miðað við þróun byggingakostnaðar og húsaleigu. Stefnt skal að því að afnema verðtryggingu.

Gestur Guðjónsson, 25.11.2008 kl. 02:15

3 Smámynd: Karl Ólafsson

Þessi ályktun á án efa eftir að afla ykkur all nokkurra atkvæða, en er hægt að treysta því að unnið verði eftir þessu? Hafið þið t.d. velt fyrir ykkur hvernig þið takið á hagsmunagæslu lífeyrissjóðanna, en þeir eru þeir sem verja núverandi verðtryggingarkerfi fram í rauðan dauðann.

Ég hef ekkert á móti því að vísitala sé mæld og notuð til viðmiðunar við vaxtaákvarðanir SÍ, en sjálfvirk peningaprentun út á verðlag getur ekki gengið. Og við bara verðum að venja okkur af því að fresta greiðslubyrði vaxta með því að leggja þá við höfuðstólinn. Það er engum greiði gerður með því.

Takk fyrir svarið. Ég vona að þú lesir yfir nokkrar færslur frá mér og berir undir hagfræðinga :-)

Karl Ólafsson, 25.11.2008 kl. 02:26

4 identicon

Eruð þið BS að nálgast? T.d. í evrópumálum?

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 25.11.2008 kl. 09:24

5 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Karl: Ég átta mig á því sem þú segir og tek undir það, en meðan við erum með þessa krónu okkar jafn óstöðuga og hún er, tel ég einsýnt að vísitölutengingar þurfi að búa við um einhverja hríð. Aftur á móti verður að endurskoða vísitölumælinguna, þegar húsnæðisverð hefur náð lágmarki og helst strax.

Gestur Guðjónsson, 25.11.2008 kl. 09:27

6 Smámynd: G. Valdimar Valdemarsson

Ég hef verið að velta fyrir mér leið sem hagfræðingur benti á fyrir nokkrum dögum.  Sú leið sem hann mælti með er að ríkið greiði verðbótaþátt lána til banka, íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóða með skuldabréfum á meðan verðbólgukúfurinn er að ganga yfir.   Bréfin verði t.d. til fimm ára og afstaða tekin að þeim tíma liðnum hvernig farið verði með.

G. Valdimar Valdemarsson, 25.11.2008 kl. 10:22

7 Smámynd: Hrannar Björn Arnarsson

Sælir

Allar hugmyndir um frystingu, afnám eða hámark á verðtryggingu eru mismunandi útfærslur á niðurgreiðslu lána. Þeir sem tala fyrir slkum niðurgreiðslum til tiltekins hóps lántakenda, en ekki annarra, verða að skýra fyrir fólki hvenig, hverjir og hversvegna eigi að niðurgreiða þessi tilteknu lán.

Satt er það að verðtryggingin er ekki lögmál. Hún er aðferðafræði verðbólgussamfélags til að tryggja lánveitendur gegn verðbólgu og lækka með þeim hætti raunvexti til lántakenda.

Þetta markmið verðtryggingar hefur gegnið mjög vel eftir undanfarna tvo áratugi. Þeir sem hafa nýtt sér verðtryggð fasteignaveðlán hafa notið lægstu raunvaxta á markaðnum og þeir gera það enn.

Aðrar þjóðir bjóða lántakendum óverðtryggða vexti og oftast breytilega. Slíkir lánveitendur reikna sér hærri vexti til að tryggja sig fyrir verðbólgunni. Slík lána hafa lengi staðið húsnæðiskaupendum á Íslandi til boða og gera það enn. Flest gætum við því farið í bankann skuldbreytt yfir í óverðtryggð lán og losað okkur þannig undan hinn íllræmdu "vítisvél andskotans" eins og Benedikt kallaði verðtrygginguna í gær - eins smekklegt eða gáfulegt og það nú er.

Óvertryggðir vextir eru uþb 20% í dag !

Þeir sem tala fyrir frystingu eða afnámi verðtryggingu á núverandi lánum eru efnahagslegir skottulæknar. Þeir sjálfir myndu aldrei láta sér detta í hug að leggja slíkt til eða framkvæma, ef þeir þyrftu að bera á slíku ábyrgð.

Ég myndi amk þiggja lán hjá þeim sem þannig væri til í að lána - ekki spurning !

Ég bendi þeim sem vilja fræðast um viðhorf mitt til slíkra efnahagslegra skottulækna á blog mitt á hrannar.is

Kveðja,

Hrannar

Hrannar Björn Arnarsson, 25.11.2008 kl. 11:20

8 Smámynd: G. Valdimar Valdemarsson

Hrannar:  Þegar ríkisstjórn og Seðlabanki gefa út verðbólgumarkmið gera lántakendur ráð fyrir því að gripið sé til viðeigandi ráðstafana til að halda þau.  Það er kallað forsendubrestur þegar verðbólga fer fleiri hundruð prósent fram úr settum markmiðum og í venjulegu réttarríki þýðir það að lántaki getur farið fram á riftun vegna forsendubrests. 

Þetta er ástæðan fyrir því að stjórnvöld bera þarna ábyrgð og geta ekki komið sér undan henni.  Úrræði skuldara verður þá bara að hætta að greiða af lánunum og láta reyna á lög og reglur og það er ekki gefið að slíkt mál tapist þar sem öllum má vera ljóst að stjórnvöld hafa brugðist.

G. Valdimar Valdemarsson, 25.11.2008 kl. 11:33

9 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Hrannar: Sú leið sem miðstjórn Framsóknar vill fara er ekki að niðurgreiða neitt. Sú vitleysa sem núverandi ríkisstjórn hefur farið í að eyða milljarðahundruðum í einhverjar ótilgreindar millifærslur til einstaklinga og fyrirtækja úr sameiginlegum sjóðum landsmanna er einhver sú mesta ójafnaðaraðgerð sem um getur. Hugmyndin er að greiðslujafna á þann hátt að gefið yrði út skuldabréf, sem næmi vísitöluhækkun næstu 12 mánuða, sem greitt yrði eftir að búið er að borga upp upphaflega lánið. Fín fjármögnun fyrir lífeyrissjóðina og skuldarar geta staðið í skilum. Allir græða og engin svikinn.

Gestur Guðjónsson, 25.11.2008 kl. 12:40

10 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Svo því sé til haga haldið er jöfnunarvístöluleiðin í sjálfu sér ágæt, nema að því leiti að það er ríkissjóður sem er að leggja út fyrir seinkuninni. Ríkissjóður hefur nóg við sína peninga að gera. Sú leið sem Framsókn leggur til er án útgjalda fyrir ríkissjóð og Íbúðalánasjóð.

Gestur Guðjónsson, 25.11.2008 kl. 13:07

11 Smámynd: Hrannar Björn Arnarsson

Gestur - gott að við erum sammála um að greiðslujöfnuni sé góð leið. Henni svipar reyndar mjög til þeirrar hugmyndar sem þið framsóknarmenn hafði stungið uppá.

Ríkissjóður mun ekki leggja út krónu vegna þessa heldur mun Seðlabankinn útvega lausafé, væntanlega með útboði ríkisbréfa og afhenda lánastofnunum sem það þurfa, með hefðbundinni ávöxtun. Svipuð útfærsla hygg ég og í ykkar hugmynd.

Við G. Valdimar segi ég hinsvegar, að telji menn um forsendubrest sé að ræða (sem ég ætla ekki að mæla í mót), þá þarf að gera þann forsendubrest upp við stjórnmálamenn - ekki lánadrottna. Ég legg í raun til að þú ræðir það mál við forystu þíns flokks - eithvað hefur hún haft með þetta að gera á undanförnum árum....

Kveðja,

Hrannar Björn Arnarsson, 25.11.2008 kl. 14:00

12 Smámynd: G. Valdimar Valdemarsson

Hrannar: Enda leggur forysta míns flokks til úrræði til að bregðast við með varanlegum hætti en ekki að fresta vandanum.

G. Valdimar Valdemarsson, 25.11.2008 kl. 14:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband