Ágreiningur um stefnu í loftslagsmálum

Í setningarræðu síðasta umhverfisþings sagði Þórunn Sveinbjarnardóttir að ekki yrði leitað eftir undanþágum frá losunarheimildum gróðurhúsalofttegunda fyrir Ísland.

Nú kveður svo við að forsætisráðherra segir ákvörðun ekki vera tekna í því máli. Er hann líklegast að vísa í að nefnd ráðherra um setningu samningsmarkmiða Íslands í loftslagsmálum sem í sitja Þórunn, Össur Skarphéðinsson, Guðlaugur Þór og Árni M Mathiesen hefur ekki lokið störfum.

Var Þórunn þá í ræðu sinni bara að snakka sína persónulegu skoðun eins og hún taldi best fallið til vinsælda á umhverfisþingi?

Miðað við orð forsætisráðherra núna virðist hún amk ekki hafa talað í umboði ríkisstjórnarinnar og virðist ætla að lenda í hlutverki andófsmannsins í ríkisstjórn eins og hún reyndar spáði sjálf fyrir um.


mbl.is Geir: Ekki ákveðið hvort Íslendingar fari fram á undanþágur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Friðhelgi eignarréttarins

Atli Gíslason lögmaður og alþingismaður skrifaði athyglisverða grein í Fréttablaðið á föstudaginn var. Veltir hann fyrir sér friðhelgi eignarréttarins og vísar í ákvörðun eigenda jarðar sem vatnsréttindi í Þjórsá fylgja og nýtt væru í Urriðafossvirkjun, að hætta samningaviðræðum um sölu eða leigu á þeim. Veltir hann í því sambandi upp réttmætum spurningum um forsendur eignarnáms, hvenær hagsmunir eru almannahagsmunir og hvenær ekki og hvenær almannahagsmunir eru þá svo ríkir að þeir réttlæti eignarnám og hvenær ekki.

Í framhaldi af lestri greinarinnar hef ég verið að velta eignarréttinn svolítið fyrir mér. Atli lýsir ágætlega þeim rétti sem þessir einstaklingar hafa til að neita að ganga til viðskiptasamninga um hlunnindi sem sannarlega eru jarðarinnar.  En um leið og þeir neita og það hefði í för með sér að virkjunin yrði ekki byggð, hvernig er þá farið með rétt þeirra sem einnig eiga vatnsréttindi í Þjórsá og vildu hugsanlega nýta þau hlunnindi? Er réttur þeirra sem ekki vilja nýta hlunnindi meiri en þeirra sem vilja nýta? Eiga þeir sem vilja nýta en geta það ekki kannski skaðabótarétt á hendur þeim sem ekki vilja nýta?

Þessi hlunnindi eru eðli málsins samkvæmt þannig að oftast er einungis er hægt að nýta þau þvert á landamerki og eru ónýtanleg hverri einstakri jörð fyrir sig. Mér finnst þetta dæmi kenna manni það að það þurfi að skýra lagarammann um þetta, svipað og gert hefur verið með veiðihlunnindi.

ps: Reyndar er sérstakt að VG sé nú orðið svona umhugað um friðhelgi eignarréttar einstaklinga, þegar flokkurinn hefur barist fyrir því að þessi réttindi verði sameign þjóðarinnar. Það hentar ekki núna, kemur á óvart?


Hrós dagsins

Var í hópi með norrænum embættismönnum í gær og fyrradag. Einum þeirra, norskum, var gefin bók um Ísland. Í henni var mynd af Halldóri Ásgrímssyni. Hann staðnæmdist við myndina af honum og sagði snöggt "Dette her er Halldor Asgrimsson, Norges uven nummer et" og fór að tala um veiðikvóta.

Það er varla hægt að hugsa sér meira hrós um hagsmunagæslumann íslensku þjóðarinnar.


Umhverfismál, ferðaþjónusta og iðnaður

Þegar andstæðingar iðnþróunar eru spurðir út hvað þeir vilji gera fyrir byggðarlögin hefur svarið yfirleitt verið "eitthvað annað en stóriðja", með vísun í umhverfisáhrif hennar. Þegar gengið er á eftir svari, koma fram hugmyndir um opinber störf og aukina ferðaþjónustu. Uppbygging ferðaþjónustunnar á undanförnum árum hefur skapað miklar gjaldeyristekjur og er orðin ein af stoðum íslensks efnahagslífs. En ferðaþjónustan hefur líka mikil umhverfisáhrif.

Flugsamgöngur eru mjög mikill og vaxandi orsakavaldur CO2 losunar. Vegna þess að flugið eykst svo ört, verða áhrif þess á loftslagið brátt meiri en áhrif fólksbílanna á heimsvísu, og gert er ráð fyrir að álagið verði orðið tvöfalt meira árið 2030. Flug er ekki tekið með í Kyoto bókunina og ekki heldur millilandasiglingar.

 Í svari við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur á þar síðasta þingi kom fram að:

"Árið 2003 var losun frá eldsneyti sem selt var til alþjóðaflugs og alþjóðasiglinga á Íslandi, sem svarar um 514.000 tonnum af koldíoxíð-ígildum, eða sem svarar 17% af heildarlosun Íslands. Losun vegna brennslu eldsneytis til alþjóðasiglinga jókst um 81% frá 1990 til 2003 og losun vegna brennslu eldsneytis ætlað alþjóðlegu flugi jókst um 50% á sama tímabili"

Síðan þá hafa umsvif í flugi bara aukist. Sala á eldsneyti til skipa í alþjóðasiglingum er hverfandi, svo langstærstur hluti þessarar losunar kemur frá fluginu. Iðnaðarferlar, þmt stóriðjan losar í dag um 960 þús tonn, þannig að flugið, fram og til baka er að menga svipað og öll stóriðjan!

Að auki kemur svo losun vegna aksturs með ferðamenn á jörðu niðri.

Evrópusambandið hefur áttað sig á þessu máli sbr þetta

Auk þessa verður einnig að taka tillit til þess að ferðamenn vilja að sjálfsögðu sjá okkar helstu náttúruperlur, sem eru um leið viðkvæmar. Þannig að hagsmunir ferðamennsku, náttúruverndar og umhverfisverndar fara ekki alltaf saman. Það var með þetta að leiðarljósi sem Framsókn setur þetta mál sérstaklega á sína stefnuskrá og boðar mótun landnýtingarstefnu, m.a. fyrir ferðaþjónustuna. Markmið þeirrar stefnu verði að skilgreina þau svæði sem ferðaþjónustan geti nýtt til framtíðar.  Slík stefna er forsenda fjárfestinga í markaðssetningu og uppbyggingu innviða sem mega ekki eiga á hættu að svæðin verði tekin til annarra nota fyrirvaralaust.

Öll mannana verk hafa áhrif á umhverfið og andrúmsloftinu er sama hvaðan mengunin kemur. Framsókn hefur ástundað ábyrga umhverfisstefnu, með virðingu fyrir náttúrunni um leið og virðingin fyrir fólkinu í landinu er í hávegum höfð.


Össur í austrinu

Ja mikil er hræsni Samfylkingarinnar ef hún ætlar sér að fara að stuðla að virkjunum og álverum í Indónesíu. Ekki að ég hafi neitt á móti því að álframleiðsla heimsins verði knúin sem mest með endurnýjanlegum orkulindum, en þetta er þvílíkt NIMBY viðhorf að maður á varla orð.

Fyrir kosningar gaf Samfylkingin út ritið Fagra Ísland og með vísan til þess segir umhverfisráðherra að við Íslendingar eigum ekki að óska eftir framhaldi á íslenska ákvæðinu. Þetta er sama Samfylking sem er að standa að leit að olíu, en um leið sama Samfylking sem er á móti olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum og sama Samfylking sem vill auka útblástur vegna áliðnaðar, bara ekki á Íslandi!


mbl.is Össur: Gríðarlegur áhugi á samstarfi Indónesa og Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bláskjár

Sjálfstæðisflokkurinn er í vandræðum. Gerðar hafa verið atlögur að flokknum og íað að því að formaður hans hafi ekki stjórn á Flokknum. PR klúður af verstu gerð.

Til að bregðast við því og minna fólk á að Geir er "gúddí gæ" var laugardagskvöldið á Bláskjá tekið undir. Minnt á að hann kunni að syngja, frúin látin forkelast á Austurvelli við að bera honum góða söguna og svo var lítil stúlka látin hlaupa í fangið á honum og lýsa aðdáun sinni á honum í beinni útsendingu á besta útsendingartíma. Ég veit ekki hversu margar mínútur þetta voru, en stundarkorn hélt að ég væri að horfa á sjónvarpsrás frá Norður Kóreu eða Túrkmenistan. Ég er kannski ekki sérstaklega minnugur á sjónvarp en ég man í svipinn ekki eftir öðru eins um neinn formann stjórnmálaflokks, nema þá kannski fyrri formenn Sjálfstæðisflokksins.


Svona... hættið þessu... verið vinir... þegiði...

Ef Geir H Haarde hefði verið að tala við smábörn hefði hann notað þessi orð til að koma boðskap sínum á framfæri. Hann þurfti aftur á móti að nota 15 mínútur til að segja trúnaðarmannafundi íhaldsins í borginni það sama. Að því loknu vildi hann sem sagt slíta fundi, svo allt færi ekki upp í loft. Ég get amk sé aðra ástæðu til þess að hann hafi viljað það.

Geir ætlar sem sagt ekki að hreinsa loftið í flokknum og því mun sjóða upp úr pottinum seinna, því ekki hefur verið lækkað undir pottinum, heldur lokinu bara svona rétt lyft til að hleypa suðunni og gufunni út.

Maður fer nú að hugsa hvort þetta með frelsi einstaklingsins í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins sé í huga formannsins skrifað með stórum staf og sé frelsi Einstaklingsins til að setja restinni af Flokksmönnum línuna.


mbl.is „Hætta að takast á við fortíðina“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tækifæri að einfalda hlutina í leiðinni

Þegar stjórnsýslan á Keflavíkurflugvelli verður færð í "eðlilegt" horf, er í leiðinni upplagt að færa reksturinn í einfaldara horf í leiðinni og setja allt, flugstöðina, rekstur flugbrautanna og eignarhald á olíubirgðastöðinni í Helguvík undir einn hatt og nota fyrirtækið Flugstöð Leifs Eiríkssonar til þess að reka allt batterýið. Stjórnsýslan og allur rekstur þarna hefur verið allt of flókinn og allt of margir kóngar á svæðinu. Ég tek hattinn ofan af fyrir þeim sem náðu að landa þessari lausn.


mbl.is Rekstur Keflavíkurflugvallar færður til samgönguráðuneytisins um áramót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verkefni fyrir landbúnaðarnefnd Borgarfjarðar

Hemmi Gunn boðar að landslið Íslands í knattspyrnu þurfi að fara í naflaskoðun frá toppi til táar.

Held að nefndin verði að tryggja að hann komi ekki í Borgarfjörðinn, því það er alveg ljóst að margir vilji skoða manninn nakinn eftir þetta. Það er jú stripp, sem landbúnaðarnefndin hefur lagst eindregið gegn og því eðlileg forvörn að banna honum að koma í Borgarfjörðinn.


Þarf rannsóknarrétturinn ekki að tala við fleiri en borgarfulltrúana?

Miðað við kjaftasögur stendur Björn Bjarnason að einhverju leiti að baki þessari uppreisn sexmenningana gegn oddvita sínum. Hvort sem það er rétt eða ekki, virðast bloggfærslur Björns styðja það fremur en hitt og því eðlilegt að hann svari því.

Ef rétt er, þá er Björn að tapa borginni í annað skiptið á stuttum tíma. Ég verð að segja að það er nú heilmikið afrek.

Þarf rannsóknarréttur íhaldsins ekki að taka hann fyrir? Það verður áhugavert að vita innan hvaða refsiramma þessi rannsóknarréttur vinnur...


mbl.is Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins funda með stjórnum Sjálfstæðisfélaganna á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband