Sjálftaka á opinberu fé

Landsvirkjun hefur ekki greitt arð í ríkissjóð frá upphafi að því að ég best veit. Samt er hún að veita styrki í hitt og þetta. Allt saman opinbert fé í rauninni. Er eðlilegt að ríkisfyrirtæki sé að styrkja svona hluti, er ekki eðlilegra að þeir aðilar sem til þess eru bærir og hafa einir umboð til að útdeila almannafé, Alþingismenn, sjái um það? Veitu- og orkufyrirtækin greiði sína afkomu til eigenda sinna og eigendurnir sjái um að ráðstafa fénu?
mbl.is Landeigendur og rétthafar fengu 2,3 milljarða á 5 ára tímabili
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímabær aðgerð

Ég tel að flutningur málefna aldraðra sé mikið heillaspor, sem ég veit ekki betur en að sé nokkuð þverpólitísk sátt um. Af hverju var þá ekki löngu búið að þessu, geta einhverjir spurt, en svarið við því er einfalt. Tekjunefnd ríkis og sveitarfélaga hefur ekki lokið störfum og auðvitað þarf fjármagn að fylgja svona verkefnum. Fyrr er ekki hægt að ljúka þessum málum. Nú hyllir undir lok þess starfs og þá fyrst er hægt að fara að huga að þessum málum með framkvæmd fyrir augum.

Þetta þarf að vanda vel og undirbúa svo eins vel takist til um þetta mál og flutning grunnskólans til sveitarfélaganna.


mbl.is Nefnd skoðar mögulega tilfærslu í málefnum aldraðra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður Írak rætt á landsfundi Sjálfstæðisflokksins?

Jón Sigurðsson, núverandi formaður Framsóknarflokksins og Halldór Ásgrímsson fyrrverandi formaður, hafa báðir sagt að stuðningur Íslands við innrásina í Írak hafi byggt á röngum forsendum og því verið rangar. Sá trúnaðarbrestur sem varð milli Íslands og Bandaríkjanna í aðdraganda innrásarinnar, hefur að beggja mati gert það að verkum að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að spyrja sig spurninga varðandi innrásina í Írak og sambandið við Bandaríkjamenn. Ég er ekki að sjá það í ályktanadrögum þeirra fyrir landsþing þeirra.

Það væri pólitískur heigulsháttur að ræða það mál ekki og gera það upp og skora ég á Sjálfstæðismenn að gera það opinskátt og hreinskilnislega, svo hægt sé að leggja það að baki sér og læra af því.


Íhaldið er þarna undir niðri

Í ályktunardrögum fyrir landsfund Sjálfstæðisflokksins er ekki margt markvert að finna annað en lof um eigin menn, en þar er þó eftirfarandi að finna:

"Tímabært er að losa um eignarhald hins opinbera á orkufyrirtækjunum og leysa úr læðingi krafta einkaframtaksins, svo þessi fyrirtæki fái að fullu notið sín í útrás íslenskrar sérþekkingar. Landsfundur leggur til að stefnt verði að því að færa eignarhald opinberra aðila að orkufyrirtækjunum yfir til einkaaðila, þó þannig að gætt sé vandlega að samkeppnis- og jafnræðissjónarmiðum."

Sjálfstæðisflokkurinn ætlar sem sagt að selja Landsvirkjun, sem í krafti stöðu sinnar sem sameign þjóðarinnar hefur fengið að beita eignarnámi og haft aðgengi að auðlindum þjóðarinnar langt, langt umfram það sem nokkurt einkafyrirtæki hefði nokkurntíma fengið. Þetta er reyndar í samhljóm með annarri ályktun þeirra.

"Landsfundur telur að skynsamleg og hagkvæm nýting náttúruauðlinda Íslands verði best tryggð með því að nýtingar- og afnotarétturinn sé í höndum einstaklinga."

Þetta skýrir afstöðu þeirra í þjóðlendumálinu. Þeir ætla sem sagt að hafa sem mest land undir ríkið og koma í hendur Landsvirkjun áður en hún verður seld. Gamla íhaldið er þarna undir fínu klæðunum, það er alveg greinilegt...


mbl.is Geir: Eðlilegt að ríkið tryggi öllum lágmarkslífeyri úr lífeyrissjóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðaleysið í efnahagsmálum algert

 

Var að skoða drög að ályktunum Samfylkingarinnar um efnahagsmál. Þar er ekkert fjallað um það aðhald í ríkisrekstrinum sem ritið kallar eftir. Þannig að ekki er Samfylkingin að fara eftir eigin greiningu á ástandinu.

Liðir 1 til 5 eru samhljóða. Bæta hagstjórnina. Ekkert sagt hvernig. Bara að það eigi að gerast og í samráði við 6-8 eru teknir frá ályktunum Framsóknar. Liðir 9 og 10 fjalla ekki um efnahagsmál, heldur neytendamál sem Framsókn gerir hærra undir höfði en svona. Liðir 11-13 eru samhljóða Framsókn, en eru samt þensluhvetjandi. Ég veit ekki hvernig hægt er að réttlæta lið 14, að allar lífeyrissjóðsgreiðslur beri fjármagnstekjuskatt sem rennur í dag til ríkisins eingöngu. Liður 15 gengur of skammt og gerir samkeppni á bankamarkaði ekki eins mikla og ef farið er að tillögum Framsóknar. Liður 16. Þarna eru krötunum vel lýst, rústa íslenskum landbúnaði á grundvelli rangfærslna í skýrslu Jóns, þar sem hann telur bara til framleiðslutengda styrki í viðmiðunarlöndum en ekki aðra styrki til landbúnaðinum þar.

Liður 17 er ótrúlega vitlaus. Á sem sagt að heimila fyrirtækjum að ákveða í hvað skattarnir okkar fara, með því að veita þeim þennan afslátt? Þau hafa ekki mitt umboð til þess, það er Alþingis að ákveða hvernig farið er með skattfé. Skattaafsláttur er ekkert annað en úthlutun á skattfé.

18 til 20 eru afritun frá ályktunum Framsóknar, en Samfylkingin má skammast sín fyrir að hafa staðið í vegi fyrir að atriði 20 hefði komist til framkvæmda í vor.

Sem sagt: Samfylkingin ætlar að bæta hagstjórnina. Einhvernvegin.


mbl.is Samfylkingin vill stórátak í samgöngumálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonbrigði

Varð fyrir miklum vonbrigðum með þetta plagg. Sjá hér
mbl.is Gagnrýnir hringlanda og ósamstillta hagstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jafnvægi og framfarir - ábyrg efnahagsstefna - mikil vonbrigði

Ég vistaði nýjasta riti Jóns Sigurðssonar, fv. Ráðherra, með mikilli eftirvæntingu á tölvuna mína áðan og las með áfergju.

Ég varð því miður fyrir miklum vonbrigðum með þetta rit, sem Jón stendur einn nafngreindur að. Vonaðist eftir því að þarna færi vel grunduð röksemdafærsla fyrir því hvernig Samfylkingin ætlaði að stýra efnahagsmálum þjóðarinnar, kæmist hún til valda. Þannig fannst mér titill hennar vera og þannig var hún kynnt í fjölmiðlum.

Það sem vísar fram á við er að á komandi árum geti allt farið í kalda kol ef ekki verði dregið úr ríkisútgjöldum, þ.e.a.s. velferðinni. Þeirra eina svar er að gefast upp og ganga í Evrópusambandið og vona það besta. Að öðru leiti var þetta svartmálning á ástandinu, samanburður á breytum milli hagkerfa sem eru í sitt hvorum takti, órökstuddar fullyrðingar víða, margendurtekinn samanburður á appelsínum og eplum, en annars endurtekning á stefnumálum Samfylkingarinnar, sem reyndar hafa ekki verið samþykkt af landsfundi hreyfingarinnar. Að ógleymdum tillögum um að leggja landbúnaðinn í rúst.

Mig býður í grun að þetta rit sé sett fram til þess í fyrsta lagi að reyna að mála efnahagsástandið eins svörtum litum og hægt er, sem veldur reyndar miklu efnahagstjóni í sjálfu sér, en ekki síður að búa fyrirfram til afsökun fyrir því að Samfylkingin nái ekki tökum á efnahagsstjórninni, komist hún til valda.

Nokkur atriði stinga sérstaklega:

Í ritinu er margendurtekið að aðhald ríkisfjármála hafi ekki verið nægt. Þau hafi aukist mjög á undanförnum árum. Mikill meirihluti útgjalda ríkissjóðs eru laun. Ríkisstjórnin gerði stórátak í því að hækka laun umönnunarstétta og kennara. Er það sem sagt skoðun Samfylkingarinnar að það hefði ekki átt að gera? Hefði átt að skera niður í heilbrigðisgeiranum eða almannatryggingum, sem tekur stærstan hluta útgjalda ríksins. Hefði átt að spara í menntamálum? Engar slíkar tillögur hafa komið fram af hálfu Samfylkingairnnar og hefur málflutningur þeirra nánast undantekningarlaust verið í átt til útgjaldaaukningar. Þetta er ekki traustvekjandi og krefst skýringa.

Fullyrt er að hreinar skuldir þjóðarbúsins hafi snaraukist. Ég fann engar tilvísanir og engar tölur þessari fullyrðingu til stuðnings. Hvernig metur Jón eignir Íslendinga í útlöndum?

Svo er leitt líkum að því að upptaka Evru sé það eina sem hægt sé að gera til að ná stjórn á efnahagsvandanum. Sú röksemdafærsla gengur ekki þar sem við verðum að vera búin að ná stjórn á honum ÁÐUR en innganga í EU kemur til greina. Bent er á að stýrivaxtatólið sé veikt, en ekki er bent á neitt betra. Bindiskylda bankanna, hitt tól Seðlabankans, er ekki rædd í skýrslunni eins og hún sé ekki til. Þannig að Samfylkingin vill líklegast, eins og Davíð Oddsson taka upp atvinnuleysi sem hagstjórnartæki, líkt og m.a. draumalöndin á Norðurlöndunum gera.

Hátt gengi krónunnar er ekki orsök hagstjórnarvanda heldur afleiðing þess ástands sem hér hefur ríkt undanfarin misseri. Gríðarlegar fjárfestingar síðustu ára og innkoma viðskiptabankanna á íbúðalánamarkað hafa leitt af sér mikið álag á hagkerfið sem Seðlabankinn hefur aftur reynt að milda með hækkun stýrivaxta. Þær hækkanir hafa ekki haft tilætluð áhrif, ekki síst vegna þess að fjárfestingar innanlands eru í auknum mæli fjármagnaðar með erlendu lánsfé og falla því utan áhrifasvæðis Seðlabankans. Rétt er að halda því til haga að bankarnir sögðust alls ekki ætla inn á íbúðalánamarkaðinn í aðdraganda breytinganna. Aðgengi íslensks almennings að lánsfjármagni er nú eðlileg miðað við nágrannaþjóðirnar og munu þensluhvetjandi áhrif af þeirri aðlögun fara að deyja út.

Staða ríkisfjármála er máluð svört, þótt nú sé ríkissjóður nánast skuldlaus. Halli á fjárlögum 2008 er sérstaklega nefndur, þrátt fyrir að öllum sé kunnugt um að það hafi verið fyrirfram ákveðið fyrir löngu og skipulagt til að tryggja mjúka lendingu efnahagslífsins við lok stórframkvæmdanna fyrir austan. Fara á í þau verkefni sem frestað var vegna þeirra. Verkefni sem ég trúi ekki að Samfylkingin sé mótfallin.

Eftir það er gert ráð fyrir áframhaldandi afgangi, sem þó er í rauninni óþarfur, þar sem búið er að greiða niður skuldir ríkisins.

Samstilling efnahagsaðgerða er gagnrýnd og þá sérstaklega að tímabundin lækkun lánshlutfalls íbúðalána frá íbúðalánasjóði hefði verið felld niður. Það hefði verið gaman að sjá hvaða gagnrýni hefði komið, hefðu lánshlutfallið ekki verið hækkað á ný.

Í kafla 2.2 stendur "Þegar litið er yfir framvinduna á síðustu 10-15 árum sést að hið opinbera hefur tekið til sín hærra hlutfall af vaxandi landsframleiðslu án þess að samfélagslegum verkefnum sé nú betur sinnt en áður" - á hverju byggist þessi fullyrðing? Hvernig er hægt að fullyrða að samfélagslegum verkefnum sé ekki betur sinnt. Það er greinilegt að Jón hefur ekki búið á Íslandi undanfarin ár.

Allt í allt var þessi lesning vonbrigði og gefur ekki fyrirheit um að Samfylkingin hafi upp á mikið að bjóða í stjórn efnahagsmálanna, þrátt fyrir flott kynningarstarf í kringum ritið.


Græn skref í Reykjavík

Við í meirihluta umhverfisráðs kynntum aðgerðaráætlun okkar fyrir umhverfismál í borginni á kjörtímabilinu í dag. Um er að ræða góð skref sem munu gera borgarbúum auðveldara að haga lífi sínu á umhverfisvænni hátt. Byggjast þau á góðri hugmyndavinnu meirihlutans, undirbúningsvinnu "Reykjavík í mótun" og frábæru starfi embættismanna borgarinnar.

MIKLU BETRI STRÆTÓ

Allar biðstöðvar strætisvagna fá eigið nafn sem birtist meðal annars á ljósaskilti um borð í vögnum. Allar lykilbiðstöðvar munu birta rauntímaupplýsingar og greiðslumáti í strætó verður auðveldaður. Strætó fær oftar forgang í umferðinni á völdum stofnbrautum. Reykvískir námsmenn fá ókeypis í strætó á haustmisseri 2007. 

VERÐLAUNUM VISTHÆFA BÍLA

Ökumenn fá að leggja visthæfum bifreiðum ókeypis í bílastæði borgarinnar. Borgarbúar eru með þeim hætti hvattir til að aka um á visthæfum bílum sem draga úr mengun, skapa minni hávaða og gera umhverfi okkar betra. Visthæfir bílar eru skilgreindir eftir eldsneytiseyðslu og eldsneytisgerð. 

GÖNGUM LENGRA, HJÓLUM MEIRA

Göngu- og hjólreiðastígurinn frá Ægisíðu upp í Elliðaárdal verður breikkaður, upphitaður og vatnshönum þar fjölgað. Göngu- og hjólreiðastígum verður sinnt eins og götum borgarinnar allan ársins hring. Gönguleiðir skólabarna verða merktar og kynntar sérstaklega. Göngustígar sem tengja búsetusvæði eldri borgara og nálæg útivistarsvæði verða upphitaðir og bekkjum og handriðum verður komið fyrir. Merkingar göngu- og hjólreiðastíga munu taka mið af göngu og hjólreiðum sem samgöngumáta. 

LIFANDI OG SKEMMTILEG BORG

Pósthússtræti meðfram Austurvelli verður gert að göngugötu í miðbæ Reykjavíkur á góðviðrisdögum. Miklatún verður endurskipulagt í samráði við íbúa og kaffihúsi komið á laggirnar í Hljómskálagarðinum. Átaki í að koma upp umhverfis- og söguskiltum í borginni verður hrint af stað. Útivistarsvæði á Gufunesi verður klárað. Skilyrði til fuglalífs og fuglaskoðunar í Vatnsmýrinni og á Tjörninni verða bætt.

BETRA LOFT FYRIR ALLA 

Spornað verður við notkun nagladekkja í samráði við ríki og önnur sveitarfélög. Aðgengi borgarbúa að upplýsingum um umhverfisgæði verður aukið. Mótuð verður loftslagsáætlun fyrir Reykjavíkurborg til tíu ára til að draga úr losun á gróðurhúsalofttegundum. 500.000 tré verða gróðursett í landi Reykjavíkur til aukinnar skjólmyndunar, meiri skógræktar og bindingar koltvísýrings. Virkt eftirlit verður með innilofti í byggingum Reykjavíkurborgar.

MEIRI ENDURVINNSLA

Þjónusta við sorphirðu verður bætt til að auka endurvinnslu. Boðið verður upp á bláar tunnur fyrir dagblöð frá heimilum og þjónusta á grenndarstöðvum verður aukin. Sorphirðugjöld munu taka aukið mið af raunkostnaði af þjónustu og mengun. Bláa tunnan verður að minnsta kosti helmingi ódýrari en svört tunna. Tunnugjald mun taka mið af fyrirhöfn við sorphirðu við að sækja tunnur við heimili fólks.  

BYGGJUM VISTVÆN HVERFI

Nýtt aðalskipulag Reykjavíkur verður unnið frá grunni með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Þétting byggðar, blanda íbúðar- og atvinnuhúsnæðis, virðing fyrir hjólandi og gangandi umferð, endurvinnsla og græn svæði verða lykilhugtök í nýjum hverfum Reykjavíkurborgar.  

VISTHÆFARI LEIK- OG GRUNNSKÓLAR 

Lóðir grunn- og leikskóla verða endurbættar. Skólar munu markvisst bjóða upp á lífrænt ræktuð matvæli og birta næringargildi fæðunnar á heimasíðu. Öll hverfi fá eigið náttúrusvæði til útikennslu og umhverfisfræðslu. Allir leikskólar í Reykjavík munu nota vistvæn efni við þrif.   

HÖLDUM BORGINNI HREINNI

Hreinsunar- og fegrunarátak borgarinnar „Tökum upp hanskann fyrir Reykjavík“ heldur áfram og öll hverfi borgarinnar fá andlitslyftingu. 

REYKJAVÍKURBORG TIL FYRIRMYNDAR

Nýjar innkaupareglur borgarinnar innleiða vistvæn innkaup sem meginreglu. Meirihluti bílaflota Reykjavíkurborgar verður visthæfur. Reykjavíkurborg skuldbindur sig til að draga úr útblæstri koltvísýrings í rekstri sínum. Í útboðum á hönnun nýrra mannvirkja borgarinnar verða sett inn umhverfisskilyrði, til að mynda við val á byggingarefni og orkunotkun. Ný mannvirki í borginni taka mið af hjólreiðum sem samgöngutæki


mbl.is Ókeypis í bílastæði fyrir vistvæna bíla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kominn nýr leikari í Þjóðleikhúsið?

Það er búið að vera að brjótast um í hausnum á mér lengi á hvern Jón Bjarnason forkólfur VG í NV minnir mig. Það sló mig svo áðan þegar ég hlustaði á kjördæmaþáttinn á Rás 2.

Hlustið bara, þetta er Lilli klifurmús, er það ekki?

Lilli fór líka á milli húsa glaður og sæll og þáði frá öðrum, en lagði ekkert til sjálfur nema skemmtunina. Svipað og VG, sem vill "eitthvað annað" í atvinnumálum.


mbl.is VG bætir við sig í Norðvesturkjördæmi samkvæmt könnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hófstilltar tillögur, byggðar á skynsemi

Það er auðvitað freistandi að lofa hinu og þessu, ókeypis í hitt og þetta eins og stjórnarandstaðan keppist við að gera. Íhaldið virðist ætla að beita þagnarbindindi í kosningabaráttunni, sbr drög að ályktunum þeirra fyrir landsfundinn um næstu helgi.

Framsókn gerir það ekki. Við gerum áætlun sem stenst, sbr það þegar við lofuðum 10.000 nýjum störfum eftir valdatíð krata og íhalds. Hver varð raunin? Ekkert atvinnuleysi í dag og 15.000 störf strax í upphafi. Frekar þenslu en atvinnuleysi. Vinnan göfgar manninn.


mbl.is Framsóknarmenn boða áframhaldandi uppbyggingu atvinnulífsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband