Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Fjórar flugur í einu höggi
4.4.2009 | 13:01
Meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn sýnir enn og aftur að loksins er komin ábyrg stjórn í borgina.
Þetta Halland verkefni, þar sem atvinnulausum iðnaðarmönnum og iðnnemum er boðið að taka þátt í að endurbyggja gömul hús slær að minnsta kosti fjórar flugur í einu höggi.
- Gömul hús endurbyggð og verða þannig til prýði á ný.
- Iðnaðarmenn fá vinnu og tekjur í stað þess að mæla göturnar á atvinnuleysisbótum.
- Borgin sparar útgjöld en hún leggur til efniskostnað verkefnisins, en fær
- Menningarsagan er efld með því að kenna gamalt og vandað handverk
Vonandi verður ríkisstjórnin ekki á móti þessu verkefni, bara vegna þess að hugmyndin kemur frá Óskari Bergssyni.
![]() |
Atvinnuátaksverkefni við endurgerð gamalla húsa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Grundvallaratriði áfallastjórnunar
4.4.2009 | 11:13
Þegar áföll dynja á hefur mér verði kennt og reynst best í mínum störfum, að halda sig við það skipulag sem fyrir er og reyna að byggja á því þegar takasta þarf á við óvænt verkefni.
Þegar áfallið hefur dunið yfir og búið er að bregðast við því er hægt að yfirfara ferlið og koma með tillögur sem til framfara horfa.
Það virti Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin alls ekki í sínum viðbrögðum við bankahruninu við setningu neyðarlaganna, þar sem grundvallarreglum var breytt og aðilum mismunað eftir á og almennum gjaldþrotalög voru sett til hliðar. Þegar er búið að dæma lögin ólög einu sinni og eflaust á það eftir að gerast aftur, með ófyrirséðum kostnaði fyrir okkur öll.
Þetta sjónarmið tekur Róbert Spanó undir í grein sinni í tímariti lögfræðinga.
Þær breytingar á ráðuneytum sem nú er verið að undirbúa, rétt fyrir kosningar, í miðjum björgunaraðgerðum er einnig algerlega á skjön við þessa sjálfsögðu grundvallarreglu. Sama má segja um margt af því sem ríkisstjórnin er að leggja fram og tengist ekki beint björgunaraðgerðunum.
Björgun og endurreisn efnahagslífsins á að vera í algerum forgangi. Önnur mál verða til þess að slæva einbeitingu löggjafans, sem eykur líkur á mistökum þegar síst skyldi.
Stjórnlagaþing, sem Framsókn hefur sett í forgang, er einmitt til þess fallið að auðvelda Alþingi sín störf, því öllum má ljóst vera að eftir þetta hrun verður að fara yfir allan grunn stjórnskipunarinnar og koma með tillögur sem til framfara horfa. Með því að hafa stjórnlagaþing til hliðar við Alþingi er verið að leggja til að þjóðkjörnir einstaklingar semji nýja stjórnarskrá og beri hana undir þjóðina til samþykktar í þjóðaratkvæði, meðan Alþingi og ríkisstjórn sinna björgunaraðgerðunum og uppbyggingastarfinu.
Þessu berjast Sjálfstæðismenn gegn með oddi og egg - hræddir við að valdaspilaborg þeirra gæti hrunið að hluta til eða að öllu leiti.
![]() |
Mikilvægt að virða grundvallarreglur á umrótatímum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lágkúra
3.4.2009 | 08:48
Það er leiðinlegt að sjá, á hversu lágt plan Sjálfstæðisflokkurinn er að leggjast í þingstörfum. Það þarf ekki að leita lengi til að finna tugi eða hundruð hneykslunarræða Sjálfstæðismanna gegn málþófi VG í hinum ýmsu málum.
Nú beita þeir sjálfir sömu meðölum, þannig að málflutningurinn þá hefur verið með lungunum, ekki hjartanu.
Á sama hátt er ömurlegt að sjá hversu lágt Samfylkingin leggst á sinni opinberu heimasíðu. Þar er óheft skítkast á Sjálfstæðisflokkinn, þar sem sýnt er myndband af Sjálfstæðismanninum Sigurði Kára tala frá hjartanu um að Sjálfstæðismenn eigi fiskinn í sjónum.
![]() |
Langir vinnudagar á þingi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Alkul atvinnulífsins í boði VG og Samfylkingar
3.4.2009 | 01:47
Skynsamleg fjármögnun bankanna er algert forgangsatriði, þannig að þeir geti farið að lána fyrirtækjum, þannig að þau komist ekki í greiðsluþrot og geti aukinheldur farið í eðlilegar fjárfestingar, viðhaldsverkefni og uppbyggingu.
Á þeirri vakt hefur Steingrímur J Sigfússon algerlega sofið.
Svefn og skilningsleysi Samfylkingarinnar er einnig alger og í hrópandi andstæðu við yfirlýsingar þeirra þegar upp úr síðasta ríkisstjórnarsamstarfi slitnaði, þegar allur seinagangurinn átti að vera samstarfsflokknum að kenna.
Niðurstaða landsfunda VG, S og D sýna okkur og sanna að enginn þessara flokka virðist megna að koma með neinar raunhæfar tillögur i efnahagsmálum.
Einungis Framsóknarmenn hafa lagt fram tillögur, samhangandi 18 tillögur, sem sífellt fleiri hafa tekið undir, sem hlýtur að vera til vitnis um hvaða flokki er helst treystandi til að leiða þjóðina út úr kreppunni.
![]() |
Nánast engin lán til fyrirtækja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íhaldið á móti breytingum
2.4.2009 | 13:33
Þegar Ísland fékk fyrsta ráðherrann, íhaldsmanninn Hannes Hafstein, árið 1904 fluttist framkvæmdavaldið úr höllum Kaupmannahafnar í heldur íburðarminni húsakynni í Reykjavík.
Valdið fór aldrei lengra. Almenningur hefur síðan þá þurft að leita til Reykjavíkur í stað Kaupmannahafnar, sem er að vísu styttra í burtu, en sjálfsákvörðunarrétturinn er eftir sem áður jafn lítill fyrir almenning.
Þrátt fyrir fullveldið 1918 og stofnun lýðveldisins 1944 hefur stjórnarskrá Danmerkur frá 1874 ekki breyst í neinum meginatriðum, meðan að Danir hafa breytt sinni stjórnarskrá verulega í átt til aukins lýðræðis. Sjálfstæðismenn hafa ætíð séð til þess að þær stjórnarskrárnefndir sem skipaðar hafa verið hafi ekki komist að neinum niðurstöðum um breytingar, nema á smávægilegum tækniatriðum og atriðum sem í raun var skylda að taka upp vegna alþjóðasáttmála.
Það er Sjálfstæðismönnum nefnilega þóknanlegt að hafa óbreytta þá valdstjórn framkvæmdavaldsins og óbreytt fyrirkomulag dómstóla sem þeir hafa skipað í síðustu áratugi og því berjast þeir með oddi og egg gegn öllum breytingum á stjórnarskránni, því það er ógnun við þá valdastöðu sem íhaldsmenn fengu í formi þeirrar embættismannastéttar sem komið var á fót í upphafi síðustu aldar.
Það er í því ljósi sem horfa verður á málflutnings íhaldsins í þessu máli.
![]() |
Vilja vísa stjórnarskrármáli frá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Loksins komin ábyrg stjórn á borgina
1.4.2009 | 21:25
Það er alveg með ólíkindum hversu mikil breyting hefur orðið á stjórn borgarinnar síðan núverandi meirihluti tók við. Það er komin stjórn á borgina og verið er að taka á málum af ábyrgð og festu og skýrum markmiðum aðgerðaráætlunarinnar er náð í góðri samvinnu starfsmanna borgarinnar og stjórnmálamanna, þar sem grunnþjónustan er varin, gjaldskrár grunnþjónustu eru ekki hækkaðar og störf borgarinnar eru varin.
Hver segir svo að það skipti ekki máli hver sé við stjórnvölinn?
Minnihlutinn reynir eftir fremsta megni að þyrla upp ryki, en þrátt fyrir að búið er að draga úr útgjöldum um 6 milljarða verður minnihlutinn að grípa til útúrsnúninga til að réttlæta það að viðurkenna ekki hversu vel er að verki staðið. Ég ætla Svandísi og Degi það ekki að geta greint á milli fjárfestinga og rekstrar þegar þau bera saman sparnað í rekstri borgarinnar, t.d. í skólamálum og fjárfestingar t.d. í gatnakerfi borgarinnar, sem eru arðbærar um leið og þær halda atvinnuleysi niðri. Þess vegna hlýt ég að dæma þessa gagnrýni sem ómerkilegan útúrsnúning.
9. stundin í dagvistun er ekki grunnþjónusta. Sérstaklega ekki á atvinnuleysistímum, viðbótarkennsla eftir hefðbundinn skóladag ekki heldur, þótt vissulega sé sú þjónusta okkur foreldrum til þæginda.
En línan er skýr, fólk er samtaka í því að vinna saman, sem er afbragðs vitnisburður um stjórn Óskars Bergssonar og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.
Það er ljós í myrkrinu ef miðað er við aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar.
![]() |
Verktakar fram fyrir skólabörn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Aðalritari Vinstri Grænna opnar hug sinn
1.4.2009 | 11:43
Það er áhugavert að sjá hvað fangar athygli vinkonu minnar Sóleyjar Tómasdóttur, ritara VG, þegar hún ákveður að fjalla eilítið um Framsókn á bloggi sínu.
Hún er ekkert upptekin af málefnaáherslum flokksins, tillögum hans til lausna á þeim vanda sem steðja að þjóðinni eða þá glæsilegu frambjóðendur sem prýða lista flokksins.
Nei.
Hún fjallar um hin ýmsu kosningamerki sem flokkurinn hefur notað í gegnum tíðina og hneykslast á því að við skulum voga okkur að vera með mismunandi útlit á kynningarefni flokksins milli kosninga.
Með þessu opinberar hún tvennt.
Áhuginn er á útliti, ekki innihaldi. Eins er hún andstæðingur framþróunar og nýsköpunar.
Sóley gleymir að merki Framsóknar hefur ekkert breyst um langa hríð, en það er kannski fram á of mikið farið að hún haldi því til haga.
Getur ríkisstjórnin enn talað um meinta kreppu?
1.4.2009 | 00:43
Það að setja neyðarlög með afbrigðum er vísbending um eitt.
Ástandið er verra en okkur hefur verið sagt hingað til.
Hvað er þá að marka þá fullyrðingu Jóhönnu Sigurðardóttur um að ríkisstjórnin hafi gert nóg fyrir fjölskyldurnar í landinu ef frumvörp hennar verða samþykkt?
Við erum því miður að horfa á raunverulega hættu á algeru kerfishruni vegna aðgerðarleysis minnihlutastjórnar sem stofnað var til með stuðningi Framsóknar með því fyrirheiti að fara ætti í róttækar aðgerðir til að slá skjaldborg um heimilin og fyrirtækin í landinu.
Ekkert slíkt hefur enn komið fram úr þeim herbúðum og tillögur annarra til að hefur verið tekið fálega, án rökstuðnings, bara útúrsnúningi. Slíkt er ábyrgðarhluti og er Jóhanna fallin af þeim háa stalli sem ég taldi hana vera á.
![]() |
Gjaldeyrisfrumvarp að lögum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Torlæsi Seðlabanka og fréttamanna á tillögur Framsóknar
30.3.2009 | 10:38
Það er með ólíkindum hvernig fjallað er um þær einu tillögur sem fram hafa komið til að koma heimilum landsins til aðstoðar, hinar 18 tillögur Framsóknar.
Samfylkingin telur nóg að gert, vill hneppa sem stærstan hluta almennings í skuldafangelsi greiðsluaðlögunar, sem letur fólk fremur en hvetur til að leggja hart að sér við að koma undir sig fótunum og VG komu ekki með neitt í efnahagsmálum á sínum landsfundi.
Sú tillaga sem mesta umfjöllun hefur hlotið, að fella niður 20% íbúðaskulda heimilanna, og jafnsetja þau þar með stöðunni fyrir hrun, var sett fram með einni aukasetningu sem enginn virðist vilja lesa. Tillögur Framsóknar voru nefnilega settar fram með mögulegu hámarki.
Í því sambandi væri í mínum huga eðlilegt að miða við hóflegt húsnæði, sem skv skilgreiningu Íbúðalánasjóðs er um 24 milljónir, sem þýddi 4,8 milljóna hámarksniðurfellingu, 2,4 milljónir á einstakling.
Þess í stað velta fjölmiðlar og nú Seðlabankinn sér eingöngu upp úr þeim hópi sem einmitt fengi ekki fulla niðurfellingu, sökum upphæðar lánanna.
Þetta er ómerkilegur málflutningur og villandi og ekki Seðlabankanum sæmandi.
![]() |
Ójöfn dreifing skulda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkurinn treystir Bjarna - en treystir þjóðin flokknum?
29.3.2009 | 23:31
Það verður áhugavert að sjá hvort forystuskiptin í Sjálfstæðisflokknum, svona kortéri fyrir kosningar muni hafa einhver áhrif á þá stöðu sem flokkurinn er kominn í.
Bjarni Benediktsson er að mínu viti hinn vænsti maður, sem vill landi og þjóð allt hið besta, þótt ég sé ekki sammála honum um það hvað það sé, sem er landinu fyrir bestu.
Þrátt fyrir þessa breytingu er nánast engin önnur breyting á Sjálfstæðisflokknum fyrir þessa kosningar. Frjálshyggjupésarnir hlutu allir góða kosningu í örugg þingsæti í Reykjavík, nánast óbreyttur listi í Kraganum, dæmdur maður í næsta öruggu þingsæti í Suðurkjördæmi, efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar fyrir hrunið í baráttunni í Norðausturkjördæmi og óverðskuldað laskaður fyrrverandi ráðherra í baráttusætinu í Norðvesturkjördæminu.
Það verður áhugavert að fylgjast með því hvort þjóðin treysti flokki sem stillir upp á þann hátt.
![]() |
Nýrri kynslóð treyst til verks |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |