Samvinnuhugsjónin á erindi sem aldrei fyrr

 

Með bættum samgöngum og upplýsingatækni má segja að Ísland sé orðið allt eitt markaðssvæði, sem er þrátt fyrir það afar lítið og þótt settur hafi verið skýr og strangur rammi um samkeppnismál ríkir fákeppni á flestum mörkuðum og staða hvers og eins neytenda gagnvart seljendum vöru eða þjónustu er í flestum tilfellum veik. Á það sérstaklega við þegar seljendur vöru eða þjónustu hafa með sér samráð, eins og ítrekað hefur komið í ljós á undanförnum árum.

Svarið við vanmætti neytenda gagnvart þessu ástandi liggur í samtakamætti félaga í anda samvinnuhugsjónarinnar sem Framsóknarflokkurinn er stofnaður í kringum.

Út á hvað ganga samvinnufélög?

Samvinnuhugsjónin gengur sem sagt gegn þessari stöðu seljenda og skapar neytendum sterkari stöðu í viðskiptum. Þannig taka neytendur sig saman um sín viðskipti í samvinnufélagi og ná með því kjörum hjá seljendum þjónustu eða vöru, sem keppast við að ná stórum viðskiptasamningunum. Kjörin sem bjóðast standa félagsmönnum svo til boða að greiddum þeim kostnaði sem fellur til, en hagnaðurinn rennur til félagsmanna í formi hagstæðra kjara.

Í nútíma viðskiptaumhverfi er rekstur samvinnufélaga einfaldari en nokkru sinni fyrr og ætti að vera auðvelt að halda kostnaði í lágmarki. Útboð geta gengið hratt og auðveldlega fyrir sig og gætu félagsmenn lagt inn sínar pantanir eða viðskipti á vefnum og fengið bestu kjör á markaði hverju sinni.

Mætti hugsa sér að þeir sem hafa svipaðar þarfir í raforkukaupum tækju sig saman og biðu út raforkunotkun sína til þeirra sem selja slíka þjónustu, sama getur átt við um tryggingar húseigna og bíla, eldsneytiskaup og þess vegna bankaviðskipti, en minna má á að sparisjóðirnir og búsetafélögin eru einmitt samvinnufélög.

Í gegnum samvinnufélög geta þeir neytendur sem áhuga hafa á tiltekinni vöru eða framleiðsluháttum beitt samtakamætti sínum beint vöruþróun í þá átt sem þeir æskja. Mætti nefna samvinnufélag sem keypti inn lífræn matvæli fyrir félagsmenn, samvinnufélag sem keypti inn vörur sem uppfylla þá umhverfisstaðla sem þeir óska og samvinnufélag sem keypti inn "fair trade" vörur.

Fyrirtæki í rekstri í sömu grein eða sveitarfélög geta á sama hátt tekið sig saman um sín innkaup.

Ríkið hefur lengi nýtt sér grundvallarhugsun samvinnufélaga í gegnum Innkaupastofnun og Framkvæmdasýslu ríkisins með því að sameina innkaup stofnana til að ná magninnkaupum og þar með magnafsláttum.

Jarðvegurinn er frjórri en áður

Hinir nýju frjálsu markaðir í orkugeiranum, eftirlitsgeiranum og fleiri sviðum skapa ný tækifæri fyrir samvinnufélög í sinni tærustu mynd, sem ekki var áður til að dreifa og vegna bættra samgangna þarf ekki lengur að skilgreina starfssvæði hvers samvinnufélags með landfræðilegum hætti, heldur er hægt að skilgreina það með þeim hætti sem hentugastur í hverju tilfelli.

Nú er lag

Það er því löngu kominn tími til að skoða stofnun fleiri samvinnufélaga, en nefna má að í Bandaríkjunum er samvinnuformið það félagsform sem mest er stofnað af í dag, en það nýtur meiri hylli en t.d. hlutafélagaformið, þar sem atkvæðamagn er háð hlutafé og þeir stóru drottna, meðan í samvinnufélögum hefur hver félagsmaður eitt atkvæði á fundi, óháð umsvifum.

Neytendur taki markaðinn í sínar hendur

Vanmáttur neytenda gagnvart seljendum vöru og þjónustu er ekki eðlilegur og sjálfsagður. Það höfum við framsóknarmenn vitað um áratugi og teljum að erindi og nauðsyn samvinnuhugsjónarinnar sé jafnvel enn meira nú en í árdaga, þegar fátækir bændur á Húsavík stofnuðu fyrsta kaupfélagið til að skapa sér stöðu gagnvart okri kaupmanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hárrétt. Þó ótrúlegt sé þá erum við komin aftur að þeim gömlu og traustu gildum í viðskiptaháttum sem leystu þjóðina úr ánauð spilltra kaupsýslumanna.

Árni Gunnarsson, 10.2.2010 kl. 10:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband