50% skatthlutfall markmið????
30.9.2007 | 19:47
Í augum okkar Íslendinga væri maður búinn að feðra þetta markmið til VG eða Samfylkingarinnar. En nei, þetta er markmið Íhaldsflokksins í Danmörku að ná skattinum niður í 50%, sem samþykkt var á landsfundi þeirra í dag. Það kemur manni enn undarlegar fyrir sjónir, að þeir gera sér grein fyrir því að þetta markmið sé háleitt og ólíklegt að það náist.
Það er gott að búa á Íslandi hvað þetta varðar, svo mikið er víst.
VG og sparisjóðirnir
26.9.2007 | 10:56
Það væri gaman að vita hvort Jón Bjarnason, þingmaður VG, hafi vitað af því að Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, hafi grætt 10 milljónir króna á sölu stofnfjár í SPRON þegar hann skrifaði grein sem birtist í Mogganum um helgina og skorar "á alla þá mörgu sem eru trúir sparisjóðahugsjóninni að rísa upp til varnar og þétta raðir sínar. Það verður að stöðva græðgina sem nú vill brjóta sér leið inn í sparisjóði landsmanna."
Svo getur náttúrulega verið að VG og Árni Þór séu ekkert hrifinn af sparisjóðahugsjóninni. Þá er þetta allt saman eðlilegt og Jón einn um væntumþykju sína á sparisjóðunum á þeim bænum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Faxaflóahafnir á móti samkeppni?
25.9.2007 | 13:28
Í fjölmiðlum undanfarið hafa birst fréttir af því að Faxaflóahafnir ætli að bjóða í NATO stöðina í Hvalfirði. Er haft eftir formanni stjórnar að það sé eðlilegt, enda hafnaraðstaðan á miðju starfssvæði hennar. Þegar nýju hafnalögin voru sett 2003 átti sú breyting sem á þeim voru gerð ætlað að leiða til aukinnar samkeppni milli hafna. Var vísað til þess að á SV horninu gæti orðið raunveruleg samkeppni milli hafna, en viðurkennt að hún yrði kannski ekki mikil úti á landi.
Hvað gerist? Jú, hafnirnar á SV horninu, að Hafnarfjarðar- og Kópavogshöfnum undanskildum, sameinast í eitt félag. Svo mikil varð sú samkeppni eftir allt saman og ekki lagðist Samkeppnisstofnun á móti því. Kópavogshöfn virðist aldrei ætla að verða raunveruleg samkeppnishöfn vegna skipulagsmála, þannig að Hafnarfjarðarhöfn er ein eftir sem mótvægi við Faxaflóahafnir.
Með sölu þessarar aðstöðu gæti hyllt undir að aukin samkeppni yrði á hafnarþjónustumarkaðnum SV horninu, þóknanlegt öllum öðrum en hörðustu kommúnistum. En nei. Stjórn Faxaflóahafna ætlar að taka í taumana og koma í veg fyrir það með því að kaupa hafnaraðstöðuna upp, í samvinnu við Hvalfjarðarsveit. Útboðið er auglýst þannig að einungis hæsta tilboð verður lesið upp. Þannig fengi almenningur ekki að vita á hvaða yfirverði aðstaðan yrði keypt til að hindra samkeppni.
Hafnarstjóri hóf samtímis málflutning gegn þeirri hafnarstarfsemi sem minn vinnuveitandi, Olíudreifing og Hvalur reka í Hvalfirði, með fullyrðingum um að skip færu inn í Hvalfjörð án lóðs, sem fjölmiðlar átu upp án þess að kanna hvort fótur væri fyrir þeim. Það er rétt að það fylgja ekki lóðsar frá Faxaflóahöfnum skipum sem eru að fara inn í Hvalfjörð, en það þýðir ekki að það fylgi þeim ekki lóðsar. Heimurinn er nefnilega örlítið stærri en svo, eins og leiðrétt var við Skessuhorn. Leiðrétting hefur ekki sést víðar.
Það er allrar athygli vert, í ljósi stefnu þeirra stjórnmálaflokka sem að stjórn Faxaflóahafna koma í samkeppnismálum, að þeir skuli allir sem einn samþykkja að koma í veg fyrir samkeppni á þessum markaði með því að fara í kaup á þessum mannvirkjum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Össur byltingarleiðtogi
25.9.2007 | 08:46
Landfylling við Ánanaust fær Össur til að mótmæla "Í samtali við Vísi sagðist hann taka undir mótmæli íbúanna enda sé hann byltingarmaður að fornu fari"
Svo mörg voru þau rök, "ef það eru læti þá er ég memm..."
Er meðalið ekki farið að helga tilganginn þarna?
Látum einskis ófreistað í baráttunni við þessa djöfla
23.9.2007 | 21:24
Öflug greiningardeild, gott eftirlit með landhelginni og öflugt landamæraeftirlit eru hlutir sem horfa verður á með jákvæðum augum, þegar menn standa andspænis fíkniefnavánni.
Mér er satt best að segja slétt sama hvort ég eigi á hættu að það sé auðvelt fyrir lögreglu að hlera símann minn eða hvað eina, meðan dópsalar fara inn á skólalóðir og reyna að tæla börnin okkar inn í þetta helvíti.
Það verður bara að hafa það. Rétturinn til lífs er og verður æðstu mannréttindin, annað kemur á eftir.
![]() |
Dómsmálaráðherra: Athugunarefni að nýta búnað ratsjárstofnunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kristján L Möller maður að meiri
22.9.2007 | 10:41
Samgönguráðherra hefur beðið Einar Hermannsson, skipaverkfræðing afsökunar á að hafa gert hann einan ábyrgan fyrir Grímseyjarferjumálinu.
Hann er maður að meiri að hafa gert það, enda var hann sjálfur eiginlegast orðinn blóraböggull í máli sem í rauninni kom honum ekkert við.
Þá er það næsta spurning, hvort Marshallaðstoðin hans geri slíkt hið sama?
Ég efa það, enda hefur hann ítrekað haldið því fram að Kristján Möller hafi ekki sagt það sem hann hefur nú beðist afsökunar á.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 25.9.2007 kl. 13:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Grímseyjarferjumálið á greinilega ekki að klára með sóma
21.9.2007 | 10:59
Formaður fjárlaganefndar tilkynnti landslýð í gær að nefndin myndi ekki aðhafast frekar í Grímseyjarferjumálinu. Þeir leggja blessun sína yfir vinnubrögð Fjármálaráðherra með vísan í það að þetta hafi verið gert margoft áður.
Það sem meirihlutinn er þar með að segja er að svona lagað sé í lagi og megi endurtaka.
Eftir standa tveir menn sem að mínu mati eru algerlega að ósekju gerðir að blórabögglum. Einar Hermannsson, skipaverkfræðingur sem samgönguráðherra og aðstoðarmaður hans opinberlega sagt lélegan pappír sem ekki eigi að taka mark á eftirleiðs og svo vegamálastjóri, sem fékk SKIPUN frá fjármálaráðuneytinu og samgönguráðuneytinu um að fara fram úr fjárheimildum til að fara þá leið sem farin var og fara fram úr fjárheimildum sínum. Hann skyldi bara klára verkið, sem hann og hefur reynt að gera.
Það er að sjálfsögðu fjármálaráðherra sem ber meginábyrgð á því að veitt var "heimild" til að brjóta lög og fara fram úr fjárheimildum. Fyrir þarf hann að svara, en meirihluti fjárlaganefndar hefur ekki manndóm í sér til þess. Fyrir það ber henni skömm ein.
Bílar framtíðarinnar
19.9.2007 | 14:32
Sat skemmtilega ráðstefnu Driving sustainability í gær.
Komu margir fróðir með sína sýn á það hvernig gera eigi bílaflotann umhverfisvænan. Ekki vanþörf á.
Gegnumgangandi virðist mér tvinntæknin vera það sem koma skal, þannig að bremsuorkan sé virkjuð og nýtt til að drífa bílinn auk þess sem batterý, hlaðin frá rafkerfinu munu duga til að keyra styttri vegalengdir.
Í náinni framtíð virðast ekki vera væntanleg batterý sem gera það kleyft að hægt sé að ná viðunandi aksturslengd til langaksturs. Þarf því einhvern annan orkugjafa sem nýttur yrði þegar búið yrði á batterýunum. Bensín og gasolía er það sem nýtt er í dag, en ýmsir valkostir eru að auki, Metan úr sorphaugum og öðrum rotmassa, metanól, framleitt úr vetni, etanól eða rapsolía framleitt úr þeim lífmassa sem aðgengilegur er. Vetnisvélin virðist mér vera lengra í burtu vegna geymsluerfiðleika með vetnið.
Metanólið er eitrað, þannig að mér þætti líklegast að metan, etanól eða rapsolían muni fasa bensínið og gasolíuna út í tvinnbílum framtíðarinnar.
Úr G í S í D ?
17.9.2007 | 23:11
Það vottar ekki mikið fyrir jafnaðarmanninum og fyrrverandi alþýðubandalagsmanninum í viðskiptaráðherranum Björgvini G Sigurðssyni þegar hann segir flatan skatt vera það sem koma skal í pallborðsumræðum á fundi Viðskiptaráðs í dag.
Leitaði í ályktunum Samfylkingarinnar og fann ekki eitt orð um flatan skatt þar. Minnir að ég hafi síðast fundið ályktun um flatan skatt hjá SUS.
![]() |
Menntamálaráðherra: Viðskiptaráð minnir stundum á ungliðahreyfingarnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Á Kirkjubæjarklaustri nota menn aðrar aðferðir...
17.9.2007 | 21:25
Heyrði af því að löggan á Kirkjubæjarklaustri hefði verið spurð að því í gær hvort hún ætlaði að fara að sekta menn fyrir að míga úti, eins og Reykjavíkurlöggan sé farin að gera. "Nei", var svarið. "Við notum bara klippurnar..."
Vonandi fréttist þetta ekki til Reykjavíkur.
En meðan ég man. Lögga í Reykjavík á mikið hrós skilið fyrir átakið í miðbænum.
![]() |
Fjölsótt miðborgarþing um umgengni og framkomu í miðborginni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)