Sá á kvölina sem á völina...

Ég er sífellt að sannfærast betur og betur um að í síðustu kosningabaráttu hafi Samfylkingin ekki séð setu í ríkisstjórn sem möguleika. Því hafi verið gefið út ótakmarkað loforðaleyfi til allra frambjóðenda, enda hafi verið talið að ekki þyrfti að standa við neitt, en gott að eiga loforðin að vísa til í stjórnarandstöðu.

Háð þeirra á virkjana- og verndarkort Framsóknar fyrir síðustu kosningar var dæmi um framgöngu þeirra. Nú endar Samfylkingin í ójarðtengingu sinni að ganga lengra en vel grundaðar tillögur Framsóknar gengu út á. Þær gengu nefnilega talsvert langt og voru helstu virkjanasinnum innan Framsóknar ekki að skapi, en þetta var málamiðlunin sem flokkurinn stóð heill að.

Þetta loforðaleyfi nýttu frambjóðendur sér vel, sem og Samfylkingin sjálf og var öllum lofað öllu allsstaðar. Í því ljósi verður áhugavert að sjá hana reyna að koma fram af einhverjum trúverðugleika fyrir næstu kosningar með kosningastefnumál.

Líklegast verður sótt í smiðju íhaldsins og engu lofað.

Reyndar lofaði Sjálfstæðisflokkurinn einu. Stöðugleika. 


mbl.is Segja Samfylkingu meiri stóriðjusinna en Framsóknarflokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðmætum borgarinnar skóflað út um gluggann

Þessi blessaði meirihluti í Reykjavík ætlar að setja Íslandsmet í að sóa verðmætum borgarbúa og forgangsröðun hans er með þvílíkum ólíkindum og svo gersamlega á skjön við þá stefnu sem maður hélt að Sjálfstæðisflokkurinn væri að fylgja að manni fallast hendur.

Keyptir eru hjallar við Laugarveg á ofurverði til að byggja verslunarhúsnæði á, í samkeppni við aðila á frjálsum markaði, á sama tíma og til stendur að selja framtíðarútivistarsvæði borgarbúa í Hvammsvík á hálfvirði, hálfa milljón hektarann meðan að gangverð á "venjulegum" jörðum á Suðurlandsundirlendinu er nær milljóninni. Þá er ekki tekið tillit til þeirra mannvirkja sem á jörðinni eru, þmt golfvöllur. Það verður skemmtilegt eða hitt þó heldur fyrir OR að nýta jarðhitann sem var undanskilinn þegar fyrirtækið á ekki lengur jörðina. Skemmst er að líta til neðri hluta Þjórsár í því sambandi.

Stjórn OR ákvað svo að henda tæpra tveggja milljarða króna undirbúningi Bitruvirkjunnar út um gluggann án þess að hika, þrátt fyrir að alls ekki væri fullreynt um hvort hægt væri að fá leyfi til að virkja.

Nú síðast hefur stefnuleysi og meðvitað eða ómeðvitað svaraleysi í kringum REI gert það að verkum að starfsfólkinu, sem eru helstu verðmæti þess fyrirtækis, er nóg boðið og ætlar að leita á önnur mið. Maður getur ekki annað en borið virðingu fyrir því langlundargeði sem það hefur þó sýnt, en væntanlega mun REI deyja drottni sínum, Sjálfstæðisflokknum, í framhaldinu. Vonandi ráða starfsmennirnir sig til starfa hjá íslenskum fyrirtækjum. Geysir Green og önnur fyrirtæki sem eru að hasla sér völl á þessu sama sviði, klappa saman höndunum yfir því að geta nú nælt sér í starfsfólk á heimsmælikvarða fyrir sinn vöxt.

Sú vænta vegtylla og þeir þúsundkallar í launaauka sem borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur fengið fyrir að véla Ólaf F til fylgislags við sig er aldeilis að kosta okkur borgarbúa skildinginn, svo ekki sé meira sagt...


mbl.is Verkefni REI í lausu lofti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er brottreksturinn í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar?

Það er undarlegt að fylgjast með afgreiðslu ríkisstjórnarinnar á umsókn Paul Ramses Oduor um pólitískt hæli á Íslandi í ljósi þessarar setningar í ríkisstjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar:

Mannréttindi, aukin þróunarsamvinna og áhersla á friðsamlega úrlausn deilumála verða nýir hornsteinar í íslenskri utanríkisstefnu.


mbl.is Amnesty fer fram á að stjórnvöld endurskoði ákvörðun sínap
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Takmörkun á aðgengi að ferðamannastöðum það sem koma skal?

Það eru margar spurningar sem vakna í tengslum við þessa ákvörðun Kerfélagsins.

Réttur almennings til frjálsrar farar um landið er skýr í lögum, en spurning er hvort sama gildi um átroðning af völdum atvinnustarfsemi. Mér finnst sitthvað geti gilt, enda greiða þeir sem hafa tekjur af því að láta menn horfa á Kerið ekkert til eigenda þess, þrátt fyrir að það liggi augljóslega fyrir að átroðningur af völdum ferðamanna kalli á framkvæmdir til að vernda það með lagningu göngustíga og útsýnispalla.

Kerfélagið sýnir að þeir bera réttmæta virðingu fyrir eign sinni og eðlilegt að þeir vilji vernda hana, en spurning er hvort þeim sé heimilt að gera hana að beinni féþúfu. Spurningin er hvort ramminn í kringum þetta sé nægjanlega góður og í raun og þarf í framhaldinu að taka ákvörðun um hvort fara eigi kapítalíska eða samfélagslega leið.

Það er alveg ljóst að á mörgum vinsælum ferðamannastöðum er alls ekki nóg að gert til að vernda svæðin og fara í þær framkvæmdir sem þarf til að vernda svæðin fyrir átroðningi ferðamanna. Úr því þarf að bæta og koma upp sanngjörnu og um leið einföldu kerfi.

Fara þarf vel yfir þetta á komandi þingvetri.

Vonandi verður þetta kært sem prófmál, þannig að löggjafinn geti farið gaumgæfilega yfir málið í framhaldinu.

 


mbl.is Aðgangur að Kerinu í Grímsnesi takmarkaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Götótt greining á hryðjuverkaógn

Það er full ástæða til að taka greiningu ríkislögreglustjóra gagnvart skipulagðri glæpastarfsemi alvarlega og bregðast við henni á ábyrgan hátt.

En það sem stingur í augun er að skýrslan, í það minnsta sú opinbera, fer ekkert inn á þá hryðjuverkaógn og þau hryðjuverk sem þó hafa verið framin á Íslandi, en það eru umhverfishryðjuverk.

Í svipinn man ég eftir tveimur slíkum en ég er nokkuð viss um að þau séu fleiri. Árið 1970 sprengdu heimamenn í Mývatnssveit stíflu í Laxá góðu heilli og 1986 sökkti Sea Shepherd hvalbátum og unnu skemmdir á hvalstöðinni í Hvalfirði.

Þessir atburðir falla klárlega undir skilgreininguna á hryðjuverkum, eins og alþjóðasamfélagið hefur sett hana og því skrítið að ekkert skuli minnst á þá ógn.

Þarf t.d. ekki að meta ógnina af því að einhver sprengi Kárahnjúkastíflu, með þeim hamförum sem það gæti valdið?


mbl.is Aukin umsvif glæpahópa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orð dagsins...

...á Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir í leiðara 24 stunda í dag, þar sem hún fjallar um einkarekstur í heilbrigðiskerfinu:

"Markmiðið með einkarekstrinum þarf að vera skýrt. Einkarekstur í heilbrigðiskerfinu á að vera sjúklingunum, skattborgurunum og rekstaraðilunum öllum til hagsbóta en ekki aðeins þeim síðastnefndu."


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband