Á að birta fréttir af svona mótmælum?

Með því að birta fréttir af mótmælum þessa hóps og vekja þar með athygli á þeim, er ritstjórn viðkomandi fjölmiðils þá ekki að verða að vilja mótmælenda og þá í rauninni að taka undir málstað þeirra?

Um leið er ritstjórnin að ýta undir áframhald svipaðra aðgerða, sem eru meira í anda stjórnleysis en eðlilegrar lýðræðislegrar tjáningar.


mbl.is Mótmælin við Grundartanga standa enn yfir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ómerkilegur Össur

Óháð því hvort kerfið hafi ekki brugðist rétt við hinni ísfirsku stúlku, þá er Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra íslensku þjóðarinnar sífellt að koma mér á óvart í ómerkilegheitum. Nú síðast ritar hann færslu á síðu sína þar sem hann heldur því blákalt fram án nokkura varnagla að tilvonandi tengdadóttir fyrrverandi umhverfisráðherra hafi fengið ríkisborgarréttinn vegna tengsla sinna við ráðherrann, þvert á allar fullyrðingar og staðreyndir sem fram hafa komið í málinu. Það hefur ekkert komið fram sem styður þessar fullyrðingar fyrrverandi kosningastjóra flokks þíns sem hefur efalaust kostað ráðherrann fyrrverandi þingsætið. Þvert á móti hefur Guðrún Ögmundsdóttir, flokkssystir ráðherrans, ítrekað haldið því fram að hún hafi ekkert vitað af þessum tengslum þegar hún fjallaði um málið. Þetta er álíka ómerkilegt og þegar hann kallaði á Alþingi eftir því hvar heilbrigðisráðherra væri, vel vitandi af því að hún væri í leyfi til að jafna sig vegna ofálags. Svo má líka spyrja sig af hverju hann hafir sagt dóttur þinni að Davíð Oddsson hafi reynst þér vel á síðu sinni.

Ástæða góða veðursins fundin?

Þær sögur ganga nú fjöllunum hærra meðal glöggra íbúa Danmerkur að Jón Ásgeir hafi keypt dönsku veðurstofuna og flutt hana til Íslands. Veðrið virðist hafa fylgt með í kaupunum og búa Danir nú við íslenskt sumarveður.

Grænir skattar duga ekki til að koma jarðefnaeldsneytinu út

Miðað við reiknivélina á www.kolvidur.is kostar uþb 3,20 kr að kolefnisjafna hvern bensínlíter. Hærra er ekki hægt að fara með grænan skatt á bensín, ef hann á að vera raunverulega grænn í skilningi gróðurhúsaáhrifanna. Það kemur mér verulega á óvart hversu lág þessi upphæð er. Það er spurning hvort ekki sé eðlilegt að þetta sé sett inn í bensín- og olíuverðið og farið verði að skattleggja mengandi starfsemi á sama hátt, eins og ég hef áður skrifað um.

Greiðsla fyrir aðra mengun er óbeint þegar komin inn í bensín- og olíuverðið í gegnum kostnað olíufélaganna í mengunarvörnum og þeirri óhlutbundnu ábyrgð sem sett var á aðila í bransanum með lögum um verndun hafs og stranda. Þar er fyrirtækjum gert að taka á sig ábyrgð á mengun óháð sekt og gert að taka tryggingu fyrir henni. Iðgjöld af þeirri tryggingu eru þegar komin inn í verðið á olíu og bensíni.

Þannig verður að beita öðrum rökum en grænum sköttum til að jafna verðið á milli etanóls og bíódísels annars vegar og jarðefnaeldsneytis hins vegar. Því miður. Skattlagning ríkisins af eldsneyti, fyrir utan virðisaukaskattinn, er nefnilega veggjald sem umferðin greiðir fyrir uppbyggingu og viðhald vegakerfisins. Bílar þurfa vegi óháð eldsneyti, svo þetta er erfitt viðfangsefni, ef aðgerðir stjórnvalda eiga að standast jafnræðisreglur og sanngirni.


Lækkum laun afgreiðslufólks !?!

Það kæmi mér ekki á óvart að nú fari af stað skriða umræðu um inngöngu í Evrópusambandið til að lækka matvælaverð, eins og Samfylkingin hefur alltaf haldið á lofti þegar þessi umræða fer af stað.

Stór hluti álagningarinnar er vegna launaliða og það er öllum ljóst að laun á Íslandi er mun hærri en í austur- og suðurhluta Evrópu. Taka verður tillit til þess í þessari umræðu.

Við skulum einnig athuga að jafnvel þótt matvælaverð sé einna lægst á Spáni, mælt á þessum mælikvarða, þá eyða þeir mun stærri hluta innkomu sinnar í mat en við gerum. Einnig skekkir þennan samanburð að áfengi og tóbak er tekið með, en það er pólitísk ákvörðun hvers ríkis sem ákvarðar hvert verð á þeim vörum er. T.d. er áfengi 2,2 x hærra á Íslandi en meðaltalið.

Held að það segði meira hversu langan tíma það taki mann á lægsta launataxta að versla eina matarkörfu en þetta. Þeir sem ekki vilja taka tillit til þess eru því í raun að segja að það verði að lækka laun afgreiðslufólks í verslunum og í flutningageiranum, svo hægt sé að koma vörunni ódýrar ofan í körfuna hjá okkur neytendum.


mbl.is Matvæli dýrust á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðar fréttir fyrir umhverfið

Til hamingju með þetta Egill, Brimborg og Olís. Það verður gaman að fylgjast með þessu og taka þátt í þessu þegar kemur að meðhöndlun og dreifingu etanólsins, þegar farið verður að flytja það inn í tankskipum, en ég býst við að til að byrja með hljóti etanólið að verða flutt inn í gámageymum með fraktskipum.

Ég er hef sjálfur mun meiri trú á spíra eða og bíódíselsleiðum en vetnisleiðinni. Sprengivélin er orðin mjög þróuð tækni og með aukinni tvinnvélavæðingu er hægt að ná miklum árangri. Ekki þarf að skipta um dreifikerfi fyrir orkuna  sem er einnig mjög þróað á heimsvísu og "ónýta" þá fjárfestingu sem liggur í því og ef einhverjar sveiflur verða á þessum markaði getur jarðefnaeldsneytið nýst sem stuðpúði, enda breikkar þetta framleiðendahópinn. Framleiðslan getur einnig verið nær notandanum, t.d. væri hægt að rækta korn, lúpínu og aðrar orkumiklar plöntur hérlendis í þessu augnamiði. Það eina sem maður gæti haft áhyggjur af er hvort þær þjóðir sem í dag framleiða eldsneyti muni beita sér gegn þessari þróun, þar sem hún ógnar þeirra hagsmunum.


mbl.is Flytja inn etanól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefna Sjálfstæðisflokksins um sölu orkufyrirtækjanna komin í framkvæmd

Yfirlýsing Sjálfstæðisflokksins í tengslum við sölu HS fær mann til að staldra við, þegar þeir segja:

"Samkomulagið tryggir jafnframt fyrstu skref í einkavæðingu orkufyrirtækja á Íslandi þar sem kraftar einkaframtaksins verða virkjaðir á sviði orkuframleiðslu og sölu"

Þetta er í samræmi við ályktun landsþings, jafnvel enn harðara, þar sem lagt var til að öll orkufyrirtæki yrðu seld, en var mildað á þinginu, til að fæla ekki frá þá skynsömu kjósendur sem alls ekki vilja selja Landsvirkjun.

Nú er spurningin, eru næg bein í nefi Samfylkingarinnar til að standa á móti þessari hraðlest?


mbl.is Samþykkt í bæjarráði Reykjanesbæjar að selja hlut í HS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig eiga útvegsmenn sjálfir að geta skipt kvótanum?

Í kvöldfréttum RÚV var sagt að "Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, segir vaxandi fræðilegar ástæður til að trúa því að kvótahafarnir sjálfir, það er útgerðirnar, séu best til þess fallnir að stjórna fiskveiðum."

Heyr á endemi. Hvernig eiga þær útgerðir sem eru sterkar í loðnu, síld og rækju að gefa sínar veiðiheimildir eftir til að auka fæðu fyrir þorskinn eða annan bolfisk?

Af hverju ætti skelfiskútgerðin að gefa sinn rétt eftir fyrir steinbítsveiðum og svo framvegis?

Ef stofnarnir lifðu algerlega sjálfstæðu lífi í vistkerfi sjávarins væri hugsanlega hægt að ímynda sér þetta fræðilega séð, en þar sem stofnarnir hafa áhrifa hver á annan og útgerðirnar hafa ekki sömu kvótasamsetningu getur þetta aldrei gengið upp.

Ég held að hagfræðingurinn verði að líta aðeins upp úr fræðibókunum áður en hann heldur svona löguðu fram, vilji hann láta taka sig alvarlega.


Framtíð ráðherrans að veði

Ef Einar Kristinn hefði þorað að fara í 150 þús tonn og fengið frekari niðurskurðartillögur frá Hafró að ári hefði hann orðið að segja af sér þá. Með því að fara að tillögum Hafró nú og viðurkenna að stofnunin hafi verið svelt um fjármagn til rannsókn er hann að viðurkenna að hann og Árni hafi tekið rangar ákvarðanir á undanförnum 12 árum. Ábyrgðin er kannski enn meiri Árna, því hann sem fyrrverandi sjávarútvegsráðherra og núverandi fjármálaráðherra ætti að hafa verið í lófa lagið að auka þessar fjárveitingar. Það gerði hann ekki.

Einhver fjölmiðillinn hefði nú talað um afsögn ef um hefði verið að ræða ráðherra úr öðrum flokki.


mbl.is Sjávarútvegsráðherra segir að tveir kostir hafi verið í boði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hélt að Landsmót væri íþróttakeppni

Ég hef komið á mörg landsmót, en því miður er þetta það leiðinlegasta sem ég hef farið á. Mótshaldarar hafa algerlega gleymt sér í því að gera bæjarhátíð úr landsmótinu, en sjálf íþróttakeppnin virðist sitja í öðru sæti. Greinilegast var það í dag, þegar frjálsíþróttakeppnin, sem fer jú fram á glæsilegum aðalvellinum var gersamlega drekkt í einhverjum tónleikum sem ekkert áttu heima þarna. Ekkert heyrðist í þuli vallarins og öll athyglin var á einhverjum cover-böndum sem voru að spila á sviðinu við hliðina á aðalvellinum, með miklu öflugra og betra hljóðkerfi.

Það er erfitt að skapa landsmótsstemmingu í höfuðborginni og því miður hefur UMSK ekki tekist það í þetta skiptið. Þeim tókst það mjög vel þegar Landsmótið var haldið í Mosfellsbæ, allt á einum stað, íþróttirnar í öndvegi og önnur skemmtun sett þar sem hún átti heima, á kvöldvökur.


mbl.is Heimsmet og keppni í pönnukökubakstri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband