Landbúnaðarstefna Samfylkingarinnar afnumin...

Forystumaður Samfylkingarinnar á Suðurlandi, Björgvin G Sigurðsson, sagði á fundi með bændum á Suðurlandi um daginn að það væri hans skoðun að það ætti ekki að ganga lengra í niðurfellingum á tollum en alþjóðasamningar gerðu ráð fyrir. Þessi skoðun hans er í samræmi við stefnu Framsóknar, Sjálfstæðisflokks, Frjálslyndra og Vinstri Grænna, en algerlega á skjön við þá stefnu sem Samfylkingin kynnti á blaðamannafundi í Reykjavík. Á þeim fundi var stefna Samfylkingarinnar að fella nú þegar niður vörugjöld af landbúnaðarvörum og helminga tolla af landbúnaðarvörum og afnema þau með öllu í samráði við hagsmunaaðila.

Á fundi með bændum í NV kjördæmi var fulltrúi Samfylkingarinnar svo Anna Kristín Gunnarsdóttir. Frásögn af hennar málflutningi má lesa á heimasíðu bændasamtakanna, þar sem lýsti því yfir að Samfylkingin hafi nú enga stefnu í landbúnaðarmálum.

"Tillögugerð Samfylkingarinnar í tollamálum var mistök
Anna Kristín Gunnarsdóttir þakkaði fyrir það tækifæri að fá að tala milliliðalaust við bændur. Hún sagði Samfylkinguna styðja beinan stuðning við landbúnaðinn en hann yrði að skila sér í góðri afkomu bænda og vera jafnframt hagfelldur neytendum. Önnu Kristínu var tíðrætt um að það þyrfti að búa landbúnaðinum betri skilyrði en nú væru fyrir hendi. Nefndi hún í því sambandi bættar samgöngur, lægri flutningskostnað og betri fjarskipti. Einnig þyrfti að vinna markvisst í að lækka kostnað við aðföng hjá bændum. Hún sagði að greiðslumarkskerfið gæti ekki staðist til framtíðar, nýliðun væri erfið og það væri ekki fögur framtíðarsýn að bændur yrðu leiguliðar á jörðum annarra.
Það vakti athygli síðar um kvöldið þegar Anna Kristín viðurkenndi að tillögugerð Samfylkingarinnar í tollamálum fyrir nokkrum mánuðum hefði verið mistök og gerð í flumbrugangi. Stefna flokksins væri að fylgjast að með öðrum þjóðum á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. "

Ja hérna.

Þetta bætist við að virkjanastefna flokksins er amk þrenns konar, Fagra Ísland vill algert virkjanastopp, ISG er með sína útgáfu þegar hún segir að ríkið megi ekki baka sér skaðabótaábyrgð og Kristján Möller með eina þegar hann lýsir því að það eigi að virkja fyrir Norðan, bara ekki alveg strax. Hann vill sem sagt ekki að það fari í mat.

Hvað er næst??????


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Hverju viltu þá svara þessum yfirlýsingum Björgvins og Önnu. Hvaða stefnu fylgja þau þá?

Gestur Guðjónsson, 1.5.2007 kl. 23:17

2 Smámynd: Dofri Hermannsson

Óttalegt bull er þetta Gestur minn. Það er eins og þú hafir orðið fyrir hastarlegum málefnaþurrki eftir að spillingarmál Jónínu komust í hámæli. Kannski skiljanlegt þar sem allt bendir til þess að þessi eiturstunga sé komin innan úr þínum eigin litla flokki. Leiðinlegt samt af því þú átt vanda til að vera mjög málefnalegur.

Hvað bændur varðar þá er stefnan alveg skýr hvað það varðar. Við viljum fella niður öll vörugjöld á matvæli, helming tolla strax og hinn helminginn í samráði við bændur. Í fyrstu var talað um að það mætti e.t.v. gera á einu ári en af viðbrögðum bænda er ljóst að svo er ekki. Það er meinalaust af okkar hálfu og mistök okkar ef einhver voru eru þau að hafa ekki talað við bændaforystuna áður og fundið orðalag sem þeir gátu betur fellt sig við. Því hvað sem þú segir þá var aldrei meiningin að gera þetta öðru vísi en í samráði við bændaforystuna. Það er einfaldlega ekki hægt og það veit allt skynsamt fólk.

Hitt sem veldur mér vonbrigðum í þínum nýja umræðustíl er hvernig þú jagast á Fagra Íslandi án þess að færa fyrir því nokkur rök. Þetta er ósköp einfalt mál og ef þú bara lest stuttu útgáfuna þá geturðu séð eftirfarandi: 

Umhverfismál eru á meðal brýnustu verkefna næstu ríkisstjórnar. Að mati Samfylkingarinnar er núna einstakt tækifæri til að ná víðtækri sátt um verndun verðmætra náttúrusvæða landsins, gera skýra áætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og taka upp græna atvinnustefnu. Samfylkingin vill:

  • Slá ákvörðunum um frekari stóriðjuframkvæmdir á frest þangað til fyrir liggur nauðsynleg heildarsýn yfir verðmæt náttúrusvæði Íslands og verndun þeirra hefur verið tryggð.
  • Tryggja friðun Skjálfandafljóts, Jökulánna í Skagafirði, Torfajökulssvæðisins, Kerlingarfjalla, Brennisteinsfjalla og Grændals.
  • Efla þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi til að afstýra hættulegum loftslagsbreytingum og kynna um leið íslenska tækni til að nýta hreina orku.
  • Úthluta mengunarkvótum til stóriðju eftir sanngjörnum leikreglum og gegn gjaldi, þannig ekki sé gengið á svig við alþjóðlegar skuldbindingar, og kanna hvort ráðlegt sé að taka upp úthlutun og markað hjá öðrum losunarfyrirtækjum.
  • Beita hagrænum hvötum og öðrum áhrifaríkum aðferðum til að minnka notkun mengandi eldsneytis í samgöngum og hvetja til orkusparnaðar í sjávarútvegi með það að markmiði að gera Ísland óháð mengandi orkugjöfum.

Það er því ekkert ósamræmi á milli orða Ingibjargar Sólrúnar, Fagra Íslands og Kristjáns Möllers sem hefur sagt að ef niðurstaða Rammaáætlunar um náttúruvernd verði sú að hægt sé að nýta orkulindir Þingeyjasýslu þá vilji hann gera það til að skapa atvinnu í héraðinu.

Ég held að ungir og efnilegir menn í Framsókn, eins og þú sjálfur ert tvímælalaust, ættuð að reyna að halda aftur af örvæntingunni og hugsa til framtíðar. Flokkurinn þarf á hvíld að halda og þið unga fólkið, framfaraöfl flokksins, þurfið á tíma að halda til að byggja aftur upp kröftugan óspilltan flokk.

Kv. Dofri.

Dofri Hermannsson, 1.5.2007 kl. 23:24

3 Smámynd: Gestur Guðjónsson

 

Dofri: Mér hugnast inntakið og meiningin í ykkar umhverfisstefnu vel, enda er hún nánast samhljóma umhverfisstefnu Framsóknar og að ég held nánast allra flokka ef þær eru skoðaðar af sanngirni, nema ef vera skyldi einkavæðing LV hjá íhaldinu og svo stoppið og ábyrgð í loftslagsmálum. Þið segið algert tímabundið stopp í Fagra Íslandi meðan að við segjum að við getum ekki stöðvað þær framkvæmdir sem þegar er búið að veita leyfi fyrir og komnar eru langt. Held að matsstaðir ykkar og okkar séu nokkurn vegin þeir sömu, sbr Íslandskortið okkar. ISG virðist hafa áttað sig á því að stopp gagnvart framkvæmdum sem eru komnar með leyfi og jafnvel komnar vel áleiðis í framkvæmd gæti bakað skaðabótaábyrgð og dró því í land hvað þá þætti varðar. Það er bæði skynsamlegt og ábyrgt af henni, en það skilur algera stoppið ykkar eftir hálf holt, amk sem sérstöðu. Er það ekki rétt? Kristján Möller var í miklum vandræðum, þar sem hann vill vera memm á Húsavík, og mat með hugsanlegar framkvæmdir eftir 5 ár er ekki nógu afgerandi fyrir hann, því það myndi setja þær framkvæmdir í uppnám. Því sagði hann í sjónvarpsþættinum að það ætti að fara í þetta, og muldraði svo "seinna". Þar með gefur hann sér að það eigi að fara í þetta, óháð því hvað matið segir. Ykkar mistök voru að undanskilja ekki þessa augljósu staði sem ég held að sé nokkuð góð sátt um að fara í, svo lengi sem aðrir staðir fái frið meðan mat fer fram.

Þess vegna og vegna þess sem þið hafið sagt í landbúnaðarmálunum, er erfitt að leggja fullan trúnað á þær yfirlýsingar sem þið gefið í ykkar stefnumótun, sem byggir að ykkar sögn á samræðustjórnmálum, en virðist samt að hluta til vera ákveðin af þingflokknum og auglýst fyrir landsþing ykkar. Ég ræð ykkur heilt að eiga ekki bara samræður við hvort annað eins og virðist hafa gerst þarna, heldur líka við atvinnulífið og aðra í samfélaginu. Það gerum við, með því að halda stór flokksþing, þar sem fjöldi manns kemur að undirbúningi stefnumótunar mánuðum áður, leitar upplýsinga hingað og þangað, snurfusar svo á þinginu sjálfu og á endanum verður til traust, hófstillt og öfgalaus Framsóknarstefna.

Í báðum þessum málum hefur Samfylkingin endað í stefnu Framsóknar, eftir góða skoðun, ef ISG fær að ráða í virkjanamálum og Björgvin og Anna í landbúnaðarmálum

Að þessu sögðu viðurkenni ég fúslega að mér finnst þessi framsetning að taka þetta saman í þessi rit flott. Veit að þú átt góðan þátt í því.

Gestur Guðjónsson, 1.5.2007 kl. 23:57

4 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Ég tel það heillavænlegra að fjalla um stefnuskrá stjórnmálaflokkanna í stað þess að vera að tína upp óheppileg orð og orðaskipti.  

Ester Sveinbjarnardóttir, 2.5.2007 kl. 01:24

5 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Það er ekki trúverðugt að skrifa stefnuskrár ef frambjóðendur fylgja henni ekki þegar þeir eru svo að kynna stefnumál viðkomandi flokks, heldur segja það sem þeir telji að falli í kramið hverju sinni. Ef frambjóðendur eru ekki sammála stefnu flokksins í einstaka málum, sem mér finnst allt í lagi, á fólk að taka það sérstaklega fram þegar þær eru kynntar.

Gestur Guðjónsson, 2.5.2007 kl. 01:30

6 Smámynd: Dofri Hermannsson

Taktu þig nú taki Gestur, vertu "áfram" málefnalegur eins og þú átt að þér og settu "stórastopp" á svona málflutning.

Dofri Hermannsson, 2.5.2007 kl. 08:59

7 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Mér finnst ég vera það, þú fyrirgefur, þótt það sé óþægilegt fyrir ykkur. Komdu endilega með gagnrök og ég skal lesa. Bíð reyndar eftir málefnalegum útskýringum og útreikningum á 400 milljörðunum sem Samfylkingin segir að kosningavíxill stjórnarflokkanna kosti.

Gestur Guðjónsson, 2.5.2007 kl. 09:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband