Úrræðaleysi Félagsmálaráðherra algert

Nú 28. ágúst, tæpu ári eftir hrun, vogar félagsmálaráðherra að segja við almenna húsnæðisskuldara þessa lands að nú ríði á að bregðast hratt við, en þráaðspurður í Kastljósi gærkvöldsins kom félagsmálaráðherra ekki með neinar lausnir.

Það eina sem hann segir er hvað megi ekki gera.

Hið pólitíska gjaldþrot er algert

Hvað má þá gera?

Það er alveg ljóst að það verður að fara í almenna leiðréttingu á skuldum. Annað getur ekki staðist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Mér sýnist leið Íslandsbanka að mörgu leiti skynsamleg. Hún færir höfuðstól íbúðalána niður á skynsamlegt plan og aðlagar greiðslur að greiðslugetu, en það sem er nýtt og afar skynsamlegt í tillögum Íslandsbanka er, að hin nýju lán verða óverðtryggð.

Þetta er eitthvað sem menn eiga að huga alvarlega að gera, að vinda ofan af verðtryggingunni í leiðinni.


mbl.is Skuldabyrði liggur þungt á fólki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af kratísku réttlæti

Einu sinni voru tvíburar, Gunni og Stebbi. Þeir höfðu lært það sama en unnu hjá sitt hvoru fyrirtækinu, höfðu báðir það sama í laun sem og konur þeirra.

Báðir höfðu keypt bíla og íbúðir og tóku lán, jafnhá, sem þeir áttu auðvelt með að greiða af fyrir hrun. Eftir hrun tvöfaldaðist greiðslubyrðin hjá þeim báðum, en með aðhaldi náðu báðir að standa í skilum.

Því miður fór fyrirtæki Gunna í þrot og hann missti vinnuna. Hann sá ekki fram á að geta staðið í skilum, sótti um greiðsluaðlögun og fékk niðurfellingu hluta skulda sinna, enda atvinnulaus og uppfyllti skilyrði stjórnvalda fyrir greiðsluaðlögun.

Stuttu síðar ræddi Stebbi við vinnuveitanda sinn og í framhaldinu var Gunna boðin vinna á sömu launum og hann var á áður.

Hvaða réttlæti er í þeirri stöðu sem þeir tvíburabræðurnir eru komnir í?

Á Stebbi greyið að halda áfram að puða og borga allt upp í topp, skatta sem lán, vegna þess að hann er ekki kominn í vanskil.

Ætti Gunni að fá endurálögð lán sín ef hann fer aftur að vinna?

Á Stebbi að horfa upp á að Gunni hafi mun lægri greiðslubyrði en sömu laun og hann?

Ef Gunni ætti það á hættu að fá lánin endurálögð eða að annarskonar greiðsluaðlögun gengi til baka, af hverju ætti hann að fara að vinna, ef það kostaði hann stórfé að fara að fá aftur tekjur?

Það er lítið réttlæti í því - en víst það sem kölluð er jafnaðarmennska - kratismi - sem Árni Páll Árnason og Samfylkingin berjast fyrir.


mbl.is Höfuðstóll lána verði lækkaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Herra félagsmálaráðherra: Réttlæti takk

Árni Páll Árnason. Mundu, þegar þú tekur afstöðu til þess skuldir hverra og hverra ekki eigi að fella niður, að skuldurum landsins sé ekki mismunað eftir því hversu fast þeir spenntu bogann.

Þeir sem keyptu ekki alveg eins stóra íbúð eða eins dýran bíl í góðærinu ,eiga ekki að líða fyrir skynsemina, meðan þú fellir aðeins niður skuldir þeirra sem gengu kannski aðeins of langt.

Það er réttlætismál að eitt verði látið yfir alla ganga.


mbl.is Bankarnir skoða leiðir til að skuldbreyta íbúðalánum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Matur !?!

Það er spurning hvernig upplitið á þessum fræknu sundmönnum hefði orðið ef þeir hefðu séð 8 metra langa beinhákarlinn sem var á svamli sunnan Engeyjar um svipað leiti í kvöld koma í átt til sín.

Reyndar er beinhákarl sárasaklaus svifæta, en tilfinningin hefði líklegast samt verið óþægileg...


mbl.is Íslandsmet í sjósundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Draumsýn Samfylkingarinnar

Þá liggur það fyrir. Sá flokkur sem gagnrýndi tillögur Framsóknarmanna til bjargar heimilum landsins hvað mest og sagði "bara svo margt slæmt við þær" eins og mátti lesa á vef forsætisráðuneytisins, hafði engar útfærðar hugmyndir eða tillögur að sama marki.

Velferðarbrúin var bara draumsýn, engar raunhæfar hugmyndir og lausnir. Ekki í fyrsta skipti á þeim bænum.

Nú er hópur að störfum 3 mánuðum eftir kosningar og enn fleiri mánuðum eftir að minnihlutastjórnin tók við og næstum ári eftir hrunið, við að kanna leiðir og hugmyndir til lausnar á vanda heimilanna.

Samfylkingin var sem sagt bara á móti niðurfærsluleið Framsóknar af því að þau áttu ekki hugmyndina sjálf og heyrst hefur að nú sé leitað logandi ljósi að aðferð til að fara leið Framsóknar án þess að það sé of bersýnilegt.

Samfylkingin er þar með búin að opinbera hvar heimilin og fjölskyldurnar eru í forgangsröðun sinni. Hana dreymir um blóm í haga en virðist ekkert vita hvernig á að vinna beðið, sá í það og hlúa að því svo þau fái þrifist.


mbl.is Aðgerðir sem hitta í mark
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhættan vegna Icesave var löngu vituð

Ég hef heimildir fyrir því að stjórnarmenn í tryggingasjóði innistæðueigenda hafi lagt hart að Landsbankamönnum að flytja Icesave úr landi, löngu áður en sprengingin í stærð þeirra varð jafn mikil og afgerandi og hún varð og við erum að súpa seyðið af núna. Áður en Hollandsreikningarnir voru markaðssettir.

Svör Landsbankamanna hafi verið að þeir mættu þetta og því ætluðu þeir að halda því áfram.

Kaupþing fór sem betur fer ekki sömu leið og því munum við Íslendingar ekki þurfa að borga nema óbeinan kostnað af hruni þess banka. Nóg er samt.

Mér finnst með ólíkindum að fulltrúi viðskiptaráðuneytisins skuli ekki hafa komið þessari vitneskju  og viðhorfum sem fram komu á stjórnarfundum innistæðutryggingasjóðsins til skila, þannig að viðskiptaráðuneytið gæti tekið tillit til þeirra þegar Landsbankinn fékk leyfi til að stofna útibú í Hollandi og að þær umræður sem fóru fram á þessum fundum skuli ekki hafa komið fram opinberlega


mbl.is Umræðan oft óvægin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landráð á að kæra

Það að trúnaðargögn um eitt mesta hagsmunamál Íslendinga nokkurntíma skuli hafa lekið til fjölmiðla og birting þeirra á þeim getur varla verið annað en landráð.

Spunameistarar Samfylkingarinnar reyndu að kenna Framsóknarmönnum um lekann, og voru fjölmiðlar fullir af þeim ásökunum, en þeir skutu sig illilega í fótinn, enda það plagg sem lekið var ekki samhljóða því eina eintaki sem afhent var Höskuldi Þórhallssyni, fulltrúa Framsóknar í fjárlaganefnd.

Það eintak var ekki fjölfaldað.

Eftir standa hinir fjárlaganefndarmennirnir og í raun 54 þingmenn á þingi í hópi grunaðra.

Líklegast hefur stjórnarandstaðan öll fengið samhljóða eintak, þannig að það fækkar í hópi grunaðra niður í 14 þingmenn Vinstri Grænna og 20 þingmenn Samfylkingarinnar.

Fulltrúar þeirra í fjárlaganefnd, þau Árni Þór Sigurðsson, Ásmundur Einar Daðason, Björn Valur Gíslason, Guðbjartur Hannesson, Oddný Harðardóttir og Sigmundur Ernir Rúnarsson verða að svara því hvernig þau fóru með þau eintök sem þeim var trúað fyrir. Voru þau ljósrituð og dreift til annarra samflokksmanna á þingi?

Það eina sem hægt er að gera er að kæra málið til lögreglu sem hefji opinbera rannsókn á málinu, þannig að fjöldi saklausra alþingismanna sitji ekki undir grun um að hafa framið landráð, en í dag eru það bara þingmenn Framsóknarflokksins sem eru algerlega lausir undan þeim vonda grun.


mbl.is Hagvöxtur stýri greiðslum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Saving Iceland stórskaðleg umhverfinu

Þessir aðilar, sem kenna sig við Saving Iceland eru að valda íslenskri náttúru stórskaða.

Framkoma þeirra og framferði er með þeim hætti að mun færri en ella vilja láta kenna sig við náttúruvernd og láta fara minna fyrir sér í eðlilegri opinberri umræðu. Þeir sem lítinn skilning hafa á náttúruvernd hafa framferði þeirra til að benda á og nota það óspart, máli sínu til stuðnings.

Heiðvirðir náttúruverndarsinnar geta ekki annað en fordæmt aðgerðir þessa hóps sem draga úr uppbyggilegri náttúruverndarumræðu með því að eyðileggja orðspor náttúrverndarfólks.


mbl.is Saving Iceland: Rógburður lögreglu og lygar fjölmiðla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandmeðfarin bankaleynd

Eins og mér þykir nauðsynlegt að upplýsingar um hinar að því er virðist siðlausu lánveitingar komi fram, verður samt sem áður að ríkja sá trúnaður sem nauðsynlegur er í bankaviðskiptum, til að þau geti farið fram á sem heilbrigðastan hátt.

Hver vill til dæmis leggja fram allar sínar viðskiptaáætlanir og rekstrarforsendur til banka sem lekur þeim strax þannig að allir keppinautar geta lesið þína stöðu og verðlagt sig miðað við hana, hækkað þannig sína álagningu, eða bolað þér af markaði?

Hið rétta ferli í þessu máli er að láta rannsóknarnefndir yfirfara lánabækur og önnur gögn hinna föllnu banka og birta það sem birta ber, eins og til dæmis þær upplýsingar sem fjallað hefur verið um.

En það er alveg ljóst að eftirlit með lánveitingum og starfsemi bankastofnanna sem eru á markaði þarf að vera með öðrum hætti, það hefur dýrkeypt reynslan kennt okkur, en trúnað við viðskiptavini verður einnig að virða - svo lengi sem allt er innan skynsamlegra marka - við megum ekki láta nornaveiðarnar ná algerlega tökum á okkur - þótt einhverjir hafi greinilega framið dýr og ósiðleg brot.


mbl.is Þurfa breyttar reglur um bankaleyndina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáránlegur málflutningur fjölmiðlafulltrúa forsætisráðherra

Ef Kristján Kristjánsson, fjölmiðlafulltrúi forsætisráðherra, er sá sem stýrir málsvörn Íslands gagnvart erlendum aðilum, eða kemur með einhverjum hætti að henni, er ekki nema von að illa gangi og Eva Joly telji sig knúna til að taka upp hanskann fyrir Ísland, aðstoðarmanni forsætisráðherra, Hrannari B Arnarssyni, til mikils ama.

Í kvöldfréttum RÚV, taldi fjölmiðlafulltrúinn hið eðlilegasta mál að ráðherrar ríkisstjórnarinnar töluðu út og suður. Kristján - það er ekki eðlilegt að ríkisstjórnin sé stefnulaus!

Hvaða vitleysa er það að ekki sé hægt að standa að neinni málsvörn fyrr en búið er að ganga frá Icesave?

Sem betur er það ekki fjölmiðlafulltrúi forsætisráðherra sem á að standa að kynningu á okkar málstað gagnvart erlendum aðilum - það er utanríkisþjónustunnar og ætla ég rétt að vona að þar sé betur upplýst fólk að störfum.


mbl.is Joly tókst það sem öðrum tekst ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband