Rannsókn á hinni endanlegu skjaldborg

Það er furðulegt að nú eigi að rannsaka skuldastöðu heimilanna, sérstaklega í ljósi þess að forsætisráðherra taldi sig geta fullyrt þegar hún kynnti síðasta aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar, að nóg væri að gert fyrir fjölskyldur í landinu.

En þessu frumvarpi ber að fagna, því óháð þeirri glámskyggnu yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að nú sé nóg að gert fyrir fjölskyldur landsins, mun þessi rannsókn leiða svo ekki verður um villst þörfina á almennum aðgerðum til að bjarga fjárhag heimila landsins, sem urðu fyrir algerlega ófyrirsjáanlegum forsendubresti allra sinna skuldbindinga í hruninu.

Á sama hátt og fjármagnseigendum landsins var bættur þessi forsendubrestur, er ekkert nema eðlileg og sjálfsögð krafa að slíkt hið sama verði látið ganga yfir skuldara landsins.

Ef ekki verður gripið til almennra aðgerða í þessa veru, er full ástæða til að óttast algert viðskiptasiðrof í landinu, sem yrði enn meiri skaði en nokkur sá skaði sem þjóðin hefur þegar orðið fyrir í þessu hruni..


mbl.is Rannsókn á skuldastöðu heimila
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins loksins - vonandi verður horft til samvinnuhugsjónarinnar

Það var kominn tími til að kynntar verði aðgerðir stjórnvalda vegna skuldavanda heimilanna.

Það er eðlilegt og sanngjarnt að sá forsendubrestur sem varð í hruninu verði leiðréttur að því marki sem hægt er í almennum aðgerðum, en hagur almennra fjármagnseigenda var tryggður með neyðarlögunum en lítið sem ekkert hefur verið gert fyrir hinn almenna skuldara.

Horfum til samvinnuhugsjónarinnar

Gagnvart hinum sem eru verst settir er eðlilegt að líta til samvinnuhugsjónarinnar, þegar um yfirveðsett húsnæði er að ræða sem fólk mun aldrei ráða við, þrátt fyrir hinar almennu aðgerðir.

Það að gefa fólki einhvern frest eftir að það hefur í raun misst húsnæði sitt eða að þvinga lánveitendur til að leigja þeim sem misst hafa húsnæði sitt, gerir ekkert annað en að seinka enduruppbyggingunni, grafa undan lánamarkaðnum, rýra hann trausti. Trausti lánveitenda í þessu tilfelli, sem ekki geta gengið að veðum sínum.

Það sem aftur á móti er hægt að gera núna til að veita skuldsettum fjölskyldum von, er að leita í samvinnuhugsjónina eftir lausnum.

Þær fjölskyldur sem sjá ekki fram úr skuldavanda sínum, geti, í samkomulagi við lánveitendur, lagt íbúðina inn í samvinnufélag, búsetafélag, þar sem fólk keypti búseturétt (smám saman í gegnum leigu eða með láni), en lánveitandinn, hugsanlega og líklegast örugglega í samstarfi við ríkið gegnum Íbúðalánasjóð eða sjálfstæða stofnun og hugsanlega einnig lífeyrissjóðina, fengi sanngjarna uppgreiðslu á viðkomandi láni eða lánum. Búsetufélagið/félögin ættu og rækju eignirnar og innheimtu leigugjald af íbúunum, sem eignuðust búseturétt, sem væri seljanlegur.

Afskriftirnar "rynnu" með þessum hætti ekki til einstaklinga eða hagnaðardrifinna félaga, heldur samvinnufélags.

Með þessu yrði til ríkis- eða lífeyrissjóðavæddur húsnæðismarkaður, sem byggði á félagslegum gildum, með hagsmuni félagsmanna sinna að leiðarljósi, til hliðar við leigumarkaðinn og eignamarkaðinn.


mbl.is Kynna aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við hvaða laun missa menn verkfallsrétt?

Kristján Möller og aðrir stjórnarsinnar segjast ekki vorkenna flugumferðastjórum að vera hótað lagasetningu vegna þess að þeir hafi há laun.

Við hvaða laun miða Samfylkingin og VG þegar þetta er sagt. Við hvaða laun missa menn verkfallsréttinn?


mbl.is Flugumferðarstjórar aflýsa verkfalli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virðing og virðingarleysi fyrir stjórnskipuninni

Forsætisráðherra og fjármálaráðherra lýsa því yfir að þau ætli ekki að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Með því vanvirða þau þá stjórnarskrá og stjórnskipan sem þau sækja sjálf vald sitt í.

Kosningarétturinn er einn helgasti réttur hvers þegns og það er skylda allra sem hafa þann rétt að nýta hann, sama hvað þeir svo kjósa.

Það að nýta hann ekki er að samþykkja niðurstöðu meirihlutans, þannig að um leið og þau vanvirða þá stjórnarskrá sem þau hafa undirritað eiðstaf að, eru þau í raun að hafna þeim lögum sem þau hafa sjálf samþykkt á Alþingi.


mbl.is Ólafur Ragnar búinn að kjósa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtum mátt samvinnunnar í þágu heimilanna

Ríkisstjórnin á að nota þann tíma sem hún gaf sjálfri sér og þjóðinni þegar hún framlengdi uppboðsfrest íbúðahúsnæðis í að undirbúa og stofna húsnæðissamvinnufélög sem fólk sem ekki getur haldið eigið húsnæði af skilgreindum ástæðum, geti lagt húsnæði sitt inn í.

Af húsnæðinu yrði greidd leigu, en fólk fengi að búa áfram í húsnæðinu. Hluti leigunnar rynni í stofnfjársjóð samvinnufélagsins, þannig að samvinnufélagið verði með tíð og tíma sjálfbært og gæti greitt ríkinu eða lífeyrissjóðunum til baka sitt framlag, sem er aftur á móti nauðsynlegt í upphafi í formi samvinnubréfa, en félagar samvinnufélagsins, þ.e. íbúarnir hefðu yfirráðarétt yfir félaginu í formi atkvæðaréttar síns.

Máttur samvinnunar á við hér eins og svo víða.


mbl.is Margt gott gert innan bankanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn er eins blindur og sá sem ekki vill sjá

Íslensku þjóðinni er alveg treystandi til að taka afstöðu til þess hvort Ísland eigi að vera í ESB eða utan þess.

Þá afstöðu er hins vegar ekki hægt að taka nema fyrir liggi í hverju aðild felst. Sú vitneskja kemur ekki fram nema í gegnum aðildarviðræður.

Í stað þess að berjast á móti ferlinu eiga hagsmunasamtök sjómanna og bænda að einhenda sér í að skilgreina hvernig samning samtökin myndu vilja sjá og taka fullan þátt í því að reyna að ná þeim samningi.

Því það getur endað með því að þjóðin samþykki aðild út frá allt öðrum hagsmunum en landbúnaðarins eða sjávarútvegsins og þá er eins gott að þessar greinar séu í það minnsta búnar að ná því fram sem hægt er.


mbl.is Skiptar skoðanir um ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samvinnustjórnmál bera árangur

Það var ekki fyrr en ríkisstjórnin sá að sér og fór að ástunda samvinnustjórnmál í stað þess að stunda spuna- og fleluleikjastjórnmál að mál fóru að hreyfast í rétta átt í Icesave.

Reyndar það góðan að spunameistarar Samfylkingarinnar eru komnir á fullt í mannorðsávirðingum til að einstaklingar í stjórnarandstöðunni fái ekki notið sammælis um sinn hlut.

En vonandi er þetta hluti af því ferli að útrýma svoleiðis vitleysu, og menn fari að ræða málefni og svara efnislega í stað þess að ráðast á sendiboðana í sífellu.


mbl.is Held í vonina um samstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öfugt farið að öllu - líka í sókninni

Með pompi og prakt kynnti ríkisstjórnin að hún ætlaði varaformönnum sínum, þeim Degi B Eggertssyni og Katrínu Jakobsdóttur að fara í sóknaráætlun 20/20 og hafa verið haldnir fjöldi funda sem þau vilja kalla Þjóðfundi, til skrumskælingar og lítilsvirðingar við Þjóðfundinn sem haldinn var í Laugardalshöll

Þetta verkefni hefur verkefnisstjórn. Þverpólitíska?

Nei - þessi verkefnisstjórn er nánast einungis skipuð flokksmönnum Samfylkingar og Vinstri Grænna, þannig að þetta er illa dulbúin aðferð til að láta ríkissjóð greiða málefnastarf þessara flokka.

Á hvaða grundvelli er farið í þetta starf?

Tja allavegana er grunnurinn ekki skýr, því fyrst núna er lögð fram þingsályktunartillaga um að fara eigi í verkefnið. Er hún á dagskrá þingsins í dag.

Samt er þegar búið að halda fjölda funda, opna vef og ég veit ekki hvað.

Hvað ef þingsályktunartillögunni verður breytt eða hún felld?

Menn verða að fara rétt að hlutunum, ekki öfugt.


mbl.is Baráttufundur í Ólafsvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mistök Samkeppnisstofnunnar sett á markað

Afstaða Arion banka að setja Haga á markað í heilu lagi og taka ekki í mál að hluta fyrirtækið í sundur er bara merki um eitt.

Bankinn telur fyrirtækið meira virði þannig, sem er afar athyglisvert.

Bankinn ætlar sér sem sagt að selja markaðsyfirburði Haga, sem urðu til fyrir mistök Samkeppnisstofnunnar, þegar Baugsveldið fékk að kaupa keppinauta sína út af markaðnum.

Ef ekki, væri örugglega hægt að fá hærra verð fyrir einstaka hluta þess, enda reksturinn fjölbreyttur og eftir að hann varð einvörðungu innlendur, er lítil samlegð í rekstri tískuvöruverslanna og lágvörumatvörubúðar eða útivistarvöruverslunar.

Þetta er örugglega löglegt, en hvort þetta sé siðlegt og til þess fallið að bæta hag íslensku þjóðarinnar er allt annað mál.


mbl.is Hagar og Baugur deila um milljarð sem var gjaldfelldur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neyðarsendar

Þvílikt lán og gæfa sem það er fyrir okkur Íslendinga að hafa björgunarsveitirnar. Þeir telja sig heppna að hafa fundið mæðginin, en það er nú svo undarlegt hvað heppnin fylgir þeim sem eru vel undirbúnir.

En eitt skil ég ekki. Af hverju í veröldinni er ekki í boði að kaupa eða leigja neyðarsenda, sem snjósleðamenn og annað ferðafólk getur tekið með sér?

Þannig geta björgunarsveitirnar gengið að fólki vísu, lendi það í háska.

Auðvitað yrði eitthvað um fölsk neyðarboð, en það er alveg ljóst að ekki þarf líkt því eins marga björgunarsveitarmenn í hvert raunverulegt útkall ef hægt er að miða fólk út, þannig að heildarvinnustundirnar sem færu í björgunarstörf hljóta því að vera færri, fyrir utan öryggið fyrir ferðafólk og ekki síður björgunarsveitarfólk.


mbl.is „Við sáum þarna þúst“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband