Hvenær eru gjafir og skemmtun mútur?

Fékk erlendan aðila tengdan olíuiðnaðinum í heimsókn um daginn. Að loknum erindunum fór ég með hann í stuttan útsýnistúr um Þingvelli, sýndi honum Nesjavelli og svo var farið út að borða. Ekkert sérstakt þannig séð enda hefur maður ávallt litið á það sem eðlilegan hlut að sýna útlendingum stoltur landið sitt, þegar þeir eru komnir alla þessa leið.

Í bílnum bar margt á góma og vakti eitt af því mig til umhugsunar. Tjáði hann mér að sum af stóru olíufyrirtækjunum, eins og ExxonMobil og Shell, þvertaka algerlega að starfsmenn þeirra taki á móti nokkrum gjöfum eða þiggi eitthvað ígildi gjafa.

Er starfsmönnum þeirra til dæmis uppálagt að greiða ávallt fyrir sinn mat þegar farið er út að borða og sagði hann rúnt eins og við fórum á mörkunum...

Maður skilur alveg hvert fyrirtækin eru að fara í þessu, þótt manni þyki kannski langt gengið í skilgreiningum. Þetta er náttúrulega í rauninni ekkert annað en kaup á viðskiptavild, sem hægt væri að kalla mútur. Gjafir bankanna til okkar, t.d. fékk ég einhvern grillhanska um daginn, eru það mútur eða eru það eðlileg áminning og auglýsing til þeirra viðskiptavina sem þeir hafa og hvað má kalla laxveiðitúra allra stóru fyrirtækjanna? Hvar liggja mörkin? Hljóta þau ekki að liggja einhversstaðar þar sem viðskiptadómgreind þess sem nýtur fer að skekkjast? Þau mörk eru að sjálfsögðu mismunandi milli einstaklinga...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Einars

Þetta er vooooðalega fín lína og oft virðist sem það sé erfitt að sjá nákvæmlega hvar hún liggur.  En auðvitað finnum við það öll í samviskunni, spurningin er bara hvort við viljum viðurkenna það fyrir sjálfum okkur eða ekki.  Fjöldasendingar eins og grillhanskar, sumargjafir, jóladagatöl og slíkt eru ekki mútur og í mínum augum ekki auglýsing heldur.  Maður ætlast til þess að stórfyrirtæki, sem maður er í miklum og stöðugum viðskiptum við, endurgreiði manni viðskiptavildina á einhvern hátt.  Þannig fæ ég sem viðskiptavinur, þá tilfinningu að viðskipti mín séu einhvers metin.  Þegar þessi fyrirtæki græða svona mikið á manni eins og þau gera, þá kemur það verulega illa út fyrir þau, "almenningsálitslega séð", að sitja sjálf á öllum gróðanum og deila engu með öðrum.

Laxveiðiferðir og dýrari gjafir er allt annað enda algjör óþarfi, hér er um beinar mútur að ræða og allir menn með einhverja sjálfsvirðingu ættu að afþakka slíkar ferðir nema þær standi til boða ÖLLUM viðskiptavinum fyrirtækisins. (sbr. fjölskyldudagar Stöðvar 2 í húsdýragarðinum, fjölskyldugrillveislur bankanna og slíkt).

Í mörgum tilfellum, eins og því sem þú nefnir hér að ofan, verða menn að draga mjög skýr mörk og eiga menn oft á hættu að hreinlega missa vinnuna fari þeir yfir mörkin.  Rétt skal vera rétt og engir útúrsnúningar leyfðir.  Það býður bara vandræðum heim

Sigrún Einars, 27.7.2007 kl. 11:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband