Munu Davíð, Illugi og Bjarni beygja Geir?

Loksins heyrist eitthvað í þingmönnum Sjálfstæðisflokksins um efnahagsmálin. Illugi Gunnarsson og Bjarni Benediktsson kváðu sér hljóðs í ítarlegri og sjálfstæðislegri grein í miðopnu Morgunblaðs dagsins. Það er allrar athygli vert að þessi grein er birt um leið og Geir fer úr landi til að ræða við herrana í Brussel og á því óhægt um vik að svara henni.

Greinin byrjar sem réttmæt lofgjörð um árangur undanfarinna ára, hækkaðan kaupmátt og vöxt. Þó þora þeir ekki að segja satt með að líklegast hefur kaupmátturinn hækkað meira en efni stóðu til eða réttara sagt handbært fé, hafi í of miklum mæli verið fengið að láni, sérstaklega með innkomu bankanna á íbúðalánamarkaðinn. Í staðin er farið í árás á Íbúðalánasjóð sem Framsókn hefur staðið vörð um gagnvart íhaldinu, enda eitt mesta jöfnunartæki gagnvart efnahag og búsetu sem til er og hefur um langa hríð verið þyrnir í augu Sjálfstæðismanna. Vonandi stendur Samfylkingin sig í þeirri vörn, þótt maður sjái blikur á lofti í ljósi yfirlýsinga forsætisráðherra um einangrun félagslega þáttar sjóðsins, sem þýðir ekkert annað en að til standi að afhenda sjóðinn bönkunum.

Í rauninni væri það að gefa bönkunum ríkisábyrgð í þegar útgefnum skuldabréfum sjóðsins. Er það kannski ástæða þess að þeir nefna Íbúðalánasjóð sérstaklega? Stæðist það lög? Ég er ekki viss.

Ég er sammála þeim að leita eigi hámörkunar á þeim tekjum sem samfélagið fær af fyrirtækjum. Vel ígrunduð lækkun skattprósentu á fyrirtæki er örugglega spor á þeirri leið.

Svo er farið í fjaðrastuld þegar þeir segja "Fyrir nokkru var samin skýrsla um hvernig hægt væri að bæta umhverfi íslenska fjármálakerfisins og leggja þar með grunn að alþjóðlegri fjármálastarfemi hér að landi." Væri ekki drengilegt að halda því til haga að þessar fjaðrir eru í eigu Halldórs Ásgrímssonar? Það er kannski til of mikils mælst. Ágúst Ólafur Ágústsson, hinn gleymdi varaformaður Samfylkingarinnar, reynir einnig að gera hugmyndina að sinni í grein á næstu síðu Moggans, svo þeir eru ekki einir um þennan ásetning.

En það sem er þó merkilegast í þessari grein er að þeir benda góðlátlega á að setja eigi verðbólgumarkmið Seðlabankans með þeim hætti að þau séu trúverðug. Þetta er sama ákall og Þorsteinn Pálsson hefur gert í leiðara Fréttablaðsins og fleiri og fleiri. Seðlabankinn getur, að fengju samþykki forsætisráðherra, breytt markmiðum sínum án þess að lögum verði breytt. Miðað við horfur á markaði er ekki hægt að sjá annað en að verðbólgan sé og verði áfram há, svo ef einhver möguleiki á að vera að lækka vexti í bráð, sem verður að fara að gerast svo lítil og meðalstór fyrirtæki og almenningur lendi ekki í stórvandræðum, þarf tímabundið að sætta sig við hærri verðbólgumarkmið.

Ekki er hægt að skilja skrif þessara þingmanna Sjálfstæðisflokksins á annan veg en að Geir H Haarde hafi þráast við að breyta markmiðunum og nú komi þeir Illugi og Bjarni vini sínum Davíð Oddssyni til hjálpar við að beygja Geir til hlýðni, en hann hefur bara komið með óskir um 2-3 álver sem tillögur að bættu efnahagsástandi. Álver sem ekki er til losunarkvóti fyrir. Mætti ég frekar biðja um eitt álver á Bakka og svo frekar netþjónabú eða ámóta starfsemi fyrir afganginn.

Vonandi verður þeim að ósk sinni, svo við förum að geta séð fram á stöðugleika. Að honum fengnum er fyrst hægt að ræða um framtíðarstöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu. Ekki fyrr.


mbl.is Brýnt að grípa strax til aðgerða vegna bankanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Batnandi mönnum er best að lifa

Þegar félög innan Sjálfstæðisflokksins eru farin að ákalla eigin sjávarútvegsráðherra og fjármálaráðherra að setja aukin kraft í hafrannsóknir og það meira að segja opinberlega eins og FUS í Snæfellsbæ, hlýtur að vera farið að kólna í neðra. Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft bæði embættin í að verða tvo áratugi, svo hæg ættu heimatökin að vera.

En þetta er algerlega í samræmi við það sem Framsókn hefur haft á sinni stefnuskrá um árabil, en ekki fengið framgengi í stjórn, hvað þá núna þegar hún er komin í stjórnarandstöðu.

En eins og ég segi, batnandi mönnum er best að lifa og vonandi veit þetta á gott varðandi auknar hafrannsóknir við Ísland.


mbl.is Vilja að kraftur sé settur í þorskarannsóknir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóriðjustefna Samfylkingarinnar - hring eftir hring - hring eftir hring

Í tíð síðustu ríkisstjórnar var virkri stóriðjustefnu ríkisins hætt. Virk leit að erlendum fjárfestum með boðum um sérsamninga og fyrirgreiðslu var hætt og handvirk fyrirgreiðsla pólitíkusa var afnumin.

Frjálslyndi í stað stjórnlyndis.

Þessari staðreynd mótmælti og rangfærði Samfylkingin í kosningabaráttunni og gaf lítið fyrir orð Jóns Sigurðssonar sem lýsti staðreyndum málsins þó ágætlega. Var því statt og stöðugt haldið fram að Framsókn ætlaði áfram að stjórna meiri stóriðju inn í landið. Í dag koma þessir þingmenn upp og segja að Framsókn hafi tekið af öll stjórntæki í stóriðjumálum og nú hafi þau engin stjórntæki til eins eða neins.

Þetta kallar maður að tala í hring.

Um leið og frjálslyndið tók við af stjórnlyndinu sem Samfylkingin virðist vilja innleiða á ný, voru sett lög um losun gróðurhúsalofttegunda til að tryggja að við náum að uppfylla skuldbindingar okkar í loftslagsmálum, sem setja um leið ramma á hversu langt er hægt að ganga í stóriðjumálum. Ekki er samhljómur hjá Samfylkingarráðherrunum um hvernig eigi að nýta það sem eftir er af kvótanum. Einn ráðherra Samfylkingarinnar segir ekki meir, ekki meir, meðan annar segir á fundi á Húsavík að engin ráðherra Samfylkingarinnar hafi talað á móti álveri á Bakka. 

Sömuleiðis vildi Framsókn setja lög um verndun og nýtingu náttúruauðlinda, sem Samfylkingin kom í veg fyrir að yrði að lögum.

Höfum það á hreinu. Það var Samfylkingin ásamt VG sem kom í veg fyrir að lögin um vernd og nýtingu náttúruauðlinda yrðu samþykkt á sínum tíma. Það var einnig sama Samfylking sem kom í veg fyrir að sameign þjóðarinnar á náttúrulauðlindum kæmist í stjórnarskrá, þrátt fyrir loforð þar um.

Er það að fara í hring? Kannski er það bara að fara út og suður. Spurning hvort er verra.

Heimasíða rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma er vistuð hjá Landvernd. Ég hef ekki orðið var við að hún hafi verið uppfærð undanfarið og hef heldur ekki heyrt að starfið sé yfirhöfuð í gangi, þrátt fyrir búið sé að skipa nýja verkefnisstjórn fyrir þónokkru.

Skiladagur á að vera 1. júlí 2009. Eftir 16 mánuði. Ég ekkert heyrt af starfinu, bara tal um að gera þurfi áætlunina. Er virkilega ekkert í gangi þar?

Svo er spurningin hvort hringferðin sé ekki að verða enn hraðari, núna þegar Sjálfstæðisflokkurinn kemur fram með hugmyndir um frekari stóriðjuuppbyggingu sem viðbragð við efnahagsástandinu núna. Núna hlýtur að þýða snör vinnubrögð við gerð rammaáætluninar eða á að fara í þessar boðuðu aðgerðir framhjá henni?


mbl.is Náttúruperlum ekki kastað í forina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. febrúar 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband