Ábyrgð í ástandi sem Geir ber ekki ábyrgð á

Geir H Haarde ber vissulega ekki ábyrgð á hruni bankanna. Þeir voru einkafyrirtæki sem áttu að kunna fótum sínum forráð. Hluthafar og lánadrottnar bankanna geta ekki kennt honum um það.

En Geir H Haarde ber ásamt ríkisstjórn sinni ábyrgð á viðbrögðum og viðbragðsleysi við þeim viðvörunarljósum sem fóru að lýsa fyrir uþb 15 mánuðum.

Geir H Haarde ber ásamt ríkisstjórn sinni ábyrgð á þenslufjárlögum þegar lausafjárkreppan var byrjuð.

Geir H Haarde ber ásamt ríkisstjórn sinni ábyrgð á því að hafa ekki nýtt lántökuheimild Alþingis strax í vor

Geir H Haarde ber ábyrgð á því að hafa ekki hafa ekki haft samráð við aðila vinnumarkaðarins, þrátt fyrir fögur fyrirheit þar um.

Geir H Haarde ber ásamt ríkisstjórn sinni ábyrgð á viðbrögðum við hjálparbeiðni Glitnis.

Geir H Haarde ber ásamt ríkisstjórn sinni ábyrgð á því að hafa ekki útkljáð sín mál við breta án þess að bretar teldu rétt að beita okkur með óréttmætum hætti hryðjuverkalögum.

Geir H Haarde ber ásamt ríkisstjórn sinni ábyrgð á pólitískt skipuðum bankaráðum.

Geir H Haarde ber ásamt ríkisstjórn sinni ábyrgð á þeim gjaldeyrishömlum sem við búum nú við.

Geir H Haarde ber ásamt ríkisstjórn sinni ábyrgð á því að uppbygging við Bakka er nú í uppnámi.

Geir H Haarde ber ásamt ríkisstjórn sinni allri ábyrgð á því að enn sitja Seðlabankastjórar og Fjármálaeftirlitsyfirmenn sem eru algerlega rúnir trausti

Það er margt fleira sem Geir H Haarde ber ábyrgð á, því getur hann ekki hlaupist frá.


mbl.is Geir: Tel mig ekki persónulega ábyrgan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrennt sem bankaráðin þurfa að hafa í huga

  1. Gagnsæi
  2. Gagnsæi
  3. Gagnsæi

Annað er afleiðing þess; Sanngirni, eðlilegir viðskiptahættir, enduruppbygging trausts og svo framvegis.


mbl.is Stórviðskipti borin undir bankaráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrítin forgangsröðun ríkisstjórnarinnar

Ég skil hvorki upp né niður í forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í tegnslum við hrunið.

Fyrst eru kynntar aðgerðir sem ættu að komast síðastar, það er rýmkun á gjaldþrotareglum, lækkun dráttarvaxta og innheimtukostnaðar, atvinnuleysisaðgerðir. Það er ráðstafanir fyrir fólk sem komið er í þrot eða er búið að missa vinnuna

Því næst eru kynntar aðgerðir til að hjálpa fólki til að halda húsnæðinu.

En síðast eru kynntar aðgerðir sem eiga að tryggja að fólk missi ekki vinnuna.

Hefði ekki verið betra að byrja á því að kynna tillögur til að hjálpa fyrirtækjum landsins, með það að markmiði að fækka uppsögnum, þannig hefði ekki þurft eins miklar aðgerðir til að hjálpa fólki að halda eignum sínum og fækka þeim sem lenda í greiðsluerfiðleikum og gjaldþrotum.

Það er eins og kratisminn sé algerlega búinn að ná völdum:

Tryggjum að allir hafi það jafn skítt.

Það er þörf fyrir Framsókn við stjórn landsins.


mbl.is Aðgerðir kynntar eftir helgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hömlur hamla

Það er allrar athygli vert að Seðlabankanum sé veitt þessi völd, í ljósi þess að Samfylkingin hefur lýst vantrausti á þá sem þar stjórna.

Eða er það vantraust hjómið eitt, ætlað til að slá ryki í landsmenn?

Ég ætla rétt að vona, fyrst menn hafa þessa heimild, að þeir fari ekki að beita henni nema í ítrustu neyð og það verði gefið út fyrirfram að menn ætli að gera það þannig, því svona höft tefja bara þá nauðsynlegu aðlögun sem gjaldeyrismarkaðurinn þarf að fara í gegnum og því fyrr sem það gerist, því fyrr kemst á eðlilegur gjaldeyrismarkaður með eins eðlilegu gengi krónunnar og hægt er.


mbl.is Lög um gjaldeyrismál samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heftum höftin

Moldarkofalausnir heimastjórnarmanna eru eitthvað sem við megum alls ekki leiða yfir þessa þjóð.

„Miðstjórn Framsóknar varar sterklega við því að brugðist verði við núverandi efnahagskreppu með höftum, hækkun skatta eða öðrum þeim aðgerðum sem hindra kunna viðskipti eða fjármagnsflutninga milli landa."

Það er þörf á Framsókn við stjórn landsins.


mbl.is Geta stöðvað gjaldeyrisflutninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Samkeppnisstofnun föst með hausinn í eigin koppi?

Samkeppnisstofnun vill leggja flutningsjöfnun olíuvara niður.

Röksemd þeirra er sú að þeir vantreysta eigin starfsmönnum til að reikna út kostnaðarverð flutninga, og því sé hætt við að þau olíufyrirtæki sem þjónusta landsbyggðina fái of mikið úr sjóðnum, sem þau geta notað til að niðurgreiða eldsneyti á staðbundnum samkeppnismörkuðum.

Samkeppnisstofnun eyðir ekki einu einasta aukateknu orði í að ræða tilgang flutningssjóðs olíuvara.

Það sem Samkeppnisstofnun er að leggja til er að eldsneytisverð á Þórshöfn verði 3,3 krónum dýrara en í Reykjavík, eldsneytisverð á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp hækki um 5,1 krónu, Norðurfirði á Ströndum 4,3 krónur, Ísafirði um 1,1 krónur, Egilsstöðum um 1,6 krónur, Höfn 1,3 krónur, Djúpavogi um 2,5 krónur og svo framvegis.

Þessi stofnun hlýtur og verður að hafa í huga að flutningsjöfnunarsjóður er ekki búinn til í tómarúmi og hlýtur stofnunin að hafa það í huga þegar hún leggur svona lagað til. Annað væri óvönduð stjórnsýsla.

Samkeppnisstofnun hlýtur því að hafa haft samráð við byggðamálaráðherra við undirbúning þessara tillagna, enda er flutningsjöfnun olíuvara hluti af byggðastefnu ríkisstjórnarinnar og ef ríkisstjórnin ætlar að hætta þessum byggðatengdu kostnaðarjöfnun er hún farin að sýna andlit gagnvart landsbyggðinni sem maður var að vona að hún hefði ekki.

Ef Samkeppnisstofnun hefur ekki haft samráð við byggðastofnun eða haft byggðasjónarmið í huga við vinnslu þessara tillagna er hún föst með hausinn í eigin koppi og ástundar óvönduð vinnubrögð.

Ríkisstjórnin verður að svara því hvort hún hafi gert þessa breytingu á byggðastefnu sinni.


mbl.is Brugðist við efnahagsörðugleikum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímasetningar eru gull - eða bull?

Nú er sagt

"Það gengur ekki að kjósa í miðjum björgunaraðgerðum"

Rannsóknarnefndin á að skila af sér í nóvember 2009.

"Bíðum eftir niðurstöðum hennar"

Þegar hún skilar af sér verður allt vitlaust og mikið talað um kosningar.

"Það gengur ekki að kjósa um miðjan vetur, við þurfum líka að klára fjárlög"

Um vorið 2010 komast menn svo að því að það eru sveitastjórnarkosningar það vorið.

"Það má ekki trufla sveitastjórnarkosningar"

Þegar líður að hausti 2010 er orðið svo stutt í vor 2011 að stóra plan Geirs gengur upp.

Kosningar að loknu fullsetnu kjörtímabili.


mbl.is Rannsóknarfrumvarpi dreift
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pappírsframleiðsla

Það verður áhugavert að sjá hvaða aðferðir verða notaðar við að reyna að koma í veg fyrir þetta góða verkefni.

Pappírsframleiðsla á Íslandi og á þessum stað virðist við fyrstu sýn vera mjög heppileg.

Helstu umhverfisáhrif pappírsframleiðslu geta verið:

  • Orkunotkun - ekki vandamál í þessu tilfelli
  • Vatnsnotkun - ekki vandamál í þessu tilfelli að því gefnu að hreinsun notaðs vatns sé í lagi.
  • Felling skóga - ef endurnýttur pappír, innlend grisjun er nýtt sem og sjálfbær skógur er það ekki vandamál
  • Efnanotkun - þar sem um nýja verksmiðju er að ræða er hægt að gera ítrustu kröfur um meðhöndlun efna, en ýmis hættuleg efni eru notuð við pappírsframleiðslu.
  • Fastur úrgangur - líklegast helstu umhverfisáhrif þessarar verksmiðju - en þar sem ekki er um prentpappír að ræða ættu þau áhrif ekki að vera eins mikil og hjá öðrum pappírsverksmiðjum. Heppilegt að verið sé að vinna svæðisáætlun um úrgang sem gæti þar með tekið tillit til þessarar verksmiðju.
  • Útblástur, koltvísýringur, brennisteinsvetni og brennisteinsoxíð og fleira. Spurning hvort ekki sé hægt að samnýta þau hreinsivirki sem verður að setja upp í Hellisheiðarvirkjun.

 


mbl.is Pappírsverksmiðja á Hellisheiði?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spillingarvá fyrir dyrum

Nú þegar búið er að skipa pólitísk bankaráð nýju ríkisbankanna, þeirra fyrirtækja sem munu taka ákvarðanir um örlög fjölda fyrirtækja og einstaklinga á næstu misserum verður að gæta sín verulega á því að vinnubrögð spillingar nái ekki að skjóta rótum. Framsókn var ekki saklaus í þeim efnum í tíð gömlu ríkisbankanna, en flokkurinn hefur sem betur fer lært af þeirri vitleysu og vill ekki aftur í moldarkofana í þeim efnum:

„Miðstjórn Framsóknarflokksins krefst þess að settar verði skýrar og gegnsæjar reglur um hvernig farið verður með afskriftir skulda og skuldbreytingar viðskiptavina nýju ríkisbankanna og varar sterklega við þeirri hættu sem hefur skapast að eignum ríkisbankanna kunni að verða ráðstafað á grundvelli pólitískra tengsla en ekki á viðskiptalegum forsendum."

Það er þörf á Framsókn við stjórn landsins.


mbl.is Notuðu peningamarkaðssjóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að þekkja starfslýsingu sína

Forseti lýðveldisins Íslands starfar samkvæmt starfslýsingu, sem ekki er löng. Mérsýnist hún vera í um 30 liðum.

Hún er annars vegar í Stjórnarskrá Íslands og hins vegar í lögum um Stjórnarráð Íslands.

Forsetinn hefur svarið eiðstaf að öðrum hluta þessarar starfslýsingar, Stjórnarskrárinnar.

Í henni stendur skýrum stöfum í 9. grein að laun forseta megi ekki lækka.

Samt leggur forsetinn það til að laun hans verði lækkuð.

Er eitthvað fleira í starfslýsingu forsetans sem hann er óklár á?

Ef honum finnst hún eitthvað óljós ber honum skylda til að láta leiðrétta það.


mbl.is Engin niðurstaða hjá Kjararáði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband