Góðar fréttir úr borginni

Stjórn Reykjavíkurborgar er vin í eyðimörk íslenskra stjórnmála og stjórnsýslu þessa dagana. Þar er svo sannarlega verið að taka rétt á hlutunum og er ég stoltur af því að vera hluti af þessum meirihluta Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna, en ég er varaformaður umhverfis- og samgönguráðs.

Í aðgerðaráætlun borgarinnar, sem sett var í gang við myndun nýja meirihlutans, var gefin út skýr lína, þar sem grunnþjónusta við íbúa er varin, gjaldskrár yrðu óbreyttar og störf borgarinnar yrðu vernduð, hefur reynst afar framsýnt og gott skref sem hefur gefið stórgóðan árangur, sem íbúar Reykjavíkur munu sjá enn frekar, þegar þeir bera sig saman við íbúa nágrannasveitarfélaganna á komandi ári. Hafa starfsmenn borgarinnar tekið boltann á lofti og unnið stórkostlegt starf, komið með fjölda hugmynda til viðbótar við hugmyndir kjörinna fulltrúa, útfært þær og komið í framkvæmd.

Ábyrg, hallalaus fjárhagsáætlun gerir borgina einnig í stakk búna til að mæta næsta ári, sem samkvæmt spám verður jafnvel enn þyngra.

Fjárframlög til Vinnuskólans, þessarar perlu í þjónustu Reykjavíkurborgar, eru varin, sem er góð forgangsröðun, en þar sem búast má við mikilli fjölgun vinnufúsra handa sem deila þarf laununum á, verður eilítið dregið úr þeirri vinnu sem í boði verður fyrir hvern og einn. En fyrst og fremst er gott að allir komist að sem vilja og mun Vinnuskólinn þar með nýtast sem forvörn fyrir sem flesta unglinga borgarinnar, sem munu læra garðyrkju og fleira nytsamlegt í gegnum heilbrigða vinnu.


mbl.is Allir fá vinnu í vinnuskólanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Jæja, Gestur

Það er tilbreyting að geta tekið undir með einhverjum hérna á blogginu, og verið jákvæður!

Það sem ég tel að hafi gerst í borginni við brottför þeirra Dags, Kjartans og Gísla Marteins úr sviðsljósinu, er að slagsmála-nálgunin í málefnavinnu og umræðum er horfin.

Að minnsta kosti minnist ég þess ekki að hafa heyrt eitt einasta viðtal við borgarstjóra þar sem hún er að rifja upp hvað þess eða hinn minnihlutafulltrúinn sagði í ræðu um tiltekið málefni í fyrra eða hitteðfyrra. Það er fánýt iðja, hygg ég, að reka öll mál sem koma á borð borgaryfirvalda, sem kappræðufund í Kastljósi eða ámóta.

Þessi "menning" ef menningu skyldi kalla, getur ekki haldið áfram; málefni almennings eru ekki þess eðlis að við getum verið að halda uppi fjölda fólks á launum við að hreyta ónotum hvert í annað, í þeirri trú að það sé að stunda eitthvað sem kallast stjórnmál.

Það gæti orðið breyting á þessu, í sveitarstjórnum og á Alþingi, þannig að fulltrúum fækki, og menn fari að líta til þess að málum borgaranna er alveg eins vel ráðið til lykta á nefndafundum fyrir luktum dyrum eins og í þeim hanaslag sem borgarstjórnarfundir geta stundum verið.

Flosi Kristjánsson, 10.3.2009 kl. 21:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband