Niðurfærsluleiðin gengur vel upp
2.3.2009 | 14:30
Ríkisstjórnarflokkarnir hafa ekki komið fram með neinar tillögur til að koma heimilum landsins til hjálpar, þrátt fyrir fagurgala þegar minnihlutastjórnin var mynduð.
Það hefur Framsókn nú gert og viðbrögð ríkisstjórnarflokkanna láta ekki á sér standa. Forsvarsmenn þeirra gagnrýna þá eins og á kappræðufundi væru, en sjá ekki neina ástæðu til að koma með tillögur sem ná þá betur markmiðunum.
Forsætis- og fjármálaráðherra tala um að 20% niðurfærsluleiðin sé óraunhæf og kosti skattborgarana stórfé. Það er ekki rétt og ætla ég að reyna að útskýra það hér.
A: Fyrir hrunið voru íbúðalán landsmanna nokkuð jafnt skipt milli bankanna og Íbúðalánasjóðs, 1.300 milljarðar alls.
B: Við aðskilnað milli gömlu og nýja bankanna var íbúðalánasafn þeirra fært inn í nýju bankanna og það metið á 50% og fengu þeir skuldabréf upp á ca 325 milljarða fyrir. Hitt var afskrifað.
C: Tillaga Framsóknar gengur út á að færa þessi íbúðalán inn í Íbúðalánasjóð, sem hefur þá greitt 975 milljarða yrir 1.300 milljarða lánasafnið.
D: Með því að afskrifa 20% af því safni, á Íbúðalánasjóður enn lausa 65 milljarða til að taka á sig hugsanlega aukin útlánatöp, sem eru jú talsvert minni en ef ekki yrði farið í niðurfærslu. Annað gengur beint til húsnæðiseigenda.
E: Með því að niðurfæra húsnæðislán um 20%, að ákveðnu hámarki fyrir hvern auðvitað, léttist greiðslubyrði íbúðaeigenda sem eykur líkurnar á því að hægt sé að standa í skilum. Fleiri aðgerðir eru einnig í tillögum Framsóknar gagnvart þeim sem ekki ráða við lánin þótt niðurskrifuð væru, þar sem ákveðið hlutfall launa fari í greiðslu á lánum, en það sem upp á vantaði, bættist aftan við lánið.
Þessar tillögur eru skýrar og ganga vel upp.
20% niðurfærsla gagnvart fyrirtækjum og atvinnulífi eru svo sjálfstæðar tillögur sem ég fer betur yfir seinna, en á meðan bíð ég í ofvæni eftir tillögum annarra flokka.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.3.2009 kl. 10:15 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.