Stöð 2 ginnt og göbbuð

Ég er algerlega orðlaus yfir því hvernig fréttastofa Stöðvar 2 lætur draga sig gagnrýnislaust og þekkingarsnautt á asnaeyrunum í umfjöllun sinni um greiðslur Landsvirkjunnar til Skeiða- og Gnúpverjahrepps í tengslum við skipulagsvinnu virkjana innan sveitarfélagsins.

Fréttamenn með minnsta snefil af þekkingu eiga að vita að þegar sótt er um leyfi hjá hinu opinbera er meginreglan að greitt sé fyrir þann kostnað sem umfjöllun um þau leyfi krefst. Oftast er gefin út gjaldskrá þar sem reynt er að finna meðalverð, sem tekur mið af umfangi starfseminnar sem mælikvarða um þann kostnað sem leggja þarf í við úrvinnslu umsóknarinnar. 

Sem dæmi má nefna mengandi starfsemi þar sem heilbrigðisnefndum eða Umhverfisstofnun er greitt starfsleyfisgjald fyrir að gefa út starfsleyfi, húsbyggingar og aðrar framkvæmdir, þar sem byggingarfulltrúa er greitt byggingarleyfisgjald fyrir að gefa út framkvæmdaleyfi, skemmtanahald, þar sem sýslumanni er greitt skemmtanagjald fyrir að gefa út skemmtanaleyfi, vínveitingaleyfi og hvað þau heita öll.

Þegar málin eru sérstök og falla ekki innan ramma gjaldskráa er eðlilegt að áfallinn kostnaður sé greiddur samkvæmt reikningi.

Það á við um umfjöllun Skeiða- og Gnúpverjahrepps um skipulag virkjanna í sveitarfélaginu. Nefndarmenn fá greitt fyrir sína fundarsetu og sveitarfélagið innheimtir áfallinn kostnað, þ.á.m launakostnað, ferðakostnað og sérfræðikostnað.

Að Stöð 2, Álfheiður Ingadóttir og Árni Finnsson skuli láta fyrrverandi sveitarstjóra, sem látinn var fara frá sveitarfélaginu, ginna sig og gabba með þessum hætti til að dylgja heiðvirða sveitarstjórnarmenn um mútuþægni er öllum þessum aðilum til skammar og ber þeim að biðja viðkomandi afsökunar á orðum sínum.

Uppfært 00:40:

Eins og sést í athugasemdum við þessa færslu, var það ekki sveitarstjórinn fyrrverandi sem hafði frumkvæði að þessari frétt stöðvar 2, heldur fór Alþingismaðurinn og lögmaðurinn Atli Gíslason, þingmaður Suðurkjördæmis, með þessa frámunalegu vitleysu í loftið í athugasemd á bloggsíðu sveitarstjórans fyrrverandi, en sveitarstjórinn staðfestir vitleysuna reyndar ranglega í svari til Atla.

Svona málflutning eiga þingmenn VG og stöð 2 að svara fyrir, þetta er tilraun til mannorðsmorðs.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson

Sammála þessu Gestur. Það má svosem líka benda á að fv. sveitarstjóri gerði reikninginn til Landsvirkjunar og hann rukkaði þar inn fyrir 6 aðila, þ.e. sveitarstjórn og sveitarstjóra.

Jónas Yngvi Ásgrímsson, 2.9.2009 kl. 23:59

2 Smámynd: Sigurður Jónsson

Gestur.

Stöð 2 hafði samband við mig og spurði hvort sveitarstjórnarmenn hefðu fengið greiðslur vegna óbókaðra funda frá Landsvirkjun. Ég svaraði játandi,sem er satt og rétt. Fyrirspurn Stövar 2 er i framhaldi af athugasemd á bloggsíðu minni frá Atla Gíslasyni,þingmanni.

Ég fann ekki uppá að búa reikning og senda Landsvirkjun,heldur gerði það sem fyrir mig var lagt.

Eingöngu kjörnir sveitarstjórnarmenn fengu greitt fyrir þessa óbókuðu fundi.

Sigurður Jónsson, 3.9.2009 kl. 00:23

3 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Bið þig þegar afsökunar, Sigurður, á að hafa þig fyrir þeirri röngu sök að hafa frumkvæði að þessari vitleysu.

En þetta gerir málið enn verra fyrir stöð 2 sem veður svo beint í Álfheiði Ingadóttur, samflokksmann Atla Gíslasonar, þingmanns Suðurkjördæmis, og innir hana álits.

Gestur Guðjónsson, 3.9.2009 kl. 00:26

4 Smámynd: Helgi Bjarnason

Ég vileyfa mér sem sá starfsamður Landsvirkjunar  sem haft hefur samskipti við m.a. sveitastjórnir að mótmæla fullyrðingum Sigurðar hér að ofan sem algjörlega röngum.

Hann og sveitastjórnarmenn hafa engar greiðslur fengið frá Landsvirkjun. Sveitarfélagið hefur, eins og önnur sveitarfélög sem Landsvirkjun hefur haft samskipti við á undanförnum áratugum fengið greiddan kostnað þeirra, sem sérstaklega hefur orðið vegna vinnu sveitastjórna við m.a. skipulagsgerð og útgáfu framkvæmdaleyfa við fyrirhugaðar virkjanir. Þessi kostnaður hefur  ávallt verið metinn þannig að hér sé um að ræða kostnað sveitarfélagsins umfram eðlilega fundasetur eða sérstaka vinnu.

Sveitarfélagið sendi reikning til Landsvirkjunar í nóvember 2008 vegna vinnu sveitastjórnar fyrir árin 2006-2008. Samtals var um að ræða 10 vinnufundi sem boðað var til eða óskað eftir af hálfu Landsvirkjunar. Sigurður gefur í skyn hér að þessir fundir hafi ekki verið bókaðir. Það kannast ég ekk við. Við höfum enga hugmynd um það hvernig launagreiðslur hafa farið fram fyrir þessa fundi en gífurleg vinna var unnin af hálfu sveitastjórnarmanna við að svara athugasemdum við aðalskipulagsbreytinguna.

Hér var því um að ræða útselda vinnu. Upphæðin gæti numið 4000 kr/klst til sveitatsjórnarmannanna og er það eðlileg viðmiðun fyrir verkamanna og ið-naðarmannataxta.

Til fróðleiks greiðir Landsvirkjun lögmönnum 12-18.000 kr/klst samkvæmt gjaldskrá þeirra félags. Alfheiður Ingadóttir og Atli Gíslason ættu að kannast við þann taxta.

Helgi Bjarnason, 3.9.2009 kl. 01:12

5 Smámynd: Landfari

Af hverju eru þessir fundir ekki bókaðir?

Sveitarfélag hlýtur að eiga erfitt með að gera grein fyrir greiðslum fyrir fundarsetu sé fundirinn hvergi bókaður.

Gildir þar einu hvort þriðja aðila hafi verið sendur reikningurinn. Féið fer í gegnum sveitarfélagið samkvæmt því sem fram hefur komið.

Landfari, 3.9.2009 kl. 14:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband