ESB skilyrði Framsóknar eru raunhæf og eðlileg
22.4.2009 | 18:16
Þegar rætt er um aðildarviðræður við Evrópusambandið verður að hafa í huga að þeim er ætlað að gæta hagsmuna þjóðarinnar við inngöngu. Aðildarviðræður fjalla um varanleg samningsákvæði, undanþágur og aðlögun. Í aðildarviðræðum leggja þjóðir fram kröfur og óskir, m.a um varanleg ákvæði og tímabundnar undanþágur frá gildandi reglum sambandsins. Varanleg ákvæði í aðildarsamningi tryggja að breytingar á regluverki ESB muni ekki hafa áhrif á Íslandi í viðkomandi málaflokki, en tímabundnar undanþágur fela í sér aðlögunartíma eða markmið sem ná þarf áður en ákveðnar reglur taka gildi. Það er regla frekar en undanteking að þjóðir ná fram með vel rökstuddar kröfur í aðildarviðræðum.
Sjávarútvegurinn
Almenn þjóðarsátt er um að tryggja þurfi full yfirráð yfir fiskveiðiauðlindinni í samningaviðræðum. Mikilvægt er að tryggja forræði Íslendinga á auðlindum landsins í stjórnarskrá eins og framsóknarmenn hafa lagt til í tillögum sínum um auðlindasjóð. Íslendingar geta vísað í nokkur fordæmi varðandi yfirráð yfir fiskveiðilögsögunni. Má þar m.a. benda á samninga um Azoreyjar, Kanaríeyjar og Möltu. Einnig er að finna í gildandi reglum ESB hugtök eins og grenndarrétt, veiðireynslu og hlutfallslegan stöðuleika sem styðja við málsstað Íslendinga.
Það sem væri nýtt í kröfum Íslendinga eru meðal annars sérákvæði um flökkustofna og hvalveiðar, en þar mun reyna á íslensku samninganefndina og íslensku þjóðina í framhaldinu, ef þessar kröfur næðust ekki fram.
Ef fara á að áliti mannréttindanefndar SÞ er ljóst að auðvelda verður nýliðun í útgerð. Það þýðir með öðrum orðum að gera nýjum aðilum mögulegt að komast inn í greinina án þess að hafa veiðireynslu. Því verða aðrar hindranir en einungis veiðireynsla að gilda um íslenskan sjávarútveg.
Orkuauðlindir
Tryggja þarf yfirráð Íslendinga yfir öðrum auðlindum þjóðarinnar, eins og orkuauðlindum. Því verður að hafa inni heimildarákvæði um eignarhald á landi og tryggja stöðu auðlinda í þjóðareigu í stjórnarskrá. Þar til búið er að setja þetta ákvæði í stjórnarskrá, verður Alþingi að setja sérstök lög þar sem þessum yfirráðum er lýst, t.d. í tengslum við löggjöf um Auðlindasjóð. Þetta þarf að gerast áður en farið er í aðildarviðræður.
Landbúnaður
Í aðildarsamningi þarf að vera viðurkenning á að íslenskur landbúnaður sé heimskautalandbúnaður, en sú viðurkenning miðast í aðildarsamningi Svíþjóðar og Finnlands við 62. gráðu norðlægrar breiddar.
Sömuleiðis verður aðildarsamningur að fela í sér viðurkenningu á nauðsyn fæðuöryggis þjóðarinnar. Nauðsyn þessa ákvæðis sýndi sig í bankahruninu þegar lokaðist fyrir öll gjaldeyrisviðskipti. Þjóðin verður einnig að geta tekið á því ástandi sem kemur upp, þegar óáran geysar á heimsvísu, sbr spánsku veikina 1918 og heimsstyrjaldirnar. Slík skilyrði kosta neytendur eitthvað hærra matvælaverð, enda standast gylliboð Samfylkingarinnar um "evrópskt" matvælaverð við inngöngu í ESB hvort eð er enga skoðun vegna staðsetningar landsins.
Í aðildarsamningi þarf að vera skýrt að Íslendingar stjórni sjálfir framleiðslu og úrvinnslu íslenskra landbúnaðarafurða og geti verið sjálfum sér nægir um kjöt og mjólk og þannig tryggt fæðuöryggi þjóðarinnar. Heilbrigðiskröfur og sóttvarnir verða að fá að vera óbreyttar og þar með verða áfram að vera strangar reglur um innflutning dýra til landsins á þeim forsendum.
Gjaldmiðilsmál
Staða íslensku krónunnar og íslensks efnahagslífs kalla á tafarlaus viðbrögð. Með aðildarumsókn til ESB er mörkuð stefna í efnahags og peningamálum sem líkleg er til til að auka hér stöðugleika. Til að tryggja þann stöðugleika í sessi er mikilvægt að í viðræðuáætlun Íslendinga og ESB sé í upphafi gert ráð fyrir stöðugleikasamningi við Seðlabanka Evrópu og aðild að ERM2, sem er skilgreint aðlögunarferli þeirra myntsvæða sem stefna að upptöku Evru. En þannig fær íslenska krónan þann bakhjarl sem hún þarfnast meðan unnið að uppbyggingu efnahagslífsins og skilyrðum að aðild að Myntsamstarfinu er fullnægt og hægt að taka hér upp Evru.
Fullveldi þjóðarinnar og þjóðhættir
Skýr og einhliða úrsagnarréttur, sem í dag er þegar viðurkenndur í aðalsáttmála ESB, verði hluti aðildarsamnings og því viðurkenndur í eitt skipti fyrir öll.
Það er eðlilegt að fámenn þjóð geri þá kröfu í aðildarsamningi að hún njóti framvegis virðingar og stuðnings að því er lýtur að þjóðtungu og þjóðmenningu. Til dæmis skiptir það miklu máli að ESB viðurkenni sérstöðu íslenskrar tungu í stjórnsýslu og þýðingum.
Sama máli gegnir um ýmsar þjóðlegar venjur, t.d. matarhefðir og verndun á sérstökum framleiðsluheitum eins og skyri. Ýmis fleiri dæmi mætti nefna í þessu sambandi.
![]() |
Dregur saman með flokkunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Framsókn og frjálsu verkalýðsfélögin
22.4.2009 | 10:23
...eru á sama máli. Þau vilja róttækar lausnir sem duga og er leiðrétting skulda ein þeirra.
Því miður virðist ASÍ vera gengið í Samfylkinguna og segir því ekkert sem ekki hentar Samfylkingunni í kosningabaráttu hennar og þeir innan ASÍ sem hafa aðrar skoðanir og vilja berjast fyrir þeim eru hraktir á brott, eins og Vigdís Hauksdóttir fékk að reyna, þegar gjaldkeri Samfylkingarinnar og yfirlögfræðingur ASÍ rak hana fyrir að fara í framboð fyrir Framsókn.
![]() |
Þörf á tafarlausum aðgerðum í þágu heimila |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |