Peningum kastað út um gluggann í óðagoti

Það er gott að til standi að fara í þessar framkvæmdir, en ég vissi reyndar ekki til þess að lög um Samgönguáætlun gerðu ráð fyrir viðaukum og ég hefði áhuga á að vita hvaða framkvæmdum er ýtt aftar í forgangsröðina í leiðinni og á hvaða forsendum.

Þessi gjörningur er nefnilega enn ein staðfestingin á því öngstræti vegamálin eru í og hafa verið í. Forgangsröðun framkvæmda virðist algerlega háð duttlungum þingmanna og ráðherra, meðan málefnalegar forsendur mega éta það sem úti frýs.

Framkvæmdir geta að mínu mati komist inn í Samgönguáætlun á þrennum forsendum:

  • Arðsemi, reiknuð sem innri vextir að teknu tilliti til framkvæmdakostnaðar, viðhaldskostnaðar, aksturskostnaðar og slysakostnaðar,
  • umferðaröryggis, þar sem slysasvæði, svokallaðir svartir blettir eru skilgreindir og þeim útrýmt skipulega og
  • á samfélagsforsendum, þar sem verið er að sameina svæði í stærri atvinnusvæði, rjúfa einangrun byggðalaga og aðrar slíkar ástæður liggja til grundvallar.

Eðlilega ættu þau verkefni sem auka annað hvort umferðaröryggi mest, eru arðsömust eða bæta samfélagsmynstrið mest að hljóta mestan forgang við afgreiðslu Samgönguáætlunar. Hins vegar hefur aldrei verið gerð grein fyrir þessum þáttum í þeim Samgönguáætlun sem hingað til hafa verið samþykktar. Ákvörðunum um forgangsröðun er leyft að orsakast af duttlungum ráðherra og alþingismanna.

Vinnulagið hefur verið þannig að þess sé gætt að sem jafnast fjármagn renni til hvers kjördæmis og svo setjast þingmenn allra flokka hvers kjördæmis niður og útdeila spottum hér og spottum þar, brú hér og ekki þar. Fagleg forgangsröðun byggð á málefnalegum forsendum er að engu höfð og erum við skattgreiðendur hafðir að fíflum með þessum vinnubrögðum.

Í þessu sambandi eru allir flokkar sekir og við skattgreiðendur þurfum að horfa upp á að arðsömustu framkvæmdunum er frestað, hættulegustu blettirnir fá að drepa áfram og einangruðustu svæðin að vera áfram einangruð til að menn geti baðað sig í kastljósinu eins og þeir félagar gerðu á blaðamannafundinum í morgun.

Er einkaframkvæmd skynsamleg?

Þar sem ekki er gert ráð fyrir fjármagn í þessar framkvæmdir á samgönguáætlun verða báðar þessar framkvæmdir í einkaframkvæmd.  Hluti ríkisins verði greiddur með jöfnum árlegum greiðslum í 25 ár eftir að framkvæmdum lýkur. Ég veit ekki hvort það standist lög að skuldbinda ríkissjóð með þessum hætti, en ég er bara aumur verkfræðingur svo ég á líklegast bara að þegja.

En hvað kostar þetta óðagot okkur skattgreiðendur?

Ríkissjóður er skuldlaus og býðst mun betri vaxtakjör en nokkur af þeim lánastofnunum sem starfa hér á landi. Einnig hlýtur ávöxtunarkrafa sjóðseigenda að vera meiri en sem nemur þeim vaxtakjörum sem ríkissjóði bjóðast. Ef Suðurlandsvegurinn kostar 10 milljarða og Vaðlaheiðargöngin 6 milljarða, er víxillinn 16 milljarðar. Hvert prósent í lakari vaxtakjörum er því 160.000.000 krónur á ári í aukinn kostnað fyrir okkur skattgreiðendur. Munurinn á vaxtatryggingaálagi ríkissjóðs og bankanna hefur verið um 3% undanfarið, svo þetta slagar hátt í hálfan milljarð á ári. Það má bæta vegakerfið talsvert fyrir þá peninga.

Við skulum heldur ekki gleyma því að meirihluti kostnaðar við vegaframkvæmdir fer í gegnum opinber útboð til einkaaðila. Hönnun, framkvæmd og eftirlit. Þannig að það er bábilja að halda því fram að með einkaframkvæmd sé verið að nýta kosti og hagkvæmni einkaframtaksins umfram hefðbundið framkvæmdaform. Það eina sem er öðruvísi er fjármögnunin og þar hefur ríkissjóður yfirburði yfir einkaaðilana.

Í þessu sambandi er áhugavert að rifja upp þessi ummæli núverandi samgönguráðherra, sem hefur nú þurft að beygja sig gegn betri vitund fyrir ásælni fjármagnseigenda sem fá með þessu að koma miklum fjármunum í góða og þægilega vinnu á kostnað okkar skattgreiðenda.

Þetta var dýr blaðamannafundur. Það verð ég að segja, þótt framkvæmdirnar sem slíkar séu góðar.

Uppfært 13:12: Sé að það á bara að tvöfalda hluta af leiðinni austur og eyða alls 10-11 milljörðum, sem gerir 300 milljóna árlegan aukakostnað vegna einkaframkvæmdarinnar, ekki 500 milljarða. Nóg er það samt.


mbl.is Tvöföldun hefst 2009
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Gott fyrir okkur norðlendinga að sjá hvar hjarta framsóknarmanna slær...enda gerðist ekkert í þessum málum meðan sá flokkur var við völd í 12 ár

Jón Ingi Cæsarsson, 13.3.2008 kl. 12:46

2 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Jón. Ég er ekkert að gagnrýna verkefnin sem slíka, þeas Vaðlaheiðagöngin eða tvöföldun Suðurlandsvegarins, heldur vinnulagið sem hefur valdið því að þessar framkvæmdir, þá sérstaklega Vaðlaheiðargöngin, séu ekki fyrir löngu komin á koppinn. Ef arðsemin hefði fengið að njóta einhvers sannmælis væru Norðlendingar komnir með Vaðlaheiðargöng og Reykvíkingar með Sundabraut fyrir langa löngu. Þess í stað hefur byggðapot fengið öllu að ráða.

Gestur Guðjónsson, 13.3.2008 kl. 12:50

3 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Sé ekki annað en þessar framkvæmdir uppfylli öll þessi þrjú atriði sem þú nefnir. Hvort þetta er byggðapot? - Ekki get ég séð það. - Vegir virka jú í báðar áttir er það ekki? - Þessir vegir tengja saman byggðalög á stóru svæði og skapa mikið öryggi.

Haraldur Bjarnason, 13.3.2008 kl. 14:44

4 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Haraldur. Ég er þess fullviss um að þau geri það og sérstaklega Vaðlaheiðargöngin hefðu átt að vera komin mun fyrr og hefðu verið það, væru eðlilegar mælistikur, eins og þær sem ég nefndi, notaðar.

En vinnubrögðin við gerð samgönguáætlun gefa mér engar upplýsingar til að meta hvort svo sé.

Persónulega hefði ég viljað 2+1 veg strax alla leið á Selfoss í stað 2+2. Útreikningar Vegagerðarinnar sýna að sú lausn sé hagkvæmari og nánast jafn örugg. Menn hafa því miður dæmt út frá þessum "ekki" 2+1 vegi sem gerður var í Svínahrauninu. Eðlilegur 2+1 vegur er 1-2 m breiðari en Svínahraunsvegurinn.

Gestur Guðjónsson, 13.3.2008 kl. 14:51

5 identicon

Óskiljanlegt Gestur að lífsgildin vantar í þennan útreikning. Er þessir útreikningar eftir þig eða er þetta byggt á "faglegum" grunni.

Ég held að Birkir Jón Jónsson hafi flaggað í dag. Vinkill þinn er of "Framsóknarlegur".

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 13.3.2008 kl. 18:24

6 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Já Gísli, ég býst við að Birkir Jón hafi flaggað í dag, eins og margir aðrir. Enda ástæða til. Ég átta mig ekki alveg á því hvað þú átt við með lífsgildin, en ég tel allar þrjár ástæður þess að fara í samgöngubætur gildar, menn verða bara að þora að kalla hlutina réttum nöfnum. Sumar vegabætur eru hrein byggðamál og farið í þær af þeim ástæðum, önnur öryggismál, meðan aðrar eru hrein hagkvæmnismál, þótt yfirleitt séu þær sambland af þessu öllu.

Ég tel minn vinkil raunsæjan, sanngjarnan og eðlilegan. Já, framsóknarlegan, en ég er ekki dómari í eigin sök.

Mínir útreikningar byggjast ekki á öðru en því sem fram hefur komið, t.d. á ráðstefnu um einkaframkvæmd í vegamálum sem Sjóvá stóð að ásamt öðrum, en tryggingafélögin hafa digra sjóði (varasjóði) sem þau vilja endilega koma í þægilega vinnu fyrir sig á okkar kostnað. Skuldatryggingarálag ríkissjóðs hefur verið frá 0,6% upp í 2% meðan bankarnir hafa verið með skuldatryggingarálag upp í rúm 7%.

Við getum líka miðað við mismun á ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa og almennra bréfa. Það er kannski réttara. Hana er t.d. hægt að nálgast hjá Seðlabankanum, sem lýsir honum á síðu 14. Hann hefur verið 3-4%. Varla fara fjármagnseigendur að krefjast lægri vaxta en þeirra sem þeir geta fengið á þann örugga hátt, þannig að meðan ríkið er ekki að skaða lánstraust sitt með beinni skuldsetningu er engin ástæða til að fjármagna slíkar framkvæmdir með óbeinni dýrari skuldsetningu.

Gestur Guðjónsson, 13.3.2008 kl. 19:43

7 Smámynd: Sævar Helgason

Þú er greinilega á heimavelli við þessa úttekt þína og framsetningu, verkfræðilega.

En ef alltaf ætti að láta hina hreinu og kláru arðsemi framkvæmdanna sitja í fyrirrúmi hér í þessu landi okkar-yrði þá ekki svona um 95 % af samgöngufénu varið á svæðinu frá Borgarnesi í norðri og að Selfossi í suðri ?

En við viljum halda landinu í byggð og því höfum við þetta svona eins og verið hefur í áratugi--ég sem bý á SV horninu er mjög sáttur við þennan hátt.  Þetta er jafnaðarmennska. 

Sævar Helgason, 13.3.2008 kl. 21:07

8 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Sævar. Ég er ekki að tala um að arðsemin eigi að ráða í öllum tilfellum. Ég þarf greinilega að vanda mig betur við skrifin svo ég misskiljist ekki svona. Ég var að reyna að koma því frá mér að það þurfi að vera á hreinu á hvaða forsendu menn eru að fara í hvaða framkvæmd, arðsemis, öryggis eða byggðasjónarmiða.

Ef menn eru að fara í aðgerðir til að bæta öryggið, þarf hin reiknilega arðsemi ekki endilega að vera mikil, né byggðaáhrifin. Tilraunir til að reikna verðmæti mannslífa, þjáninga og örorku getur ekki annað en byggst á veikum grunni, þótt auðvitað þurfi í einhverjum tilfellum að setja tölur þar inn. Mikið betra er að telja fjölda slysa og hugsanlega að flokka þau eftir alvarleika, þegar menn fara í framkvæmdir út frá öryggissjónarmiðum.

Sama á við um byggðaverkefni, eins og t.d. Héðinsfjarðargöngin. Ég trúi því seint að hægt sé að reikna arðsemi í þá framkvæmd, enda er um byggðaaðgerð að ræða. Það sem ég er að kalla eftir er að hlutirnir eiga að heita sínu rétta nafni þegar menn forgangsraða framkvæmdum.

Gestur Guðjónsson, 13.3.2008 kl. 22:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband