Kuðungurinn veittur Bechtel

Var þess heiðurs aðnjótandi að vera skipaður formaður úthlutunarnefndar Kuðungsins, umhverfisverðlauna Umhverfisráðuneytisins.

Við fórum í gegnum þær tilnefningar sem bárust og voru þær afar mismunandi. Þegar ég gerði grein fyrir vali okkar sagði ég meðal annars um Bechtel:

"Óháð því hvaða skoðun menn hafa á álverum og byggingu þeirra, er það einróma mat allra sem hafa kynnst þeirri sýn sem Bechtel hefur á umhverfismál og það verkskipulag sem fyrirtækið viðhefur til að ná þeim markmiðum sem fyrirtækið setur sér, að þar er um að ræða algerlega nýja tíma í verktakastarfsemi á Íslandi.

Hver einasti verkþáttur er metinn með tilliti til hugsanlegra umhverfisáhrifa, öryggis og fleiri atriða, áður en verk hefst og hverjum einasta starfsmanni gerð grein fyrir því til hvers er ætlast af honum og starfsmönnum veitt skýr heimild til að stöðva verk, séu forsendur breyttar á þann hátt að umhverfinu sé ógnað. Öll umgengni er til fyrirmyndar, úrgangur er flokkaður í þeim mæli að aðdáun vekur og fleiri atriði mætti nefna, fráveitu, vatnsveitu.

Allir undirverktakar undirgangast sömu reglur og hljóta kennslu og þjálfun áður en verk hefst, en eru ekki skammaðir eftir að óhapp hefur orðið. Ég veit að margir hafa fussað og sveiað í upphafi, en eftir þjálfun og kennslu sem fyrirtækið veitir er viðhorfið allt annað. Hvert einasta frávik og næstumfrávik er skráð, greint og við því brugðist, þannig að eftir er tekið.

Á þann hátt hefur Bechtel fært íslenskum verktakaiðnaði mikla þekkingu og reynslu á vinnubrögðum, sem eru til mikillar fyrirmyndar og vernda umhverfið, bæta öryggi og á endanum hagkvæmni, þar sem engin tími eða kostnaður fer í súginn vegna mengunaróhappa, vinnuslysa eða annarra tjóna.

Fumlaus og ákveðin vinnubrögð svífa yfir vinnusvæðinu og vonandi verður þessi viðurkenning til þess að vekja athygli sem flestra á þeim góða árangri sem Bechtel hefur náð og aðrir verktakar geta náð, tileinki þeir sér það verklag sem þeir hafa kynnt okkur í starfsemi sinni."

Til hamingju Bechtel


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Þú hlýtur bara að vera framsóknarmaður

Heimir Eyvindarson, 25.4.2007 kl. 23:18

2 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Bara? Það er nú bara heilmikið skal ég segja þér...

Gestur Guðjónsson, 25.4.2007 kl. 23:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband